miðvikudagur, október 06, 2004

Óttalega ómerkilegur dagur

Ekki náðist að semja í dag, frekar en aðra daga. Hringlaðist aðallega í kringum mig og mína í dag. Hjálpaði heimasætunni með stórt verkefni í landafræði sem hún hefði átt að skila fyrir viku, ef ekki hefði verið verkfall. Las blöðin, horfði á hina áströlsku Nágranna, hneykslaðist yfir meðferðinni á grey- hestinum sem var misnotaður í Þorlákshöfn, fór í Bónus og verslaði, og skrapp í Gauksásinn til að liðsinna þeirri örfhentu með stærðfræðina. Heimasætan og sá 7 ára voru frekar sæl með að kíkja í heita pottinn í Hafnarfirðinum.


Var að glápa á þátt áðan sem heitir eitthvað Matrix í sjónvarpinu, og er um sérsveit gegn hryðjuverkum sem Bandaríkjamenn settu til höfuðs Al-Quaeda liðinu, - ekki í alvörunni þó, heldur bara í þessum þáttum :). Mér finnst þessi hryðjuverkaótti út í hött. Með þessum ótta hefur hryðjuverkamönnunum nefnilega tekist ætlunarverk sitt fullkomlega. Því jafnvel, þó þeir eigi aldrei eftir að sprengja eina einustu sprengju framar hafa þeir unnið ævarandi hryðjuverk á hugum manna/þjóða sem hafa búið til varnaskrímsli sem endar með því að kála sér sjálft.


Munið eftir fréttinni um blaðamanninn frá dagblaðinu The Sun, sem komst með platsprengju inn á breska þingið. Allir svakalega hneykslaðir á öryggisgæslunni, en enginn spurði hver hefði verið ábyrgur ef öryggisgæslan hefði verið eins og menn vildu og platsprengjumaðurinn hefði verið skotinn á færi. Hvað hefðu þeir í Sun skrifað þá? Hver hefði verið ábyrgur? Al- Quaeda?


Sá sem ekkert óttast er jafnstyrkur þeim sem allir óttast - Schiller


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home