sunnudagur, október 31, 2004
laugardagur, október 30, 2004
...nei ekki nærri búið...:(
Var svo að vona að þessi miðlunartillaga væri eitthvert alvöruplagg. Þess vegna voru vonbrigði mín mikil þegar ég fékk að glugga í hana í gærdag. Þetta er nánast sama plagg og launanefndin okkar hafnaði fyrir viku. Héldu menn að sú höfnun væri í trássi við vilja okkar kennara? Eða er þetta svona Macchiavellísk aðgerð hjá Ásmundi/Halldóri til þess að fá kennnara til þess að samþykkja enn einn prumpsamninginn? Við mætum sem sagt í skólann á mánudaginn og tökum á móti nemendum okkar og vitum um leið í hjarta okkar að við munum hafna þessari tillögu og senda þessar elskur aftur í verkfall. Það er ekki auðvelt að gera slíkt og það vita þessir menn og ætla enn einu sinni að misnota hjartagæsku hinnar kvenlegu stéttar. En ég er fullviss um að þessi tillaga verður felld, (við erum að verða svo ókvenlegar og harðbrjósta)...og hvað gerist þá? Um þessi mál eru miklar og málefnalegar umræður á spjalli kennarar.is og ég mæli með að allir sem vilja kynna sér málið niður í kjölinn heimsæki þessa spjallrás. Við getum ekki gefið börnum okkar framtíðina, hve mjög sem við reynum að tryggja hana. En við getum gefið þeim tímann sem er að líða. -Ókunnur höfundur- |
föstudagur, október 29, 2004
Búið?
| Fékk símtal upp úr klukkan 8 í morgun um að mæta upp í skóla klukkan 10 á fund. Hafði verið búin að lofa mér annað um hádegið svo þetta kom svolítið flatt upp á mig. Fæ að vita á eftir hvað felst í þessari tillögu. Vonandi er hún góð, því annars er hætt við að hún verði felld og þá hefst allt brasið aftur. Merkilegt hvað 6 vikur eru algengur tími í verkföllum. Skyldi það vera tilviljun? Eða á maður að taka undir orð Álfrúnar í sögunni Kaldaljós um að ekkert sem gerist í heiminum sé tilviljun. Fær mann allavegan til þess að hugsa ýmislegt, svo ekki sé meira sagt.
Nóg í bili. Verð að fara að VINNA (yndislegt orð:). |
fimmtudagur, október 28, 2004
Það sem mér liggur á hálsi í dag er.....
Það helltist yfir mig svoleiðis heiftarleg hálsbólga með útibúi alveg upp í eyrun í fyrradag og ég var sérlega framlág í gærdag. En eftir góðan og mikinn nætursvefn, heilmikla tedrykkju, verkjalyf og hálstöflur er ég loksins að skríða saman. Ákvað meira að segja í hálfgerðu flippi að skrá mig á byrjendanámskeið í gítarleik á vegum símenntunarstofnunnar. Haldið ekki að ég verði óþolandi í kennslunni, þegar ég hef loksins eitthvað til að glamra á þegar ég er að láta börnin syngja. Þeim verðu sko ekki sleppt með eitt lag á dag .....hehe. Það eru háværar raddir í dag um það að einhver miðlunartillaga verði lögð fram í dag og þá muni verkfallinu verða aflýst með de samme. Veit ekki hvort þetta gerist svona hratt.....en ekki verð ég ókát ef eitthvað gott fer að gerast. Mammsan mín og Kallinn hennar keyptu sér ferð til Spánar í gær og flugu út í dag. Fengu tilboð á netinu sem ekki var hægt að hafna. Það er merkilegt með þetta eldra fólk, hvað það er spontant og þarf lítinn tíma til að velta hlutunum fyrir sér. Fimmhundruð foreldrar og grunnskólabörn héldu fund á Austuvelli í gær og mótmæltu því að nemendur fengju ekki lögboðna kennslu. Það var sætt að sjá myndirnar að krökkunum með kröfuspjölin sín " Kennarinn minn á skilið hærri laun" og "Ég vil fá skólann minn aftur". Það er ekki á þessum börnum að sjá að þau séu óánægð með þá kennslu sem þau fá í skólanum. "Hvað er að krökkum í dag?" spurði bróðir minn mig í gær, "Þau eru að heimta það að fá að koma aftur í skólann. Við hefðum aldrei gert það þegar ég var krakki". Er von að hann spyrji. Það hefur nefnilega margt breyst í íslensku skólakerfi og þá flest til hins betra. Í dag er lögð veruleg áhersla á að nemendum líði vel í skólanum og reynt að koma til móts við hvern og einn á hans forsendum. Þetta er auðvitað ekki létt verk, en þetta hafa íslenskir kennarar gert og aðlagað sig að breyttu samfélagi hraðar heldur en margir aðrir. Íslenskir skólar eru flestir að vinna gott starf og metnaðarfullt. Erlendir fræðslukólfar sem hafa heimsótt okkur á undanförnum árum eru til að mynda afar hrifnir af því sem verið er að gera í skólunum hér og þegar íslenskir kennar heimsækja aðrar þjóðir og skoða skólana þeirra, verða þeir oft á tíðum hissa á því hversu framalega við stöndum í samanburðinum. Kannski er það þessi vitundarvakning íslenska kennarans sem hefur gert hann stoltari af starfi sínu en hann áður var og þessvegna tilbúnari til að berjast fyrir mannsæmandi kjörum. Hver veit? Markmiðið með kennslunni er að undirbúa þá ungu til þess að kenna sjálfum sér það sem eftir er ævinnar. - Robert Maynard Hutchins- |
þriðjudagur, október 26, 2004
Leiðinda langloka
| Allt í einu urðu til peningar sem voru alls ekki til áður. Hlustaði á tvo íðilsnjalla spekinga koma með byltingakennda hugmynd í Kastljósinu í kvöld, hugmynd sem átti landa samningum. Nú skyldi binda kennara í skólanum frá 8 - 16 alla dag og vinna þar undir stjórn skólastjóra öll þau verk sem til féllu. Samið skyldi við hvern og einn hvað hann ynni og þegar hann væri búinn að því þá myndi hann annaðhvort fá frí það sem eftir væri vikunnar(hvað með kennarfundi, samráð oþh?), eða fundin yrðu handa honum önnur störf (hvaða?). Fyrir þetta á svo að greiða 300. 000 eða meira að meðaltali í laun. Auðvitað kæmi engin kennsluskyldulækkun inn í þetta og þ.a.l enginn kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin og allir myndu hækka verulega í launum. Og komið væri í veg fyrir að kennarar væru að slugsa eitthvað í vinnutímanum. Þetta lítur auðvitað stórkostlega út fyrir venjulegan leikmann, en nú skal skoða þetta nánar.
Ég kenni núna fulla stöðu, 28 stundir og sit yfir bekknum mínum 5 sinnum í viku í matartímanum að auki fer ég tvisvar sinnum út í frimínútnagæslu í hverri viku. Þegar veikindi herja á í skólanum reyna flestir kennarar að bjarga málunum og hlaupa í skarðið svo ekki þurfi að senda nemendur heim á miðjum morgni, ég tek að sjálfsögðu þátt í því. Fyrir þessi "aukaviðvik" fæ ég sérstaklega greitt í núverandi kerfi enda ekki hluti af eiginlegri kennsluskyldu minni. Ég sit kennarfund einu sinni í viku frá rúmlega 2 til 4 og einn stigsfund að auki. Þá þarf árgangurinn minn að hittast til samráðs amk. einu sinni í viku hverri, samtals eru þetta 5 - 6 klukkutímar, varlega áætlað. Ég held úti netsíðu á skólatorginu fyrir bekkinn minn sem ég uppfæri vikulega, alltaf á föstudögum. Nemendur mínir hafa töluvert frjálst val í heimavinnunni sinni og eru þess vegna einkar duglegir að vinna hana og ég er yfirleitt milli 3 og 4 klukkutíma að fara yfir hana og gefa umsagnir. Þess fyrir utan tek ég þátt i öllum endurmenntunarnámskeiðum á vegum skólans og tek þátt í vinnslu skólanámskrár og sit skilafundi vegna nemenda minna. Hér er ég ekki búin að nefna þá daga þegar eitthvað kemur upp á hjá nemendum og þörf er á því að hringja heim til foreldra og/eða kalla þá á fund. Þá er enn eftir tími til undirbúnings fyrir kennslustundirnar. Ég þarf auðvitað að lesa mér til ef ég er að fara í nýtt námsefni, búa til einstaklingsmiðuð verkefni fyrir nemendur, taka til efni fyrir hina ýmsu verkefnavinnu, ljósrita hefti, skipuleggja vinnusvæði í kennslustofunni og skrifa skýrslur. Nú á enn ég eftir að taka fyrir námsmatþáttinn, prófagerð, yfirferð, mismunandi námsmat eftir mismunandi greinum og margt fleira.Þessa vinnu hef ég unnið undanfarin ár og ég sé ekki að ég hafi nokkurn tíma til þess að bæta á mig öðrum störfum ef skólastjórnum mínum þóknast svo. En ég gæti ekki neitað...ef ég yrði beðin..eða hvað? Það er mín reynsla að kennarar eru upp til hópa vinnusamir og samviskusamir. Ég fer t.d. oft upp í skóla um helgar til að klára undirbúning fyrir komandi kennsluviku. Það bregst ekki að ég hitti þar einn eða fleiri kennara í sömu erindagjörðum á meðan ég er á staðnum. Ég fullvissa ykkur um flestir kennarar eru að vinna vinnuna sína, jafnvel þó hún sé stundum unnin á eldhúsborðinu heima hjá þeim eða í þeirra einkatölvum. Það er líka alveg ljóst að mér tækist aldrei aldrei yfir að klára vinnuna mína innan þessa tímaramma 8-16 frekar en mér tekst það núna. Þá þyrfti að fara að borga mér yfirvinnu - ekki satt?..og þá þyrfti að koma upp stimpilklukkukerfi, sem yrði alls ekki sparandi fyrir laungreiðendur okkar þegar upp væri staðið. En kannski er bara málið að samþykkja "tillögu" snillinganna og halda bara áfram að vinna eins og maður hefur alltaf gert og fá kannski 400.000 krónur í vasann en vera að öll kvöld og helgar eins og venjulega. Allavegana virðast allt í einu vera til peningar, ef marka má þessa heiðursmenn......eða er þetta bara enn eitt útspilið til þess að tefja fyrir samningum og flækja málin enn meira? Heldur fólk í alvörunni ef það yrði gerð svona mikil skipulagsbreyting eins og þeir virðast halda að þetta sé að það þurfi ekki að útfæra hana? Sem kennari ég ég upplýst ykkur um það að skipulag tekur tíma.....og tími er ekki það sem íslensk skólabörn hafa til aflögu í dag eftir næstum 6 vikur í verkfalli. Vinnuálag á kennara er nú þegar orðið mjög mikið, það er engin ástæða til þess að auka það. Slíkt kæmi bara niður á gæðum kennslunnar, en líklega er það ekki áhyggjuefni þessara manna. Þið ykkar sem nenntuð að lesa þessa langloku, bið ég að fyrirgefa mér tuðið, en ég er orðin svooo þreytt á þessum sögum af peningum sem eru stundum til og stundum ekki. |
mánudagur, október 25, 2004
Í Kastljósinu
| Horfði á Kastljósið áðan þar sem rætt var við þá Þorstein Sæberg skólastjóra og Jón Pétur Zimsen kennara, ásamt fulltrúa foreldra frá samtökunum Heimili og skóli. Verð að segja að það var ánægjuleg tilbreyting að heyra talað við einhverja úr okkar stétt, ekki bara alþingismenn, sveitarstjórnarmenn eða fulltrúa úr launanefndunum. Þarna voru umræðurnar afar málefnalega og faglegar í alla staði. Sjónarmiðin komu skýrt fram og aðalatriðin skilin frá karpi um aukaatriði. Ég var allavegana verulega ánægð með "mína menn". Konan sem var fyrir Heimili og skóla var einnig ákaflega málefnaleg og kom vel fram fyrir hönd sinna samtaka. Forsætisráðherrann okkar nýskipaði, skipaði ríkissáttasemjara að kalla til sín deiluaðila á morgun og ræða málið og reyna að koma sér saman um einhverja lausn. Tvær vikur í bið væru algerlega óásættanlegar. Sammála því, engin ástæða til að sitja og bíða....tíminn líður..26 kennsludagar burtu flognir nú þegar. Það verður ekki auðvelt að koma til baka og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Allt skipulag vetrarins verður að endurskoða og laga að breyttum aðstæðum. Nú verður kennslan í skólunum fyrst almennilega "einstaklingsmiðuð". því það er morgunljóst að nemendur hafa verið ákaflega misduglegir heima að læra í verkfallinu.
|
Í byrjun 6.viku verkfalls
Í yndislega fallegu en svolítið köldu haustveðri gengum við nokkrar í morgun. Enduðum svo í "afgangaveislu" hjá Önnu Margréti. Það var alveg ferlega gott og þær sem ekki mættu í gönguna í morgun geta sjálfum sér um kennt...annars hefðu þær líka fengið svon óvænt kaffiboð. Sótti svo þann 7 ára til vinar síns og fékk mér kaffsopa hjá Sillu...hún hellir nebbnilega upp á besta kaffi í bænum :) Þeir félagar ákváðu svo að þeir yrðu að gista saman í kvöld, nota tímann á meðan verkfallið er, nema hvað. Það hefur verið dálítið áberandi í umræðunni um helgina hvort við ættum að leggja samningana í gerðadóm. Sitt sýnist hverjum, kennarar eru á því en samninganefnd sveitarfélaga er alfarið á móti því. Hvernig skyldi standa á því? Kannski er nefndin hrædd um að gerðadómur fyndi einhver "sanngjörn" laun á stéttina. Laun sem þeir augljóslega, miðað við tilboðin sem þeir hafa sent frá sér, eru ekki tilbúnir til að borga. Fundur var með deiluaðilum, í sitthvoru lagi, hjá forsætisráðherra og menntamálaráðherra í dag og hefur fundur verið boðaður á morgun. Jessss....kannski kemur eitthvað bitastætt út úr því. Nú er 6. vika verkfalls að renna upp og margir "spámenn" höfðu einmitt spáð því að þá færi verkfallið að leysast, því þá væri búið að "spara" nóg. Minnið ætti að vera forðabúr en margir gera það að ruslakistu. -Ókunnugur höfundur- |
sunnudagur, október 24, 2004
Talandi um að "selja" vinnu sína
| Gvuuuð.... hvað ég er heppin að vera ekki ljóshærð, þybbin kennslukona með hnút í hárinu og gleraugu á fíngerðu nefinu. Annars þyrfti ég bæði að fara í litun og megrun til þess að bægja frá mér grunsemdaraugum þeirra sem lesa Fréttablaðið. "Skildi þetta vera kennsluvændiskonan?" myndi verða pískrað í kringum mig þegar ég færi út í búð. Fannst þessi frétt svolítið grátbrosleg í miðju verkfalli. En kannski verður hún til þess að auka samúð með málstað okkar......hver veit.
|
laugardagur, október 23, 2004
Í fínu boði
| Eftirmiðdeginum var eytt í ákaflega skemmtilegt samkvæmi sem skólastýran okkar hélt í tilefni þess að hún var að klára masternámið sitt. Þarna voru mættir margir frammámenn og konur í íslenska skólakerfinu. Það voru auðvitað kennararnir hennar úr kennó, samstarfsfólk í gegnum tíðina, fjölskyldan og svo síðast en ekki síst; við í Borgaskóla. Ræður voru haldnar og tónlistaratriði flutt en ég held að besta atriðið (og nú er ég sko ekki hlutdræg:) hafi verið þegar Konunglegi söngflokkurinn úr Borgaskóla steig á stokk og flutti með glæsibrag tvo frumsamda texta um skólstýru dagsins. Veitingar voru vel úti látnar og viðmælendur vel viðtalandi...er hægt að biðja um meira? Fjórir aðrir Borgskælingar útskrifuðust frá Kennó í dag. Sendi hamingjuóskir til þeirra allra.
Nenni ekki að skrifa meira, ætla að henda mér í Sunnudagskrossgátuna í Mogganum. Þetta er nebbnilega virkilega skemmtileg leikfimi fyrir hugann. (Maður svitnar næstum því:) Mæli með því að allir sem aldrei hafa reynt sig við hana, reyni sig við hana amk. einu sinni. |
föstudagur, október 22, 2004
Bras og þras
Hefði getað farið að gráta, þegar ég heyrði fréttirnar í gær. Slitnað upp úr og fundur ekki boðaður fyrr en í nóvember. Nú á aldelis að láta fólk panika. Heyrði líka á samkennslukonum mínum í morgun að þær upplifðu þetta sama og ég í gær. Nú hafa sveitarfélögin grætt milljarð á verkfallinu og ættu því að getað borgað betur en þeir buðu síðastliðið vor, en þeir bera enn við miklum blankheitum en vilja ekki biðja um aura frá ríkinu til að hjálpa sér. Ergó...þeir telja að staf okkar sé ekki merkilegra né mikilvægara en svo, að greiða beri fyrir það örlítið hærra en ófagmenntaður einstaklingur fær fyrir vinnu á kassa í búð (með fullri virðingu fyrir viðkomandi). Frú Þorgerður Katrin -aka Þyrnirós vaknaði loksins á fundi á Akureyri í morgun og sýndi þá loksins á sér aðra hlið varðandi þessa deilu. Hún sagði að henni fyndist krafan um 230.000 krónurnar árið 2007 ekki óraunhæf og að líklega yrði ríkið að grípa inn í þessa deilu. Einnig að til greina kæmi að skoða hvort þessum málaflokki væri ekki betur borgið hjá ríki heldur en sveitarfélögunum. Hún hækkaði töluvert í áliti hjá mér við þessi ummæli, því þau eru ekki endilega í takt við það sem aðrir í ríkistjórninni hafa látið frá sér fara. Spennandi að sjá hvað gerist á næstu dögum.
|
fimmtudagur, október 21, 2004
Er kennsla eitthvað til að gera veður út af?
Fór í þessa líka fínu kröfugöngu í gær niður Laugarveginn. Þótt það væri helv....kalt, þá voru 3000 manns mættir á svæðið og sumir meira að segja vopnaðir frumlegum kröfuspjöldum. Á einu stóð t.d. "Heimskt er heimaalið barn - líka hjá veðurfræðingum" og á öðru var nokkurskonar námsmat fyrir menntamálaráðherrann; "Þorgerður Katrín. Haustönn 2004, *Oft fjarverandi, *Fylgist illa með, *Þarf að bæta sig". Ég hafði ætlað að taka þann 7ára með mér í gönguna , en veðrið niðri í bæ var svo miklu verra, heldur en hér í Grafarvoginum, að ég sá þann kost vænstan að stinga honum inn hjá Aroni bróður á meðan. Um kvöldið skrapp ég svo til Ragnhildar í jólakortagerð. Þar mættu nokkrar vaskar kennslukvinnur og dunduðu sér við föndur frameftir kvöldi. Heyrði endurtekið viðtalið við Hafstein skólastjóra í Salaskóla í útvarpinu á leiðinni heim. Hann talaði um að honum fyndist ekki rétt að kennarar þyrftu að fara í verkfall til þess að knýja fram lækkun á kennsluskyldunni sem væri einungis til bóta fyrir skólastarfið í landinu en kæmi ekki til launahækkunnar hjá hverjum kennara. Það væri löngu tími til kominn til að ræða launahækkanir og hætta þessum hringlandahætti. Var bara töluvert sammála honum og held að svo sé um marga kennara. Auðvitað stöndum við með samninganefndinni, en það hefur alltof langur tími farið í "smáatriði" og karp um keisarans skegg. Það eru allir komnir með nóg af þessu verkfalli, en það hefur staðið alltof lengi til þess að við getum gefist upp eða gefið eitthvað eftir. Byrjuðum með alltof hógværar kröfur, okkar mistök, þess vegna er erfitt að gefa eitthvað eftir. Ég hef orðið fyrir gífurlegum vonbrigðum með nánast alla stjórnmálamennina sem koma að þessu máli, hvort sem þeir sitja á þingi eða í sveitarstjórnum, öllum virðist standa á sama um hvort og hvernig þetta leysist. Ef ekkert breytist til batnaðar á næstunni, mun krossinn minn í næstu kosningum verða skilinn eftir heima og atkvæðaseðli skilað auðum. Það skiptir engu máli hvernig kötturinn er á litinn, bara ef hann veiðir mýs. -Deng Xiaobing-
|
þriðjudagur, október 19, 2004
Ostur ...er ekki bara veislukostur
Byrjaði daginn á skúringum og skemmtilegri tiltekt, enda ekki vanþörf á. Hélt svo uppúr hádegi upp á Höfða í súpu með osti og brauð í boði skólastýranna okkar. Það var verulega gaman að hitta allt samstarfsfólkið og spjalla. Ekki skemmdi heldur fyrir að við fengum kaffi og konfekt á eftir. Sá í póstinum mínum þegar ég kom heim nokkur ímeil frá PLC - skvísunum um að ég yrði að bjóða þeim í saumó, vegna þess að mér hlyti að leiðast óhugnalega í verkfallinu. Auðvitað tók ég vel í það og samþykkti allar uppástungur. PLC - klúbburinn er félagskapur 6 "stelpna" sem varð til á menntaskólaárunum. PLC stendur fyrir "the Pepper Ladies Club" og hafði mjög svo merkilegan tilgang á sínum tíma og starfaði eftir heimasmíðaðri kenningu - Ostakenningunni. Hún hljóðar einhvernveginn svona: Karlmaðurinn er ostur samfélagsins, en konan brauðið. Það er alveg sama hversu úldinn og illa lyktandi hann er, það er alltaf einhver sem vill gamlan, myglaðan ost. En hver vill gamalt brauð? Er því ekki bara fleygt í endurnar? Því hlýtur það að vera markmið hverrar einustu "normal"- brauðsneiðar að ná sér í ostbita annaðhvort til hlífðar og verndar eða bara sem álegg. Við hittumst auðvitað reglulega og gerðum okkur glaðan dag á þessum árum (the eighties greaties) og héldum meira að segja dagbók um ævintýri okkar á öldurhúsunum. Þessi dagbók er enn til og verður örugglega notuð sem skiptimynt þegar harðna tekur á dalnum. |
mánudagur, október 18, 2004
Kalt mat
| Það stóðu nokkuð hundruð kuldabláir kennarar fyrir framan Karphúsið um eitt leytið í dag og sungu barnasöngva og hrópuðu "Við gefumst aldrei upp! Við gefumst aldrei upp!" Fannst það svolítið hallærislegt. Ég er nebbnilega svona þögul týpa sem vil sem minnst tjá mig um hlutina.:) En án gríns, þá fannst mér alveg nóg að mæta á staðinn, óþarfi að hrópa eitthvað. Vorum með eldhúsvaktina eftir hádegi og það kláruðust nánast allt sem lagt var á borð á rúmum klukkutíma. Enda við ekki fjölmennur skóli, en eins og allir vita þá er magn ekki sama og gæði svo þetta reddaðist auðvitað með sóma hjá okkur.
Vinur minn kíkti í heimsókn í gærkveldi og var tíðrætt um kennaraverkfallið. Honum fannst við ekki hafa verið nægilega dugleg að koma sjónarmiðum okkar á framfæri og auglýsa okkur sem skildi. Sem dæmi tók hann fulltrúa okkar í undanþágunefnd. Hún veitti helst ekki viðtöl og útskýrði ekki afstöðu kennara, á meðan mætti ungi lögfræðingurinn sem situr fyrir hönd sveitafélaganna í sjónvarpið og sagði heilagur á svip "Við viljum allt fyrir fatlaða gera, það stendur ekki á okkur. Það eru kennarar sem vilja ekki einu sinni mæta á fund." Ef okkar fulltrúi hefði bara sagt strax eins og var, að það væri sjálfsagt að veita undanþágur ef sveitafélögin væru tilbúin til að borga laun allra kennara sem þyrftu að mæta upp í topp, þá væri boltinn aftur kominn til sveitafélaganna og við ekki lengur vonda fólkið. Kalt mat; ég verð að viðurkenna að ég var bara töluvert sammála honum. Las frábæra Bakþanka eftir Þráin Bertelsson í dag. Framtíðarsýn etftir 50 ár þar sem erlendir ferðmenn flykktust til Íslands til að, berja augum fyrsta landið í heiminum sem viðurkenndi að menntun væri einskis virði. Hvet alla til að kíkja á þessa snilld. Það er alkunnugt að sum staðar er ekki eins mikið álit á kennurum og vera ætti; kennarastarfið er ekki metið að verðleikum. Menn og konur sækjast með græðgi eftir auðæfum, skemmtunum og vilja sem mest láta á sér bera en fyrirlíta strit þeirra manna í skólastofunni sem eru að leggja grundvöllinn undir líf þeirra barna sem eiga að verða menn og konur framtíðarinnar. D.C. Murphy |
sunnudagur, október 17, 2004
Helgarflétta
| Helgin var undirlögð í keppni hjá börnunum. Sá 7 ára tók þátt í sínu fyrsta skákmóti í dag og stóð sig með sóma. Náði 3ja sæti eftir mikinn barning, tár og trega. En þegar upp var staðið var það hreykinn snáði sem hélt heim á leið með bronspening um hálsinn og Andrésblöð í poka.
Heimasætan lét heldur ekki sitt eftir liggja og keppti með liði sínu Fjölni júnæted á Íslandsmótinu í handknattleik. Þeim gekk bara nokkuð vel miðað við mannskap og stóðu sig vel. Mér fannst það þó afar undalegt að bjóða 12 og 13 ára stelpum upp á það að spila 7 leiki (2X15mín) á tæplega einum og hálfum sólarhring. Enda voru þær lúnar og lemstraðar þegar þær gengu af velli í dag. Sæi fullorðna íþróttamenn láta bjóða sér þetta. Það hefur kólnað verulega að undanförnu, en samt hefur veðrið verið stillt og fremur þægilegt til gönguiðkunar. Vonandi verður svo áfram, svo við getum haldið áfram að arka í verkfallinu. Horfi á hvítleit skýin
hanga kærulaus á gráum himninum. Án festingar án öryggisnets skítsama um það hvar þau eru né hvert þau eru að fara. Safna í sig sýnishornum af veröldinni og svífa þar til þeim sortnar fyrir augu. Leka niður af þreytu
og sofna gegndrepa á fjallstindum eða hafsbotni. Rísa svo á einhverjum degi aftur upp til himna nýfædd hvítklædd óhrædd |
föstudagur, október 15, 2004
Í bleikum draumi
| "Ég styð ykkur af heilum hug" sagði mamma eins nemanda míns frá því í fyrra, "þó ég þurfi að snúast heilmikið til þess að redda börnunum mínum á meðan á þessu stendur. Við í minni fjölskyldu stöndum með ykkur" Ég fann hve þessi fáu orð gerðu mikið til að létta á sálartetrinu. Eins og umræðan í samfélaginu hefur verið að undanförnu hefur manni fundist sem lítill skilningur væri á þessum hógværu kröfum kennara. Kannski hefði verið snjallara að setja markið á laun framhaldskólakennara og bakka svo göfugmannlega niður í þessa kröfu sem við erum með núna og geta þá sagt "Við höfum gefið heilmikið eftir!".
Birgir Björn sagði í Fréttasneplinum í dag að kennarar hefðu hafið þetta verkfall og það væri í þeirra höndum að ljúka því. Var að hugsa um að taka upp telefónið og bjalla á hann og segja si sona: "Biggi minn, nennum ekki að vera í verkfalli lengur og erum tilbúin að hætta úr því að þú ætlar að ganga að kröfum okkar." Þá segir hann ábyggilega bara ljúfmannlega: "Mál til komið, dúfan mín. Var bara að bíða eftir því að þið segðuð til." Svo myndum við ganga frá samningi okkar á milli og allir yrðu kátir. Líklegt? Nei ætli það...bara í súrrealískum bleikum draumi. Talandi um bleika drauma. Kíkti aðeins við í verkfallsmiðstöðinni í dag. Þar stóð Rimaskóli fyrir bleikum eftirmiðdegi. Allir mættu í einhverju bleiku og allt bakkelsið var bleikt. Hitti þar margt skemmtilegt fólk sem lá ýmislegt á hjarta. Þó þungt hljóð væri í því og flestir svartsýnir á að deilan myndi leysast fyrr en eftir 2-3 vikur, í fyrsta lagi, þá var enginn uppgjafartónn. Við hófum þessa baráttu og verðum að halda hana út, annars erum við verr sett heldur en við vorum áður en lagt var af stað. Að safnast saman er upphafið. Að halda saman er framför. Að vinna saman er sigur. -Henry Ford- |
fimmtudagur, október 14, 2004
Stöðutákn
| "Þú ert stöðutákn" sagði vinkona mín og glotti. "Já, stöðutákn mannsins þins, vitnisburður um hversu góð fyrirvinna hann er", bætti hún við. Maðurinn minn var virkilega kátur þegar ég sagði honum þetta. Hafði alltaf langað í stöðutákn. Gott þegar hlutirnir eru settir í rétt samhengi. Svona þarf lítið til að gleðja suma. Ég er amk. ægilega fegin að eiga ekki stöðutákn eins og mig fyrir maka.
Skrapp í verkfallsmiðstöðina áðan og hitti fullt af skemmtilegum stöðutáknum sem sátu þar og drukku kaffi og spjölluðu. Allir frekar súrir og sárir með gang mála í viðræðunum. Var fegin að sjá að ég var ekki sú eina sem var orðin verulega þreytt á þessu öllu saman. Nemendur mínir hefðu verið að byrja í samræmdu prófunum í dag ef ekki hefði komið til verkfalls. Hitti einn tíundabekking út í búð í gær. Hún var farin að vinna á kassa í Bónus og sagði að hún gæti ekkert einbeitt sér að námsefninu ein heima og þyrfti að komast í skólann. Hún var áhyggjufull og ég skil hana vel. Það er talað um það á hátíðlegum stundum hversu mikilvæg menntun er og hversu mikilvægt það sé að búa komandi kynslóð sem best skilyrði til hennar, en þegar á reynir eru þetta bara orð, orð án nokkurar innistæðu. Það sem við gerum á hluta barnsins, mun það gera á hluta samfélagsins. - Karl Menninger- |
miðvikudagur, október 13, 2004
Miðvikudagsmæða
Æi, ég er eitthvað svo svekkt yfir því að ekkert á að ræða fyrr en á mánudag í næstu viku. Eftir hverju er eigininlega verið að bíða? Er komin með mikið meira en nóg af þessu öllu saman. Enginn vill höggva á hnútinn, Ríkið þvær hendur sínar af málinu og sveitarfélögin skýla sér bak við þumbarlega og skilningsljóa launanefnd. Launanefndin reynir að tefja samninga eins og hún getur (BB ætlar ekki einu sinni að biðja um aukið fjármagn) og svo koma menn í viðtöl í fjölmiðlum og segja að engum heilvita manni gæti dottið í hug að þeir væru að þessu tafsi til þess að spara. Til hvers þá?, spyr ég bara. Verð að taka það á mig að vera ekki heilvita enda búin að vera launuð samkvæmt því undanfarin ár. Get ég kannski sem foreldri kært ríkið fyrir að svíkja lögbundinn rétt barnanna minna til náms? Það er ríkið sem setur lögin, það er ríkisins að sjá til þess að þeim sé framfylgt. Þarf að athuga þetta betur. Fór í morgun í hressandi göngutúr með samkennslukvinnum mínum. Það var svolítill rigningarúði en það var bara betra. Við komum aðeins við upp í skóla og náðum að kasta kveðju á skólastýrurnar okkar og skólaliða sem voru á leið á Þjóðminjasafnið. Fór svo með heimasætuna til tannlækninsins. Hann sá aumur á mér og gaf mér verkfallsafslátt. Yndislegt hvað tannlæknar geta verið skilningsríkir gagnvart okkur kennurum, þó ekki sé starfið líkt. Hjálpaði svo eldri unglingnum með söguverkefni seinna um daginn. Gaman að rifja upp gömlu góðu söguna svona mörgum árum síðar.
Enginn skyldi spyrja fisk um það sem gerist á þurru landi. - Frá Afríku |
þriðjudagur, október 12, 2004
Netverkfall
| Eftir sundið í morgun, sem vel að merkja, aðeins þær hörðustu mættu í, eyddi ég deginum heima hjá börnunum mínum og sinnti heimilsstörfum. Það verður seint sagt að ég sé fyrirmyndarhúsmóðir en stundum reyni ég þó að sýna lit. Í verkfalli hefur aumingja tölvan mín verið í stanslausri notkun, aðallega af okkur mæðgum. Svo mikil hefur notkunin verið undanfarið að hún(tölvan) ákvað að fara í netverkfall í dag. Allt í einu neitaði hún semsagt að opna fyrir hið ómissandi MSN og Internetið. Við reyndum allt sem okkur satt í hug, en allt kom fyrir ekki, hún lét sér ekki segjast. Svo ég hringdi í ADSL-þjónustuna. Þar svaraði ungur og greiðvikinn maður og eftir að hafa fengið alla sjúkdómsgreiningu í gegnum símann sagði hann "Ahah....hún hefur slökkt á sambandinu við netið sjálf." "Ha?"- sagði ég "getur hún það?" -"Já , þetta gerist stundum, enginn veit hversvegna". Svo lóðsaði hann mig með fáeinum aðgerðum og skyndilega burraði netið vinalega á skjánum hjá mér. Hvílíkur léttir. Veit ekki hvað ég hefði gert svona sambandslaus frá umheiminum í fleiri klukkutíma. Kannski hefðum við bara þurft að fara í heimsókn eða eitthvað.
Tíðindalaust af vígstöðunum í dag. Engar viðræður og engir samningar. Ætla að enda þetta í dag með ljóði sem ég samdi fyrir margt löngu. Það heitir Kyrrð og hljóðar svo: Vertu stilltur….
-sagði hún og hegðaðu þér almennilega. Hvernig gat hann verið stilltur. Hann sem hafði aldrei verið stilltur -almennilega. |
mánudagur, október 11, 2004
Bar8fundur
| Rosalega getur maður verið bissí í verkfalli. Fór með stelpunum í langa og góða göngu í morgun og enduðum í þessu líka fína kaffi hjá Sigrúnu Fjólu. Allt heimabakað að hætti heimilisfræðikennarans. Fór svo í Bónus og eftir smástopp heima brá ég mér í betri fötin og fór í jarðaför hjá einum af okkar sigursælustu bridsspilurum í gegnum tíðina. Að henni lokinni hélt ég á baráttufund í Háskólabíói. Þar voru meira en þúsund kennarar mættir til að hlýða á innblásnar hvatningaræður frá ýmsum kennurum og ljúfa tónlist í boði FÍH. Helga Braga stjórnaði fundinum af sinni alkunnu kímni og léttleika. Óneitanlega er deilan farin að setjast aðeins í sálina á manni og óþreyjan eftir því að eitthvað gerist farin að gera oftar vart við sig, þess vegna er gott að fara á svona fund og endurnýja baráttuviljann.
Sá í fréttum áðan að Haraldur Ólafsson veðurfræðingur hefur stofnað einkaskóla á heimili sínu - Hávallaskólann. Hann var fenginn í viðtal á Stöð2 ásamt Eiríki. Aðspurður kvaðst hann kenna eftir aðalnámskrá, reyndar bara stærðfræði og ljóð, (sem almennu grunnskólarnir hafa ekki sinnt, að hans mati) og líki það öllum dável. Í vitalinu kom einnig í ljós að hann hafði heldur enga menntun til þess að kenna, ekkert leyfi til skólahalds og takmarkaða aðstöðu. Engar list og verkgreinar voru í boði né leikfimi og sund. Fljótt á litið var hér aðeins um að ræða einhverskonar fjömenna heimanámsaðstoð með aðaláherslu á stærðfræði. Nóta bene, stærðfræði eins og veðurfræðingurinn telur að eigi að kenna hana. Ég "kann" líka nokkrar góðar aðferðir við að spá um veður, t.d. að kasta upp krónu, lesa í drullupolla, draga Tarotspil og skoða innvols úr kindum. Kannski ætti ég bara að sækja um vinnu sem veðurfræðingur. Annars var það helst í fréttum að tveir hundar drápu kött og Súperman sjálfur lést eftir hjartaáfall. Þetta sýnir svart á hvítu, að enginn er óhultur, hvorki þeir semhafa 9 líf né þeir sem hafa ofursúperkrafta. |
sunnudagur, október 10, 2004
Með næstum allt á hreinu
Fór og horfði á heimasætuna keppa í handbolta í gær með liði sínu Fjölni júnæted. Þær kepptu um 3ja sætið í 5. flokki og sigruðu glæsilega lið Fram með 10 mörkum gegn 2. Þær voru frekar kátar með sigurinn og höfðu vel efni á því. Um kvöldið bauð ég svo mínum ektamaka á sýninguna Með næstum allt á hreinu, sem sýnd var á Breiðvangi. Okkur verkfallslúðunum hafði nefnilega áskotnast 600 miðar á þessa frumsýningu og máttum við bjóða einum gesti með okkur hvert. Þarna mættum við, tímanlega eins og kennara er siður en fengum auðvitað engin sæti. Gerði ekkert til því útsýnið úr stiganum var fínt. Mér fannst sýningin skemmtileg. Kabarettseruð útgáfa af lögum Stuðmanna var ágætlega flutt af góðkunnum söngvurum og leikurum. Hljóðblöndunin hefði sumstaðar mátt vera betri, þar sem söngurinn kom ekki alltaf nógu skýr í gegn. En góð skemmtun og vel þes virði að sjá. Svo var ball með Brimkló á eftir en við nenntum ekki að vera á því og fórum bara heim. Horfði á Bridget Jones Diary á spólu eftir að ég kom heim. Í fyrsta sinn sem ég sé þessa mynd, og komin tími til. Las bókin fyrir mörgum árum og hafði mjög gaman af. Held að ég sé að verða væmnari með árunum, amk. finnst mér alltaf meira og meira gaman að horfa á svona rómantískar gamanmyndir, jafnvel þó ég þurfi að sitja ein yfir þeim. DV verður alltaf vafasamara í fyirsögnum sínum. Hver man ekki eftir. "Hjó mann í höfuðið með öxi. - Meintur meðjálpari ófundinn!" Meðhjálpari!??? Eru þá aðstoðarmenn í kirkjum orðnir vitorðsmenn. Held það sé spurning um að kaupa orðabók handa Djévöffurunum, svo þeir verði líka með næstum allt á hreinu. |
föstudagur, október 08, 2004
Dekurdagur
Við erum að verða búnar að ganga allar götur í Grafarvogi í þessu verkfalli. Í dag fórum við hring um Húsahverfið og gengum þaðan yfir í Víkurhverfið. Mikið var spjallað enda alltaf gaman þegar kennarar koma saman. Nú skálmum við orðið í klukkutíma án þess að blása úr nös, við verðum sko í formi fyrir gangana í Borgaskóla þegar (og ef) þessu verkfalli lýkur einhverntímann.
|
fimmtudagur, október 07, 2004
Lygavefur
Ég á ljóð dagsins á ljóð.is í dag. Það heitir Lygavefur. Endilega kíkið á þennan skemmtilega vef og opnið ykkar eigin ljóðasíðu. Þið hafið ekkert betra að gera en að yrkja svolítið og/eða skoða yrkingar annarra íslenskra skúffuskálda á þessu síðustu og verstu verkfallstímum:) .
skrykkjótt og loðin eins og svartar kóngulær. Spunnu glitrandi vef milli tungu og hjarta. Spunnu glitrandi vef milli himins og jarðar. Spunnu glitrandi vef lyga og ljóða. Bara til að hafa mig góða. |
Á eldhúsvaktinni
| Skólinn okkar átti eldhúsvaktina í verkfallsmiðstöðinni í morgun. Við komum þangað, hlaðnar brauði og öðru bakkelsi og stóðum okkar plikt með prýði, eins og okkar var von og vísa. Eiríkur kom um 11 leytið og sagði upp og ofan af gangi viðræðna. Á máli hans má skilja að ekki gangi of vel enda reyni Launanefndin iðulega að teyma umræðurnar út í aukatriði og hártog. Þeir vilja endilega mismuna kennurum eftir því hvaða greinar þeir kenna. íþróttakennarar eiga t.d ekki upp á pallborðið hjá Birgi Birni. Honum finnst ekki að þeir þurfi aukinn undirbúning né lækkun á kennsluskyldu. Hann ætti bara að prófa að kenna þessa grein sjálfur. Líkamlegt og andlegt álag í þessari kennslu er gríðalega mikið og með allt öðrum hætti en hjá almennum kennara. Enda endast íþróttakennarar sjaldnast lengi í íþróttakennslunni og eru komnir í almenna kennslu flestir hverjir þegar fram líða stundir. Kennarar eru í eðli sínu samvinnustétt, þeir hafa lítinn áhuga á samkeppni og metingi sín á milli. Við erum nefnilega öll í sama liði með sama nemendahópinn í umsjá. Hversvegna að stéttaskipta kennurum í auknum mæli innnan skólanna? Hvernig bætir það skólastarf, skólaandann eða samstarf milli sérgreinakennara og almennra kennara? Ég held að launanefndin sé bara að standa fyrir málþófi í þessu öllu saman og ætlar að halda okkur í verkfalli í amk. 6 vikur til þess að rétta lamennilega af hallann hjá sér. Þorgerður Katrín sagði í gær að báðir deiluaðilar yrðu að slá af kröfum sínum og gefa eitthvað eftir. Það höfum við svo sannalega gert í beinhörðum peningum. Kennarar hafa "tapað" tugum ef ekki hundruðum þúsunda nú þegar á verkfallinu. En sveitafélögin hafa bara grætt á því. Við höfum ekki efni á því að slá meira af kröfunum en þetta svo orð frú Menntó eru bara tilmæli sem eru algerlega úr takt við raunveruleikann. Henni væri nær að styðja sveitafélögin til þess að koma til móts við þessar sanngjörnu og hóflegu kröfur sem farið er fram á.
|
miðvikudagur, október 06, 2004
Óttalega ómerkilegur dagur
Ekki náðist að semja í dag, frekar en aðra daga. Hringlaðist aðallega í kringum mig og mína í dag. Hjálpaði heimasætunni með stórt verkefni í landafræði sem hún hefði átt að skila fyrir viku, ef ekki hefði verið verkfall. Las blöðin, horfði á hina áströlsku Nágranna, hneykslaðist yfir meðferðinni á grey- hestinum sem var misnotaður í Þorlákshöfn, fór í Bónus og verslaði, og skrapp í Gauksásinn til að liðsinna þeirri örfhentu með stærðfræðina. Heimasætan og sá 7 ára voru frekar sæl með að kíkja í heita pottinn í Hafnarfirðinum.
|
mánudagur, október 04, 2004
Rölt í rokinu
| Eftir að hafa fokið , ásamt nokkrum hressum kvinnum um Grafarvoginn, skellti ég mér upp í verkfallsmiðstöð. Þar var mannmargt að venju, enda var auglýst að "foringinn" myndi ávarpa lýðinn og segja fréttir af samningaviðræðunum. Eiríkur sagði fátt, en þó það að eitthvert samkomulag hefði náðst um vinnutímaskilgreininguna (einkum það sem teldist til 9,14).Hverskonar samkomulag náðist, gat hann ekki sagt frá, vegna hugsanlegs leka til fjölmiðla. Hann hefði þó ekki þurft að hafa neinar áhyggjur af því, þar sem enginn alþingismaður var á staðnum.
Sá í fréttum að skólastarf í þeim skólum sem fengu undanþágur er hafið, nemendur að vonum kátir , en kennarar beggja blands, finnst sem von er súrt í broti að láta aðra berjast fyrir sig. Lögfræðingurinn í undanþágunefnd vil náttúrurlega að öll fötluð börn, líka þau sem eru í almennu skólunum fái undanþagu, eins auðvelt og það er í framkvæmd. skil ekki svona fólk, veit það ekki að í verkfalli er öll stéttin í verkfalli, að öðrum kosti er lítill slagkraftur í því. Annars hef ég aldrei skilið hvernig ríkið getur sett lög um skólaskyldu í landinu en skuldbindur sig svo ekki til að framfylgja henni með neinum hætti. Og hvernig getur sétt eins og við haft lögbundinn verkfallsrétt, en megum þó helst ekki beita honum þegar allt þrýtur, öðru vísi en vera úthrópuð sem vont fólk sem nýtur þess að kvelja börn, helst fötluð börn? Er sammála Þórhöllu með það að skólarnir ættu að vera reknir af sveitarfélögum, en ríkið greiði kennurum laun. |
sunnudagur, október 03, 2004
Fékk einu sinni flugu í höfuðið......
Lá grafkyrr
|
laugardagur, október 02, 2004
Af fífum og fíbbblum
Hugleiðingar um kjör þjóðarblóms. Sá þessa fyrirsögn og fór strax að hugsa um hverskonar kjör þjóðarblóminu væri eiginlega boðið upp á. Hvers er krafist að því, hvar fær það að vera, hvað stendur því til boða, fær það ókeypis aðhlynningu og næringu við hæfi? Mér finnst gott að blóm fái þessa athygli, enda mikilvægt að þjóðin eigi sér þjóðarblóm sem það getur hafið til skýjanna meðan önnur ómerkari blóm eru fótum troðin og látin afskiptalaus. Leit svo aðeins betur á geinina og sá að greinin fjallaði um hvaða blóm beri að velja sem þjóðarblóm Íslendinga. Konan sem skrifaði greinina vill að fífan verði valin sem þjóðarblómið, af því að sé eins og Íslendingar villt og gróf, hún sé bæði á hálendi, sem og láglendi og standi blóma lengst í blóma. Ég get alveg verið sammála konunni um fífuna en svo jafnræðisreglan sé virt, þá finnst mér að við verðum einnig að velja karlblóm og þá er blessaður fífillinn upplagður. Nafnið fífill er sennilega komið af fífunafninu. Þ.e.a.s. fífa-vill (verða) sem rann svo saman í nafnið fívill og svo fífill. Það eru ekki margir sem vita þetta, en nú er leyndarmálinu loks uppljóstrað.
|
föstudagur, október 01, 2004
Rigning og rabbabarapæ
| Örkuðum af stað í grenjandi rigningu nokkrir morgunhressir verkfallslúðar. Stefnan var tekin á okkar ástkæra Borgahverfi. á planinu við Borgaskóla hirtum við nokkra göngugarpa upp og svo trítluðum við gegnvot og glæsileg niður í fjöru. Eftir volkið var farið í kaffiboð til eins kennarans. Það smakkaði ég besta rabbabarapæ sem ég hef nokkru sinni fengið. Enda sagði bakarinn að galdurinn væri smá rabbabari og mikill sykur. Eftir hádegi var haldið á Austurvöll og staðið þar í 1000 manna þögn á meðan alþingismennirnir okkar gengu frá kirkjunni inn í Alþingishúsið. Þarna voru líka mættir skyrslettarar að hætti Helga Hós. Þeir stóðu þarna með kröfuspjöldin hans og dreifðu "fagnaðarerindinu" á ljósbrúnum pappír. Það eina sem rauf þögnina meðan þingmennirnir gengu til þings, var krunkandi konurödd úr röðum skyrslettaranna sem hrópaði með jöfnu millibili. "Niður með ríkistjórnina!".
Veit ekki hvað áhrif við höfum haft með þessum stöðum, en allavegana hafa samninganefndirnar setið og talað saman síðan í gær.....svo hver veit kannski fæðist fótur. |






