mánudagur, október 25, 2004

Í Kastljósinu

Horfði á Kastljósið áðan þar sem rætt var við þá Þorstein Sæberg skólastjóra og Jón Pétur Zimsen kennara, ásamt fulltrúa foreldra frá samtökunum Heimili og skóli. Verð að segja að það var ánægjuleg tilbreyting að heyra talað við einhverja úr okkar stétt, ekki bara alþingismenn, sveitarstjórnarmenn eða fulltrúa úr launanefndunum. Þarna voru umræðurnar afar málefnalega og faglegar í alla staði. Sjónarmiðin komu skýrt fram og aðalatriðin skilin frá karpi um aukaatriði. Ég var allavegana verulega ánægð með "mína menn". Konan sem var fyrir Heimili og skóla var einnig ákaflega málefnaleg og kom vel fram fyrir hönd sinna samtaka. Forsætisráðherrann okkar nýskipaði, skipaði ríkissáttasemjara að kalla til sín deiluaðila á morgun og ræða málið og reyna að koma sér saman um einhverja lausn. Tvær vikur í bið væru algerlega óásættanlegar. Sammála því, engin ástæða til að sitja og bíða....tíminn líður..26 kennsludagar burtu flognir nú þegar. Það verður ekki auðvelt að koma til baka og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Allt skipulag vetrarins verður að endurskoða og laga að breyttum aðstæðum. Nú verður kennslan í skólunum fyrst almennilega "einstaklingsmiðuð". því það er morgunljóst að nemendur hafa verið ákaflega misduglegir heima að læra í verkfallinu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home