Af "slöku" fólki
| Heimsótti ný-fertuga systur mína seinnipartinn og hafði með mér salat og svolítinn aur í bauk til að leggja með mér í afmælisveisluna. Nú erum við skáldkonan jafngamlar þar til í næstu viku, þegar ég mun enn og aftur taka árs forskot. Gaf Krummanum mínum líka afmælisgjöf þó hann eigi ekki afmæli fyrr en á aðfangadag. Krumminn var bara nokk kátur með Spæderman-tvennuna (náttföt+litabók) og litina. Altjént sveif hann niður af borðum og stólbökum af mikilli list á meðan við stöldruðum við. Hún var sko ekki að æsa sig yfir þessu merkisafmæli hún Diddus og tók brosandi á móti gestum og gangandi með kaffi og kökum (sem reyndar buðu sér flestar sjálfar í partíið:).
Fór líka í aðventukaffi hjá mágkonu minni og nöfnu og hennar manni í gær. Þetta er árlegt fjölskyldu-hittelsi og heppnast alltaf sérlega vel. Þarna fær maður t.d. alvöru súkkulaði að drekka með rjóma nammi namm. Þetta var afar afslappandi og notalegt. Kaus í dag. Var ekki auðvelt, en ákvörðun varð að taka og ég stend bara sátt við hana, hvernig sem allt fer. Nú getur maður ekkert meira gert nema að bíða, sjá og slaka á. Í seinasta tíma á mánudögum er mér ætlað að kenna sérlega "hressum" nemendum í 3. bekk markvissa málörvun. Eftir að hafa unnið með þeim í vetur hef ég komist að því að þessir nemendur þurfa alls ekki mikla örvun, frekar hið gagnstæða. Svo að ég ákvað að venda mínu kvæði í kross og býð nú upp á slakandi jóga með rólegri tónlist og kertaljósi. Fyrsti tíminn var í dag og lofar góðu fyrir framhaldið. Það er skemmtileg tilbreyting að vera með hóp þar sem markmiðið virðist helst vera .....að gera börnin "slök" :-) haha... |
