föstudagur, október 01, 2004

Rigning og rabbabarapæ

Örkuðum af stað í grenjandi rigningu nokkrir morgunhressir verkfallslúðar. Stefnan var tekin á okkar ástkæra Borgahverfi. á planinu við Borgaskóla hirtum við nokkra göngugarpa upp og svo trítluðum við gegnvot og glæsileg niður í fjöru. Eftir volkið var farið í kaffiboð til eins kennarans. Það smakkaði ég besta rabbabarapæ sem ég hef nokkru sinni fengið. Enda sagði bakarinn að galdurinn væri smá rabbabari og mikill sykur. Eftir hádegi var haldið á Austurvöll og staðið þar í 1000 manna þögn á meðan alþingismennirnir okkar gengu frá kirkjunni inn í Alþingishúsið. Þarna voru líka mættir skyrslettarar að hætti Helga Hós. Þeir stóðu þarna með kröfuspjöldin hans og dreifðu "fagnaðarerindinu" á ljósbrúnum pappír. Það eina sem rauf þögnina meðan þingmennirnir gengu til þings, var krunkandi konurödd úr röðum skyrslettaranna sem hrópaði með jöfnu millibili. "Niður með ríkistjórnina!".
Veit ekki hvað áhrif við höfum haft með þessum stöðum, en allavegana hafa samninganefndirnar setið og talað saman síðan í gær.....svo hver veit kannski fæðist fótur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home