þriðjudagur, október 19, 2004

Ostur ...er ekki bara veislukostur

Byrjaði daginn á skúringum og skemmtilegri tiltekt, enda ekki vanþörf á. Hélt svo uppúr hádegi upp á Höfða í súpu með osti og brauð í boði skólastýranna okkar. Það var verulega gaman að hitta allt samstarfsfólkið og spjalla. Ekki skemmdi heldur fyrir að við fengum kaffi og konfekt á eftir.

Sá í póstinum mínum þegar ég kom heim nokkur ímeil frá PLC - skvísunum um að ég yrði að bjóða þeim í saumó, vegna þess að mér hlyti að leiðast óhugnalega í verkfallinu. Auðvitað tók ég vel í það og samþykkti allar uppástungur. PLC - klúbburinn er félagskapur 6 "stelpna" sem varð til á menntaskólaárunum. PLC stendur fyrir "the Pepper Ladies Club" og hafði mjög svo merkilegan tilgang á sínum tíma og starfaði eftir heimasmíðaðri kenningu - Ostakenningunni. Hún hljóðar einhvernveginn svona:

Karlmaðurinn er ostur samfélagsins, en konan brauðið. Það er alveg sama hversu úldinn og illa lyktandi hann er, það er alltaf einhver sem vill gamlan, myglaðan ost. En hver vill gamalt brauð? Er því ekki bara fleygt í endurnar? Því hlýtur það að vera markmið hverrar einustu "normal"- brauðsneiðar að ná sér í ostbita annaðhvort til hlífðar og verndar eða bara sem álegg.

Við hittumst auðvitað reglulega og gerðum okkur glaðan dag á þessum árum (the eighties greaties) og héldum meira að segja dagbók um ævintýri okkar á öldurhúsunum. Þessi dagbók er enn til og verður örugglega notuð sem skiptimynt þegar harðna tekur á dalnum.


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home