fimmtudagur, október 07, 2004

Á eldhúsvaktinni

Skólinn okkar átti eldhúsvaktina í verkfallsmiðstöðinni í morgun. Við komum þangað, hlaðnar brauði og öðru bakkelsi og stóðum okkar plikt með prýði, eins og okkar var von og vísa. Eiríkur kom um 11 leytið og sagði upp og ofan af gangi viðræðna. Á máli hans má skilja að ekki gangi of vel enda reyni Launanefndin iðulega að teyma umræðurnar út í aukatriði og hártog. Þeir vilja endilega mismuna kennurum eftir því hvaða greinar þeir kenna. íþróttakennarar eiga t.d ekki upp á pallborðið hjá Birgi Birni. Honum finnst ekki að þeir þurfi aukinn undirbúning né lækkun á kennsluskyldu. Hann ætti bara að prófa að kenna þessa grein sjálfur. Líkamlegt og andlegt álag í þessari kennslu er gríðalega mikið og með allt öðrum hætti en hjá almennum kennara. Enda endast íþróttakennarar sjaldnast lengi í íþróttakennslunni og eru komnir í almenna kennslu flestir hverjir þegar fram líða stundir. Kennarar eru í eðli sínu samvinnustétt, þeir hafa lítinn áhuga á samkeppni og metingi sín á milli. Við erum nefnilega öll í sama liði með sama nemendahópinn í umsjá. Hversvegna að stéttaskipta kennurum í auknum mæli innnan skólanna? Hvernig bætir það skólastarf, skólaandann eða samstarf milli sérgreinakennara og almennra kennara? Ég held að launanefndin sé bara að standa fyrir málþófi í þessu öllu saman og ætlar að halda okkur í verkfalli í amk. 6 vikur til þess að rétta lamennilega af hallann hjá sér. Þorgerður Katrín sagði í gær að báðir deiluaðilar yrðu að slá af kröfum sínum og gefa eitthvað eftir. Það höfum við svo sannalega gert í beinhörðum peningum. Kennarar hafa "tapað" tugum ef ekki hundruðum þúsunda nú þegar á verkfallinu. En sveitafélögin hafa bara grætt á því. Við höfum ekki efni á því að slá meira af kröfunum en þetta svo orð frú Menntó eru bara tilmæli sem eru algerlega úr takt við raunveruleikann. Henni væri nær að styðja sveitafélögin til þess að koma til móts við þessar sanngjörnu og hóflegu kröfur sem farið er fram á.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home