Leiðinda langloka
| Allt í einu urðu til peningar sem voru alls ekki til áður. Hlustaði á tvo íðilsnjalla spekinga koma með byltingakennda hugmynd í Kastljósinu í kvöld, hugmynd sem átti landa samningum. Nú skyldi binda kennara í skólanum frá 8 - 16 alla dag og vinna þar undir stjórn skólastjóra öll þau verk sem til féllu. Samið skyldi við hvern og einn hvað hann ynni og þegar hann væri búinn að því þá myndi hann annaðhvort fá frí það sem eftir væri vikunnar(hvað með kennarfundi, samráð oþh?), eða fundin yrðu handa honum önnur störf (hvaða?). Fyrir þetta á svo að greiða 300. 000 eða meira að meðaltali í laun. Auðvitað kæmi engin kennsluskyldulækkun inn í þetta og þ.a.l enginn kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin og allir myndu hækka verulega í launum. Og komið væri í veg fyrir að kennarar væru að slugsa eitthvað í vinnutímanum. Þetta lítur auðvitað stórkostlega út fyrir venjulegan leikmann, en nú skal skoða þetta nánar.
Ég kenni núna fulla stöðu, 28 stundir og sit yfir bekknum mínum 5 sinnum í viku í matartímanum að auki fer ég tvisvar sinnum út í frimínútnagæslu í hverri viku. Þegar veikindi herja á í skólanum reyna flestir kennarar að bjarga málunum og hlaupa í skarðið svo ekki þurfi að senda nemendur heim á miðjum morgni, ég tek að sjálfsögðu þátt í því. Fyrir þessi "aukaviðvik" fæ ég sérstaklega greitt í núverandi kerfi enda ekki hluti af eiginlegri kennsluskyldu minni. Ég sit kennarfund einu sinni í viku frá rúmlega 2 til 4 og einn stigsfund að auki. Þá þarf árgangurinn minn að hittast til samráðs amk. einu sinni í viku hverri, samtals eru þetta 5 - 6 klukkutímar, varlega áætlað. Ég held úti netsíðu á skólatorginu fyrir bekkinn minn sem ég uppfæri vikulega, alltaf á föstudögum. Nemendur mínir hafa töluvert frjálst val í heimavinnunni sinni og eru þess vegna einkar duglegir að vinna hana og ég er yfirleitt milli 3 og 4 klukkutíma að fara yfir hana og gefa umsagnir. Þess fyrir utan tek ég þátt i öllum endurmenntunarnámskeiðum á vegum skólans og tek þátt í vinnslu skólanámskrár og sit skilafundi vegna nemenda minna. Hér er ég ekki búin að nefna þá daga þegar eitthvað kemur upp á hjá nemendum og þörf er á því að hringja heim til foreldra og/eða kalla þá á fund. Þá er enn eftir tími til undirbúnings fyrir kennslustundirnar. Ég þarf auðvitað að lesa mér til ef ég er að fara í nýtt námsefni, búa til einstaklingsmiðuð verkefni fyrir nemendur, taka til efni fyrir hina ýmsu verkefnavinnu, ljósrita hefti, skipuleggja vinnusvæði í kennslustofunni og skrifa skýrslur. Nú á enn ég eftir að taka fyrir námsmatþáttinn, prófagerð, yfirferð, mismunandi námsmat eftir mismunandi greinum og margt fleira.Þessa vinnu hef ég unnið undanfarin ár og ég sé ekki að ég hafi nokkurn tíma til þess að bæta á mig öðrum störfum ef skólastjórnum mínum þóknast svo. En ég gæti ekki neitað...ef ég yrði beðin..eða hvað? Það er mín reynsla að kennarar eru upp til hópa vinnusamir og samviskusamir. Ég fer t.d. oft upp í skóla um helgar til að klára undirbúning fyrir komandi kennsluviku. Það bregst ekki að ég hitti þar einn eða fleiri kennara í sömu erindagjörðum á meðan ég er á staðnum. Ég fullvissa ykkur um flestir kennarar eru að vinna vinnuna sína, jafnvel þó hún sé stundum unnin á eldhúsborðinu heima hjá þeim eða í þeirra einkatölvum. Það er líka alveg ljóst að mér tækist aldrei aldrei yfir að klára vinnuna mína innan þessa tímaramma 8-16 frekar en mér tekst það núna. Þá þyrfti að fara að borga mér yfirvinnu - ekki satt?..og þá þyrfti að koma upp stimpilklukkukerfi, sem yrði alls ekki sparandi fyrir laungreiðendur okkar þegar upp væri staðið. En kannski er bara málið að samþykkja "tillögu" snillinganna og halda bara áfram að vinna eins og maður hefur alltaf gert og fá kannski 400.000 krónur í vasann en vera að öll kvöld og helgar eins og venjulega. Allavegana virðast allt í einu vera til peningar, ef marka má þessa heiðursmenn......eða er þetta bara enn eitt útspilið til þess að tefja fyrir samningum og flækja málin enn meira? Heldur fólk í alvörunni ef það yrði gerð svona mikil skipulagsbreyting eins og þeir virðast halda að þetta sé að það þurfi ekki að útfæra hana? Sem kennari ég ég upplýst ykkur um það að skipulag tekur tíma.....og tími er ekki það sem íslensk skólabörn hafa til aflögu í dag eftir næstum 6 vikur í verkfalli. Vinnuálag á kennara er nú þegar orðið mjög mikið, það er engin ástæða til þess að auka það. Slíkt kæmi bara niður á gæðum kennslunnar, en líklega er það ekki áhyggjuefni þessara manna. Þið ykkar sem nenntuð að lesa þessa langloku, bið ég að fyrirgefa mér tuðið, en ég er orðin svooo þreytt á þessum sögum af peningum sem eru stundum til og stundum ekki. |

0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home