Helgarflétta
| Helgin var undirlögð í keppni hjá börnunum. Sá 7 ára tók þátt í sínu fyrsta skákmóti í dag og stóð sig með sóma. Náði 3ja sæti eftir mikinn barning, tár og trega. En þegar upp var staðið var það hreykinn snáði sem hélt heim á leið með bronspening um hálsinn og Andrésblöð í poka.
Heimasætan lét heldur ekki sitt eftir liggja og keppti með liði sínu Fjölni júnæted á Íslandsmótinu í handknattleik. Þeim gekk bara nokkuð vel miðað við mannskap og stóðu sig vel. Mér fannst það þó afar undalegt að bjóða 12 og 13 ára stelpum upp á það að spila 7 leiki (2X15mín) á tæplega einum og hálfum sólarhring. Enda voru þær lúnar og lemstraðar þegar þær gengu af velli í dag. Sæi fullorðna íþróttamenn láta bjóða sér þetta. Það hefur kólnað verulega að undanförnu, en samt hefur veðrið verið stillt og fremur þægilegt til gönguiðkunar. Vonandi verður svo áfram, svo við getum haldið áfram að arka í verkfallinu. Horfi á hvítleit skýin
hanga kærulaus á gráum himninum. Án festingar án öryggisnets skítsama um það hvar þau eru né hvert þau eru að fara. Safna í sig sýnishornum af veröldinni og svífa þar til þeim sortnar fyrir augu. Leka niður af þreytu
og sofna gegndrepa á fjallstindum eða hafsbotni. Rísa svo á einhverjum degi aftur upp til himna nýfædd hvítklædd óhrædd |

2 Comments:
Flott kvæði, Myndræn lýsing.
mamms
Takk, er í "skýjunum" með hrósið:)
Skrifa ummæli
<< Home