föstudagur, október 08, 2004

Dekurdagur

Við erum að verða búnar að ganga allar götur í Grafarvogi í þessu verkfalli. Í dag fórum við hring um Húsahverfið og gengum þaðan yfir í Víkurhverfið. Mikið var spjallað enda alltaf gaman þegar kennarar koma saman. Nú skálmum við orðið í klukkutíma án þess að blása úr nös, við verðum sko í formi fyrir gangana í Borgaskóla þegar (og ef) þessu verkfalli lýkur einhverntímann.


Eftir hádegi skellti ég mér í Nordica Spa í andlitsnudd. Nú má ekki skilja þetta svo að ég sé orðin fín frú sem fari vikulega í slíka aðgerð, nei o-ekki. Ég fékk nefnilega gjafakort í svona dekur í afmæligjöf fyrir 10 mánuðum. Það þurfti verkfall til þess að ég fyndi mér stund til að nota herlegheitin. Ég mætti þarna vopnuð sundbol og sjampói og veifaði gjafakortinu vandræðalega fyrir framan mig á meðan mér var vísað inn á staðinn. Þetta var agalega flott. Tvær ilmúðaðar sánur og nuddpottur þar sem hægt var að fá herðanudd ef maður óskaði þess. Eina lýsingin kom frá kertum sem stóða á víð og dreif, kannski þess vegna sem flestir þarna litu vel út. Svo kom indæl stúlka og leiddi mig inn í lítið rökkvað herbergi. Lágstemmd róandi tónlist gaf fögur fyrirheit um kyrrðarstund. Svo pakkaði indæla stúlkan mér inn í 15 teppi, setti hárband um höfuð mitt og byrjaði að smyrja allskyns kremum framan í mig. Jafnóðum þurrkaði hún kremin af og nuddaði enni, kinnar og höku með æfðu hreyfingum. Eftir að hafa grandskoðað fertugt andlit mitt spurði hún hvort ég vildi plokk? Þrátt fyrir að hafa aldrei fyrr verið plokkuð, ákvað að taka sénsinn en bað hana um að stilla plokkinu í hóf. Enda eins gott, þetta var nefnilega ferlega vont. En þegar ég sá afraksturinn í speglinum varð ég að viðurkenna að árangurinn var til bóta. Það er eins og þeir segja "bjútí is pein." Eftir halftíma herða, háls og andlitsnudd í viðbót var sett enn eitt kremlagið á andlit mitt og ég sett undir grill. Þar grillaðist ég og hálfdottaði dágóða stund. Fór svo endurnærð en svolítið syfjuð, með nýja uppskrúfaða hárgreiðslu heim á leið. Nú líður mér miklu betur, var farin að hafa áhyggjur af því að gjafakortið myndi fyrnast hjá mér eins og öll leikhúsgjafakortin sem okkur hjónum hafa áskotnast í gegnum tíðina.


Þegar slokknað er á kertunum eru allar konur fagrar. - Plútarkos


2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ekki láta leikhúsmiða verða úrelta, ég er alltaf til í að fara í leikhús, bara láta mig vita.
skemmtilegt að lesa bloggið.
mamms.

11. október 2004 kl. 11:26  
Blogger Silfá said...

Hef þig í huga næst:) Annars myndir þú virkilega "fíla" svona Spa - heimsókn.

11. október 2004 kl. 20:01  

Skrifa ummæli

<< Home