fimmtudagur, október 14, 2004

Stöðutákn

"Þú ert stöðutákn" sagði vinkona mín og glotti. "Já, stöðutákn mannsins þins, vitnisburður um hversu góð fyrirvinna hann er", bætti hún við. Maðurinn minn var virkilega kátur þegar ég sagði honum þetta. Hafði alltaf langað í stöðutákn. Gott þegar hlutirnir eru settir í rétt samhengi. Svona þarf lítið til að gleðja suma. Ég er amk. ægilega fegin að eiga ekki stöðutákn eins og mig fyrir maka.

Skrapp í verkfallsmiðstöðina áðan og hitti fullt af skemmtilegum stöðutáknum sem sátu þar og drukku kaffi og spjölluðu. Allir frekar súrir og sárir með gang mála í viðræðunum. Var fegin að sjá að ég var ekki sú eina sem var orðin verulega þreytt á þessu öllu saman. Nemendur mínir hefðu verið að byrja í samræmdu prófunum í dag ef ekki hefði komið til verkfalls. Hitti einn tíundabekking út í búð í gær. Hún var farin að vinna á kassa í Bónus og sagði að hún gæti ekkert einbeitt sér að námsefninu ein heima og þyrfti að komast í skólann. Hún var áhyggjufull og ég skil hana vel. Það er talað um það á hátíðlegum stundum hversu mikilvæg menntun er og hversu mikilvægt það sé að búa komandi kynslóð sem best skilyrði til hennar, en þegar á reynir eru þetta bara orð, orð án nokkurar innistæðu.

Það sem við gerum á hluta barnsins, mun það gera á hluta samfélagsins.
- Karl Menninger-

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home