fimmtudagur, október 20, 2005

Hvað er þetta einstaklingsmiðaða nám ?

Annars finnst mér margir hafa svolítið óskýra mynd af því hvað einstaklingsmiðað nám er og sumir halda jafnvel að það byggist á einstaklingsnámskrám líkt og sérkennarar hafa löngum gert fyrir sína nemendur. Einstaklingsmiðað nám er safnheiti yfir fjölbreytta kennsluhætti sem miðast við að koma til móts við þarfir hvers nemanda en um leið þjálfa nemandann upp í því að taka ábyrgð á eigin námi. Innlögn námsefnis skiptir hér miklu máli og má alls ekki glatast í umræðunni um einstaklingsmiðað nám. Þar sitja allir nemendur sama hvers kyns þeir eru við sama borð og kennarinn er í sínu "hefðbundna" hlutverki sem fræðari. Þegar kemur að úrvinnslu umfjöllunarefnis og þjálfun í ákveðnum námsþáttum tekur einstaklingsmiðunin við. Þá geta nemendur "valið" að vinna tilheyrandi verkefni á einn eða annan hátt á misjöfnum hraða og með mismunandi áherslum. Þeir setja sér markmið og velja leiðir til þess að ná þessum markmiðum í samráði við kennara sinn. Það má segja að kennarinn sé þá kominn í annað hlutverk sem verkstjóri eða ráðgjafi. Þessi hugsunarháttur í skólastarfi er alls ekki nýr og hafa íslenskir kennarar beitt þessum áðferðum um langt árabil án þess að nokkur hafi gert veður út af. Það var ekki fyrr en merkimiðinn “Einstaklingsmiðað nám” var settur á , sem vandræðin byrjuðu og kennarar héldu að þeir þyrftu að fara að læra að kenna upp á nýtt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home