fimmtudagur, október 21, 2004

Er kennsla eitthvað til að gera veður út af?

Fór í þessa líka fínu kröfugöngu í gær niður Laugarveginn. Þótt það væri helv....kalt, þá voru 3000 manns mættir á svæðið og sumir meira að segja vopnaðir frumlegum kröfuspjöldum. Á einu stóð t.d. "Heimskt er heimaalið barn - líka hjá veðurfræðingum" og á öðru var nokkurskonar námsmat fyrir menntamálaráðherrann; "Þorgerður Katrín. Haustönn 2004, *Oft fjarverandi, *Fylgist illa með, *Þarf að bæta sig". Ég hafði ætlað að taka þann 7ára með mér í gönguna , en veðrið niðri í bæ var svo miklu verra, heldur en hér í Grafarvoginum, að ég sá þann kost vænstan að stinga honum inn hjá Aroni bróður á meðan.

Um kvöldið skrapp ég svo til Ragnhildar í jólakortagerð. Þar mættu nokkrar vaskar kennslukvinnur og dunduðu sér við föndur frameftir kvöldi. Heyrði endurtekið viðtalið við Hafstein skólastjóra í Salaskóla í útvarpinu á leiðinni heim. Hann talaði um að honum fyndist ekki rétt að kennarar þyrftu að fara í verkfall til þess að knýja fram lækkun á kennsluskyldunni sem væri einungis til bóta fyrir skólastarfið í landinu en kæmi ekki til launahækkunnar hjá hverjum kennara. Það væri löngu tími til kominn til að ræða launahækkanir og hætta þessum hringlandahætti. Var bara töluvert sammála honum og held að svo sé um marga kennara. Auðvitað stöndum við með samninganefndinni, en það hefur alltof langur tími farið í "smáatriði" og karp um keisarans skegg. Það eru allir komnir með nóg af þessu verkfalli, en það hefur staðið alltof lengi til þess að við getum gefist upp eða gefið eitthvað eftir. Byrjuðum með alltof hógværar kröfur, okkar mistök, þess vegna er erfitt að gefa eitthvað eftir. Ég hef orðið fyrir gífurlegum vonbrigðum með nánast alla stjórnmálamennina sem koma að þessu máli, hvort sem þeir sitja á þingi eða í sveitarstjórnum, öllum virðist standa á sama um hvort og hvernig þetta leysist. Ef ekkert breytist til batnaðar á næstunni, mun krossinn minn í næstu kosningum verða skilinn eftir heima og atkvæðaseðli skilað auðum.

Það skiptir engu máli hvernig kötturinn er á litinn, bara ef hann veiðir mýs. -Deng Xiaobing-

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home