fimmtudagur, október 28, 2004

Það sem mér liggur á hálsi í dag er.....

Það helltist yfir mig svoleiðis heiftarleg hálsbólga með útibúi alveg upp í eyrun í fyrradag og ég var sérlega framlág í gærdag. En eftir góðan og mikinn nætursvefn, heilmikla tedrykkju, verkjalyf og hálstöflur er ég loksins að skríða saman. Ákvað meira að segja í hálfgerðu flippi að skrá mig á byrjendanámskeið í gítarleik á vegum símenntunarstofnunnar. Haldið ekki að ég verði óþolandi í kennslunni, þegar ég hef loksins eitthvað til að glamra á þegar ég er að láta börnin syngja. Þeim verðu sko ekki sleppt með eitt lag á dag .....hehe.

Það eru háværar raddir í dag um það að einhver miðlunartillaga verði lögð fram í dag og þá muni verkfallinu verða aflýst með de samme. Veit ekki hvort þetta gerist svona hratt.....en ekki verð ég ókát ef eitthvað gott fer að gerast.

Mammsan mín og Kallinn hennar keyptu sér ferð til Spánar í gær og flugu út í dag. Fengu tilboð á netinu sem ekki var hægt að hafna. Það er merkilegt með þetta eldra fólk, hvað það er spontant og þarf lítinn tíma til að velta hlutunum fyrir sér.

Fimmhundruð foreldrar og grunnskólabörn héldu fund á Austuvelli í gær og mótmæltu því að nemendur fengju ekki lögboðna kennslu. Það var sætt að sjá myndirnar að krökkunum með kröfuspjölin sín " Kennarinn minn á skilið hærri laun" og "Ég vil fá skólann minn aftur". Það er ekki á þessum börnum að sjá að þau séu óánægð með þá kennslu sem þau fá í skólanum. "Hvað er að krökkum í dag?" spurði bróðir minn mig í gær, "Þau eru að heimta það að fá að koma aftur í skólann. Við hefðum aldrei gert það þegar ég var krakki". Er von að hann spyrji. Það hefur nefnilega margt breyst í íslensku skólakerfi og þá flest til hins betra. Í dag er lögð veruleg áhersla á að nemendum líði vel í skólanum og reynt að koma til móts við hvern og einn á hans forsendum. Þetta er auðvitað ekki létt verk, en þetta hafa íslenskir kennarar gert og aðlagað sig að breyttu samfélagi hraðar heldur en margir aðrir. Íslenskir skólar eru flestir að vinna gott starf og metnaðarfullt. Erlendir fræðslukólfar sem hafa heimsótt okkur á undanförnum árum eru til að mynda afar hrifnir af því sem verið er að gera í skólunum hér og þegar íslenskir kennar heimsækja aðrar þjóðir og skoða skólana þeirra, verða þeir oft á tíðum hissa á því hversu framalega við stöndum í samanburðinum. Kannski er það þessi vitundarvakning íslenska kennarans sem hefur gert hann stoltari af starfi sínu en hann áður var og þessvegna tilbúnari til að berjast fyrir mannsæmandi kjörum. Hver veit?

Markmiðið með kennslunni er að undirbúa þá ungu til þess að kenna sjálfum sér það sem eftir er ævinnar. - Robert Maynard Hutchins-

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Tek undir með honum bróður þínum ef einhverjum hefði dottið í hug að mæta með svona kröfuspjöld þegar ég var í grunnskóla hefði sá hinn sami fengið viðurnefnið KENNARASLEIKJA :-)

Andstyggileg þessi hálsbólga sem herjar á annan hvern mann.

Haltu áfram að blogga gaman að lesa þetta.

ADH

28. október 2004 kl. 14:37  
Blogger Silfá said...

Takk fyrir að "kommenta" hjá mér. Verð alltaf svo glöð þegar ég frétti að einhver les bullið í mér.

28. október 2004 kl. 15:11  

Skrifa ummæli

<< Home