föstudagur, október 15, 2004

Í bleikum draumi

"Ég styð ykkur af heilum hug" sagði mamma eins nemanda míns frá því í fyrra, "þó ég þurfi að snúast heilmikið til þess að redda börnunum mínum á meðan á þessu stendur. Við í minni fjölskyldu stöndum með ykkur" Ég fann hve þessi fáu orð gerðu mikið til að létta á sálartetrinu. Eins og umræðan í samfélaginu hefur verið að undanförnu hefur manni fundist sem lítill skilningur væri á þessum hógværu kröfum kennara. Kannski hefði verið snjallara að setja markið á laun framhaldskólakennara og bakka svo göfugmannlega niður í þessa kröfu sem við erum með núna og geta þá sagt "Við höfum gefið heilmikið eftir!".
Birgir Björn sagði í Fréttasneplinum í dag að kennarar hefðu hafið þetta verkfall og það væri í þeirra höndum að ljúka því. Var að hugsa um að taka upp telefónið og bjalla á hann og segja si sona: "Biggi minn, nennum ekki að vera í verkfalli lengur og erum tilbúin að hætta úr því að þú ætlar að ganga að kröfum okkar." Þá segir hann ábyggilega bara ljúfmannlega: "Mál til komið, dúfan mín. Var bara að bíða eftir því að þið segðuð til." Svo myndum við ganga frá samningi okkar á milli og allir yrðu kátir. Líklegt? Nei ætli það...bara í súrrealískum bleikum draumi. Talandi um bleika drauma. Kíkti aðeins við í verkfallsmiðstöðinni í dag. Þar stóð Rimaskóli fyrir bleikum eftirmiðdegi. Allir mættu í einhverju bleiku og allt bakkelsið var bleikt. Hitti þar margt skemmtilegt fólk sem lá ýmislegt á hjarta. Þó þungt hljóð væri í því og flestir svartsýnir á að deilan myndi leysast fyrr en eftir 2-3 vikur, í fyrsta lagi, þá var enginn uppgjafartónn. Við hófum þessa baráttu og verðum að halda hana út, annars erum við verr sett heldur en við vorum áður en lagt var af stað.

Að safnast saman er upphafið. Að halda saman er framför. Að vinna saman er sigur.
-Henry Ford-

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home