Bar8fundur
| Rosalega getur maður verið bissí í verkfalli. Fór með stelpunum í langa og góða göngu í morgun og enduðum í þessu líka fína kaffi hjá Sigrúnu Fjólu. Allt heimabakað að hætti heimilisfræðikennarans. Fór svo í Bónus og eftir smástopp heima brá ég mér í betri fötin og fór í jarðaför hjá einum af okkar sigursælustu bridsspilurum í gegnum tíðina. Að henni lokinni hélt ég á baráttufund í Háskólabíói. Þar voru meira en þúsund kennarar mættir til að hlýða á innblásnar hvatningaræður frá ýmsum kennurum og ljúfa tónlist í boði FÍH. Helga Braga stjórnaði fundinum af sinni alkunnu kímni og léttleika. Óneitanlega er deilan farin að setjast aðeins í sálina á manni og óþreyjan eftir því að eitthvað gerist farin að gera oftar vart við sig, þess vegna er gott að fara á svona fund og endurnýja baráttuviljann.
Sá í fréttum áðan að Haraldur Ólafsson veðurfræðingur hefur stofnað einkaskóla á heimili sínu - Hávallaskólann. Hann var fenginn í viðtal á Stöð2 ásamt Eiríki. Aðspurður kvaðst hann kenna eftir aðalnámskrá, reyndar bara stærðfræði og ljóð, (sem almennu grunnskólarnir hafa ekki sinnt, að hans mati) og líki það öllum dável. Í vitalinu kom einnig í ljós að hann hafði heldur enga menntun til þess að kenna, ekkert leyfi til skólahalds og takmarkaða aðstöðu. Engar list og verkgreinar voru í boði né leikfimi og sund. Fljótt á litið var hér aðeins um að ræða einhverskonar fjömenna heimanámsaðstoð með aðaláherslu á stærðfræði. Nóta bene, stærðfræði eins og veðurfræðingurinn telur að eigi að kenna hana. Ég "kann" líka nokkrar góðar aðferðir við að spá um veður, t.d. að kasta upp krónu, lesa í drullupolla, draga Tarotspil og skoða innvols úr kindum. Kannski ætti ég bara að sækja um vinnu sem veðurfræðingur. Annars var það helst í fréttum að tveir hundar drápu kött og Súperman sjálfur lést eftir hjartaáfall. Þetta sýnir svart á hvítu, að enginn er óhultur, hvorki þeir semhafa 9 líf né þeir sem hafa ofursúperkrafta. |

0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home