mánudagur, nóvember 29, 2004

Af "slöku" fólki

Heimsótti ný-fertuga systur mína seinnipartinn og hafði með mér salat og svolítinn aur í bauk til að leggja með mér í afmælisveisluna. Nú erum við skáldkonan jafngamlar þar til í næstu viku, þegar ég mun enn og aftur taka árs forskot. Gaf Krummanum mínum líka afmælisgjöf þó hann eigi ekki afmæli fyrr en á aðfangadag. Krumminn var bara nokk kátur með Spæderman-tvennuna (náttföt+litabók) og litina. Altjént sveif hann niður af borðum og stólbökum af mikilli list á meðan við stöldruðum við. Hún var sko ekki að æsa sig yfir þessu merkisafmæli hún Diddus og tók brosandi á móti gestum og gangandi með kaffi og kökum (sem reyndar buðu sér flestar sjálfar í partíið:).

Fór líka í aðventukaffi hjá mágkonu minni og nöfnu og hennar manni í gær. Þetta er árlegt fjölskyldu-hittelsi og heppnast alltaf sérlega vel. Þarna fær maður t.d. alvöru súkkulaði að drekka með rjóma nammi namm. Þetta var afar afslappandi og notalegt.

Kaus í dag. Var ekki auðvelt, en ákvörðun varð að taka og ég stend bara sátt við hana, hvernig sem allt fer. Nú getur maður ekkert meira gert nema að bíða, sjá og slaka á.

Í seinasta tíma á mánudögum er mér ætlað að kenna sérlega "hressum" nemendum í 3. bekk markvissa málörvun. Eftir að hafa unnið með þeim í vetur hef ég komist að því að þessir nemendur þurfa alls ekki mikla örvun, frekar hið gagnstæða. Svo að ég ákvað að venda mínu kvæði í kross og býð nú upp á slakandi jóga með rólegri tónlist og kertaljósi. Fyrsti tíminn var í dag og lofar góðu fyrir framhaldið. Það er skemmtileg tilbreyting að vera með hóp þar sem markmiðið virðist helst vera .....að gera börnin "slök" :-) haha...

föstudagur, nóvember 26, 2004

Náttúrulega

Ég fann náttúrulega lykt". var fyrirsögnin sem blasti við mér í Mogganum í vikunni. Ég fór einmitt að velta fyir mér hvernig náttúruleg lykt væri. Er það kannski ilmur af heyi eða sjavarseltu? Angan af rósum eða myglusveppum? Lykt af úrgangi eða moldarflagi? ...eða kannski bara plein skítafýla? Hvað veit ég en skrýtnara varð þetta allt saman þegar kom í ljós að konan sem hafði fundið náttúrulegu lyktina, hafði fundið hana í stigaganginum heima hjá sér. Svona getur verið spennandi að lesa dagblöðin, svo ég tali ekki um lærdómsríkt. Sá líka í DV um daginn "Mótmælti Íraksstríðinu en getur ekki selt íbúðina sína" - sé ekki alveg samhengið....en það er kannski bara ég. Einnig "Parhús fyrir fatlaða af föðurást"....talandi um einstaklingsmiðaðar byggingar. Nú er sem sagt hægt að kaupa parhús sem eru sérhönnuð fyrir þá sem hafa orðið fatlaðir vegna ástar föður síns. Og nóta bene þetta eru bara örfá spennandi dæmi úr fyrirsagnaflórunni sem dynur á okkur grandvaralausum fréttafíklum. Ef þetta er ekki ástæða til þess að lesa dagblöð......

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Smá blogg

Í dag sat ég á tveimur skilafundum eftir að kennslu lauk og gat því ekki byrjað að undirbúa morgundaginn fyrr en klukkan hálf fjögur. Tók með mér afganginn af heimavinnuni til þess að fara yfir í kvöld. Er komin með nýja vinnureglu. Tek bara með mér heim það sem kemst fyrir í töskunni minni. ef eitthvað kemst ekki fyrir þá verður það skilið eftir í skólanum og unnið síðar. Að vísu á ég svo stóra og góða tösku svo þetta getur orðið nokkuð mikið, en eins og allir vita þá verður maður að setja sér einhver mörk. Er enn að velta fyrir mér hvað ég eigi að kjósa...en held samt að þetta sé allt að koma hjá mér. Ákvörðunin verður tekin á næstu dögum. Tammtammtammtamm...
Er á leiðinni til vinkonu minnar á eftir til þess að gera góð kaup í varagljáa, augnsvertara og hrukkubana. Algjört möst þegar komið er á minn aldur.

PS. Þið sem lesið þetta, hvernig væri að "kommenta" einhvern tímann á bullið í mér? Það er ekki svo flókið og mér þætti gaman að heyra frá ykkur.

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Mont

Var að skreiðast heim eftir að hafa eytt rúmum tveimur klukkustundum í heimavinnuyfirferð. Er samt ekki nærri búin. Skordýra og kóngulóarsýningin tókst bara vel í dag og var virkilega gaman að fá fyrstu bekkingana í heimsókn til okkar. Nemendurnir okkar tóku líka hlutverk sitt, sem uppfræðarar fyrir þau yngri mjög alvarlega og lögðu sig vel fram. Annars líður dagurinn alveg óskaplega hratt enda alltaf nóg að gera. Það er kosturinn við starfið, aldrei tími til að láta sér leiðast.

Svo er hérna smámont til hátíðabrigða. Tók eftir því í morgun að ég á ljóð dagsins á ljod.is í dag (..í 8. sinn reyndar, en hver er að telja:). Þetta er ljóðið sem ég snaraði hér inn á síðuna fyrir nokkrum dögum. Alltaf gaman að vera valin í ljóð dagsins, manni líður bara eins og fegurðardrottningu og maður segir kannski sisona "Jiii þetta kom mér svooo á óvart. Bjóst aldrei við þessu."

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Nei eða já

Fengum þessa fínu köku í morgunkaffinu frá stýrunum okkar. Þeirra leið til þess að sýna samstöðu og hlýhug. Alltaf gott að fá góða köku. Mmmmm.

Erum að undirbúa á fullu skordýra og kóngulóarsýningu fyrir 6 ára krakkana á morgun. Þar verður lesinn upp ýmis konar fróðleikur, leikin leikrit og sungnir söngvar. Við höfum einnig gert tvær stórar og flottar veggmyndir í stofunum sem við munum stolt sýna 1. bekkingunum. Það verður spennandi að sjá hvernig tekst til.

Ætlaði á fund áðan í sambandi við "samninginn" en verð líklega að finna mér annan tíma. Hef reyndar lesið hann mjög vel yfir og þykist hafa góða heildarmynd af því sem hann hefur upp á að bjóða. Svo þarf maður bara að taka ákvörðun.....og standa eða falla með henni. Margir sem ég hef heyrt í ætla að segja Nei, jafnvel þó þeir telji að gerðadómurinn geri ekki betur. Þetta sé spurning um stolt. Ég veit ekki. Hversu hollt er stolt?? En ég hef ekki heyrt neinn sem ætlar að segja Já, af því að hann sé svo ánægður með samninginn. Menn segjast bara vera að lágmarka skaðann. Þetta verða því undarlegar kosningar. Menn játa því sem þeir vilja ekki og með því að neita því sem þeir vilja ekki, þá fá þeir gerðadóm sem þeir vilja ekki heldur. Ekta svona "lús-lús" staða. En af því að ég er svo spámannlega vaxin ætla ég að spá til um úrslitin. Ég reikna sem sagt með því að samningurinn verði felldur eða samþykktur með afar naumum meirihluta. (Ég lofa því að monta mig ekki mikið ef ég hef rétt fyrir mér)


mánudagur, nóvember 22, 2004

Séð og heyrt

Rosalega getur verið gaman að horfa á danskt sjónvarpsefni. Læt ekki Krónikuna framhjá mér fara ef ég get komist hjá því. Er þetta ekki merki um það að maður sé orðinn gamall og menningalega sinnaður? Annars eru sunnudagskvöld orðin sannkölluð sjónvarpskvöld hjá fjölskyldunnieða frá því að Djeims Bond sjálfur varð fastur liður á dagskránni.

Það er skrafað og skeggrætt um samninginn á kaffistofum kennara og á spjallvef KFR um þessar mundir og heyrist mér hljóðið í fólki ekkert mjög jákvætt hvorki gagnvart samningnum né því að fara í gerðadóm. Þetta er vont mál sem virðist bara geta versnað.....ef það er nú hægt. Hér vantar einhvern eins og Djeims Bond til þess að bjarga málum. Auglýsi eftir honum.


föstudagur, nóvember 19, 2004

Af tveimur vondum kostum

Tveir kostir eru nú komnir upp í stöðunni.

Annaðhvort að neita samningnum sem fréttamiðlar keppast um að dásama fyrir hönd okkar kennara og tala um 30%+ launahækkun. Ég veit ekki alveg hvernig þeir finna það út en gagnvart mér og örugglega mörgum öðrum þá er þetta bara miðlunartillagan fræga, fyrir utan það að launapottarnir 1. ágúst eru þrír í stað tveggja. Annað er eins. Tvær eingreiðslur koma einnig til. Önnur líklega til að dekka launahækkunarleysið frá því að samningar voru lausir í mars en hin til að koma til móts við skerðingu á sumarlaunum vegna verkfallsins. Nú hinn möguleikinn í stöðunni er að neita samningnum en þá förum við átómatískt í fyrirfram gefinn gerðadóm sem verður að öllum líkindum ekki hærri en miðlunartillagan. Sem sagt tveir vondir kostir sem þó þarf að velja um.

Kennslan hefur gengið afar vel í vikunni og hreint yndislegt að vera aftur í návist þessara "engla" sem hafa svo tæra og ómengaða sýn á lífið og tilveruna. Kuldinn hefur þó verið að gera okkur lífið leitt. Ekki bara úti, heldur var líka kuldagustur úr loftræstingunni í skólastofunni okkar í dag. Nemendur sátu semsagt kuldabláir á nefinu í morgun í tveimur fyrstu tímunum, grey skinnin og nú er ég líka komin með kvef. Það eina jákvæða við þetta var að það reyndist ekki erfitt að koma þeim út í frímínútur því það var ekkert mikið kaldara að fara út í hlýjum útigalla heldur en að norpa á bol í norðangarra við borðið sitt.

Orti eitt lítið ljóð í tilefni dagsins.

Svo kalt..

...að það eina
sem heyrist
er skrjáfið
í stjörnunum

sem skríða
skjálfandi
undir svarta
himnasængina.


miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Búið að skrifa undir

Þá er allt í einu búið að skrifa undir samninga. Byggðir á hinni rómuðu miðlunartillögu en með öllu fleiri beinum. veit ekki hversu hrifið fólk verður, en nú er verið að reyna að komast undan gerðadóminum svo einhverjar fórnir verða kannski færðar. Ætla að bíða með að taka afstöðu þar til þetta hefur verið kynnt fyrir okkur almennilega. Fannst samt svolítið skrítið að sveitastjórnirnar skildu semja yfirhöfuð með þennan glæsilega gerðadóm upp á arminn. Kannski hafði flensan einhver keðjuverkandi áhrif, eftir allt saman. Sá Einar Odd koma alveg brjálaðan í viðtal á Stöð2 þar sem hann sagði að þessir samningar muni koma öllu í uppnám. Nú muni að sjálfsögðu aðrar láglaunastéttir vilja hækka til jafns við okkur. Og þá fari allt í bál og brand. Skil ekki alveg þessi rök. Væru þeir sem sagt ánægðir á sínum launum ef við fengum lítið sem ekkert. Hvað græða þeir á því? Mér finnst sjálfsagt að borga fólki mannsæmandi laun og stéttum með svipaða menntun og ábyrgð svipuð laun. Sé ekki óréttlætið í því. En ef allir telja sig þurfa að bera sig saman við okkur....so be it. Við fengum heldur ekki til jafns við þá stétt sem við miðuðum okkur við og munum aldrei fá. Verður spennandi að sjá hvernig Menntamálaráðherra ætlar að leysa launamálin þegar hún færir fyrsta árið í framhaldsskólunum niður í grunnskólann. Það verður örugglega fjöldinn allur af framhaldsskólakennurum sem er tilbúinn að lækka um 30% í launum og kenna þessum aldri á grunnskólastiginu.

Skuggi kom heim í dag. Aðgerðin heppnaðist vel og honum virðist ekki hafa orðið meint af. Reyndist meira að segja svo sprækur hérna áðan að hann var kominn hálfa leið inn í búr hamstursins þegar við litum af honum. Hamsturinn Þoka reyndist klókari og með meiri sjálfsbjargarhvöt en ég hafði gert mér grein fyrir. Hún hafði nefnilega grafið sig undir sagið lengst inn í horni þar sem erfitt var fyrir kött að komast. Skuggi skammaðist sín ekkert sérstaklega fyrir tiltækið, enda honum eðlislægt að elta allt sem líkist mús.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Af samúð og snjó

Það kyngir niður snjónum í dag. Bílarnir silast eftir götunum og maður keyrir næstum eftir minni í stórhríðinni. Mætti í morgun og kenndi mínum galvösku nemendum. Held að þeir séu með ótrúlega hæfileika til þess að "gleyma" því eftir fyrstu frímínútur höfðu þeir steingleymt 7 vikna verkfalli og veikindum kennara frá því í gær. Átti mjög gott samtal við skólastjórann minn í gær. Hún hefur þann fágæta hæfileika að láta mann tala æsinginn út og eftir smástund þá líður manni betur og fer að snúast hugur. Nú er ég semsagt ekki eins viss með að segja upp en, ég útiloka samt ekkert. Bíð eftir því sem "kemur upp úr kassanum" í vikunni, a.m.k. til að byrja með. Í gær og í morgun voru allir fjölmiðlar fullir af frásögum af öskureiðum foreldrum sem sökuðu kennarastéttina um allt hið versta. Fólk kom fram og sagðist ekki hafa neina samúð með stéttinni, hefðu haft það en alls ekki eftir þetta. Menn létu ýmis orð falla og margir misstu sig alveg. Ég fyrir mína parta, hef ekki orðið vör við alla þessa samúð.....hún hefur legið vandlega falin innra með öllu þessu fólki, sem hafði fullt af tækifærum til þess að leggja sitt á vogarskálarnar með því að þrýsta á stjórnvöld sl. 7 vikur. Samúð virðist heldur ekki skila neinu í svona baráttu, það hefur margsýnt sig. Enginn hefur t.a.m. sýnt aumingja bankastjórunum eða alþingismönnunum okkar samúð þegar þeir hafa farið fram á launahækkanir og ekki virðist það hafa haft neikvæð áhrif á kaup þeirra né kjör. Ég held nefnilega að með þessum aðgerðum hafi stéttin sýnt það að hún er ekki hrædd við almenningasálitið og hún mun ekki láta terrorisera sig til hlýðni. Margir skólar voru því lokaðir í dag og hálf kennsla í öðrum. Fjöldi uppsagna hafa borist sveitarfélögunum og margar örugglega á leiðinni. Staðan er grafalvarleg og enginn skyldi ganga að vinnuframlagi kennara vísu næstu misseri. Hvenær og hvort vinnufriður skapast í íslenskum skólum er algerlega undir stjörnvöldum komin. Það verður að bæta kjörin og það verulega, annað er bara gálgafrestur. Annars hafði þessi snjókoma afar dempandi áhrif á allt samfélagið. Nú er ekki talað um neitt nema ófærð og og snjómokstur í fjölmiðlum, enda veðrið eftir sem áður vinsælasta umræðuefnið á Íslandi. Nú er sem sagt umræðan um kennaraverkfallið fennt í kaf.


Kom heim um 4 leytið og þá brunuðum við mæðgur með Skugga hinn ástsæla kött heimilisins upp á dýraspítala, þar sem hann mun dvelja á fastandi maga þar til hann verður geldur í fyrramálið. Mikið átti heimasætan bágt með að skilja við elskuna sína, en við kysstum Skuggann bless og margsögðum honum að við kæmum eins fljótt og auðið væri til að sækja hann á morgun. Vona að hann hafi skilið hvað við sögðum. Hefðum kannski átt að mjálma til hans hughreystingarorð. Mjá mjá mjá......


mánudagur, nóvember 15, 2004

Voðaleg veikindi

Það er vont að vera veikur á þessum síðustu og verstu tímum. Er á leiðinni í heitt bað til að slá á andlegar og líkamlegar þjáningar mínar. Heyrði að Jónína Bjartmars hefði sagt í Ísland í bítið áðan að það hefði aldrei staðið til af hálfu sveitarfélaganna að semja við kennara og því hefði ríkið orðið að höggva á hnútinn. Sér er nú hvert höggið....nema það hefði átt að vera rothögg fyrir kennara. Gott að festa í lög lágmarklaunastefnu gagnvart heilli stétt. Brillijant...eða þannig. Svo á að henda einhverjum 130þúsund kalli í okkur eins og beini í hundskjaft bara til að hafa okkur góð. Mér a.m.k.er misboðið. Mér hefði þótt Alþingi sæmandi að koma að þessu með þeim hætti að það hafði hvatt sveitarstjórnirnar (sem tilheyra jú flestar sömu stjórnmálaflokkum og flokkarnir á Alþingi) til þess að semja við stéttina og lofað illa stöddum sveitarfélögum stuðningi ef á þyrfti að halda til þess að koma til móts við kröfurnar. Það eru nefnilega ekki bara sveitastjórnirnar sem hafa engan áhuga, áhugaleysið er algert, ríkið hefur ekki áhuga og foreldrar beina spjótum sínum að kennurum en ekki vinnuveitendum og hafa engan áhuga á því að hafa kennara barna sinna sátta með kjör sín. Það er ýmislegt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Hér þarf nefnilega bara vilja og vilja til þess að vilja. Svo einfalt er það.

laugardagur, nóvember 13, 2004

Laugardagur til ólukku

Ég er svo döpur, svo sár, svo svekkt, svo búin á því andlega og líkamlega að mig langar bara til að skríða undir sæng og sofa þar til þessi martröð er yfirstaðin. Ég skammast mín svo fyrir að tilheyra þessari þjóð sem beitir lagaofbeldi, sem sýnir menntun fyrirlitningu, og sem traðkar á kennurum, konum og börnum þessa lands af fádæma skilningsleysi og hroka.
Ég hef tekið ákvörðun, ákvörðun sem ég hélt að ég myndi aldrei taka, því mér er starfið mitt og nemendur mínir svo kærir. Ég ætla að segja upp. Í næstu viku mun ég leggja fram uppsagnarbréf og falast eftir lausn frá störfum. Í 18 ár hef ég sinnt kennslu af miklum áhuga, metnaði og með mikilli gleði. En nú er allt breytt. Ég lít svo á að sveitarfélagið mitt hafi ekki áhuga á að borga mér, né öðrum kennurum sanngjörn laun og því hef ég ekki áhuga á að "gefa" þeim vinnu mína framar. Ég hef upplifað 7 vikna ofsóknir gagnvart kennarastéttinni, orðið vitni á vanþekkingu þeirra sem fara með fræðslumál í þessu landi á skólum og skólastarfi og síðast en ekki síst, skeytingaleysi samfélagsins gagnvart menntun barna. Mér líður eiginlega innra með mér eins og einhver mér nákominn hafi dáið....en kannski líður fólki bara þannig þegar trú þess á samfélagið, réttlætið og yfirvöld deyr. Ég get bara ekki meir......

föstudagur, nóvember 12, 2004

Bananalýðveldið

Hlustaði á fyrstu umræðu til (ó)laganna í dag. Mönnum mæltist auðvitað misvel og ég verð að segja að Vinstri grænir áttu atkvæðið mitt í dag. Djö....., hvað maður er að verða róttækur og neikvæður. Hvernig er heldur annað hægt eftir 7 vikna ofsóknir. Fór niður í verkfallsmiðstöð eftir hádegið og hitti þar helling af ævareiðum kennurum. Flestum hafði brugðið svo í morgun að þeir voru engan veginn búnir að jafna sig þó langt væri liðið á dag. Það er allavegana ljóst að þessi lög leysa engan vanda og það verða ekki kátir kennarar sem koma til vinnu næsta mánudag.....Ég hef heyrt af mörgum sem ætla strax að segja upp og mótmæla á þann hátt þessari ólýðræðislegu aðför. Hvað á það að þýða að láta samninganefndirnar sitja og góna á hvor aðra til 15. des?.... og ef ekki verður búið að semja þá, þá muni verða skipaður gerðadómur.! Þetta er augljóslega alveg gríðarlegur hvati fyrir Launanefndina til þess að semja - það sér hver maður.Doooh:s Svo tekur náttúrulega tíma að skipa dóminn og safna gögnum og á meðan sitja kennarar eftir á "gömlu" laununum sínum. Heildargreiðslum þarf svo ekki að skila fyrr en næsta vor og eru þá þær bara afturvirkar til 15. des. Engar "stríðsskaðabætur" eru boðnar og engin trygging fyrir því að laun og kjör verði miðuð við viðmiðunarstéttina okkar - framhaldsskólakennara. Er furða þó það hafi soðið á sumum í dag.
Nokkrir kennarar tóku sig til í dag og söfnuðu fyrir nokkrum kössum af bönunum og keyrðu með þá niður á Alþingi og dreifðu til þeirra sem þar voru. Þannig vildu þeir láta í ljós skoðun sína á þessu bananalýðveldi sem við búum við. Margur verður af aurum api....og apar borða banana......nanananan.....life is life....nanananana.....er algerlega að missa mig þessa stundina.

Datt í hug nýtt nafn á nýja borgastjórann okkar. Steinunn Vald.is. Hvernig lýst ykkur á?

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Lög ó-lög....

Er enn með óbragð eftir að hafa hlustað á menntamálaráðherrann lýsa því yfir, að þó sveitarfélögin hefðu allan ríkissjóð til umráða gætu þau ekki komið til móts við ítrustu kröfur kennara. Hver var að biðja um ítrustu kröfur? Frá þeim hefur verið bakkað verulega frá því í vor. Og gott að vita að það eru peningarnir sem eru fyrirstaðan í þessu öllu saman. Hún sagði líka að aðeins 7% munur væri á launum framhaldsskólakennarar og grunnskólakennara þegar það kemur skýrt fram í Mogganum í dag að munurinn er nær 30% og þá eru stjórnendur í grunnskólanum meðtaldir í meðallaunum. Hún talaði um freklega framgöngu okkar (hvaða freklegu framgöngu?) en einnig að auðvitað ættu kennarar að hafa góð laun til samræmis við mikilvægi þeirra. EN...því miður væri það ekki hægt því þá myndi stöðugleikinn detta á rassinn. Skil ekki svona bull, og þessi kona hefur fallið þvílíkt í áliti hjá mér. Er alvarlega farin að hugsa mér til hreyfings í starfi. Fer kannski bara í námsleyfi á næsta ári (hef ekki tekið neitt slíkt í 18 ár) og breyti svo um starfsvettvang. Veit að þetta starf á best við mig af öllum störfum og ég held að ég sé að sinna því vel, en ég er orðin óskaplega þreytt á þessu virðingar og skilningsleysi sem við kennarar búum við. Það getur verið að sumum finnist þetta létt og ómerkilegt starf sem borga eigi eins og hvert annað búðarstarf, en það finnst mér ekki. Ég er mjög stolt af starfinu mínu og finnst fátt merkilegra en að starfa með ungu kynslóðinni og hjálpa þeim til aukins þroska. Ef lög verða sett á morgun eins og gefið var í skyn á Stöð 2 í kvöld verða það ekki svo kátir kennarar sem snúa til starfa á mánudag. Og hætt er við fjöldaflótta úr stéttinni á vormánuðum. Og hvað gera yfirvöld þá? Heyrði setningu í sjónvarpsþætti í gær sem mér finnst eiga vel við nú þegar mér líður eins og ég sitji á botninum á drullupitti. Hljómar einhvernveginn svona í lauslegri þýðingu.

Allt verður gott að lokum - ef það er ekki gott þá eru þetta ekki lokin
(All things will be good in the end - if it isn´t good, then it isn´t the end)

Þetta geta því ekki verið lokin......hangi á því.

Morgunþankar

Vaknaði við ruslakallana í morgun og fór upp og fékk með að borða. Börnin njóta verkfallsins með því að sofa á sínu græna eyra langt fram á morgun. Get samt ekki leyft mér slíkan munað. Ætla ekki að snúa sólarhringnum við. Er nebbnilega á leið úr verkfalli hvern dag sem ég vakna. Ohh, hvað ég vona að eitthvað almennilegt fari að gerast, ónýtt kennsluþörf mín er alveg að gera út af við mig.

Las tvær góðar greinar í Morgunblaðinu í morgun. Önnur er eftir stærðfræðikennara í Háskóla Íslands um "lausn" á þessari kjaradeilu sem frú Þorgerður Katrín virðist hafa dottið niður á. Hin greinin er eftir prófessor nokkurn og er um "Aðbúð og geðvernd kennara". Hvet alla til að lesa þessi skrif.

Fór á landsleikinn í gær og það eina jákvæða í leiknum sjálfum var markafjöldinn. Níu mörk í einum leik er ekki svo slæmt, en betra hefði að meginhluti þeirra hefði verið skoruð í mark Norðkvennanna en ekki okkar. Tap 2-7 var dapurleg staðreynd.

Nýr borgarstjóri var kynntur í gær. Steinunn Valdís fær þann heiður að vera þriðji borgastjóri R-listans á jafnmörgum árum. Kannski ætti R-listinn að bjóða næst fram amk. 3 borgastjóraefni svo fólk viti fyrirfram hvað það er að kjósa.


þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Í verkfall á ný

Beið spennt í gærkvöldi eftir því hvort LN myndi samþykkja tilboð kennara og verkfalli yrði aflýst, en af því varð því miður ekki. LN hafði hent fram öðru tilboði fyrr en það var bara svona sýndarveruleika-tilboð. Eða eins og Eiríkur orðaði það; Þetta er svipað því að einhver fer út í búð með 5000 kall og ætlar að kaupa eitthvað sem kostar 7000 krónur. Hann getur það auðvitað ekki og þá fer hann í bankann og skiptir 5000 kallinum í 5 þúsund krónu seðla og mætir aftur í búðina og ætlar að kaupa. Snjallt?Fór í morgun upp í verkfallsmiðstöð. Áttum eldhúsvaktina - í 3. sinn - en hver er að telja? Kom reyndar í ljós að mistök höfðu átt sér stað í eldhúsvaktaskipulagningunni. En hvað um það, við redduðum þessu auðvitað eins og venjulega. Um 11 leytið kom Eiríkur og sagði frá stöðu mála og var þá mættur múgur og margmenni á staðinn og var mörgum heitt í hamsi. Það er svo fundur á morgun hjá samninganefndunum svo ekkert gerist amk. fyrr en þá.Er að hugsa um að skella mér á kvennalandsliðsleik á morgun. Norska kvennalandsliðið í fótbolta mun etja kappi við okkar stúlkur í Egilshöllinni klukkan 17:00 á morgun. Við í mínum skóla eigum glæsilegan fulltrúa í íslenska landliðinu og ætlum því að fylgjast grannt með gangi mála og segjum: Áfram Ísland !

mánudagur, nóvember 08, 2004

Alveg kolfellt

Þá hefur verið talið upp úr kjörkössunum. Tæplega 93% kennara felldu þessa "rómuðu" miðlunartillögu en sveitarfélögin samþykktu hana einróma. Átti ekki von á alveg svona afgerandi afstöðu en ef einhver var einhverntímann í einhverjum vafa um samstöðu stéttarinnar, þá held ég að viðkomandi verði að endurskoða þá afstöðu. Hvað gerist nú? Samningarnefndinrnar voru strax lokaðar inni hjá Ríkissáttasemjara og geta því ekki mætt í viðtöl í fjölmiðlum´, en Gunnar I Birgis ætlar að ausa úr brunni visku sinnar í þeirra stað. Það verður ábyggilega ekki sagt "Það er gott að búa í Kópavogi" eða eitthvað álíka frumlegt. Einnig væri gaman að heyra í Halldóri Ás sem var viss um að kennarar myndu samþykkja þessa góðu tillögu fyrir viku síðan. Þetta eru greinilega menn sem skynja vilja fólksins betur en aðrir. Nú er verið að biðja okkur um að fresta verkfallinu, en það kemur örugglega ekki til greina nema nýr samningur (og þá erum við að tala um alvöru samning) liggi fyrir. Nú verður semsagt setið og setið og metið.....vonandi tekur þetta fljótt af og loksins eitthvað gert til þess að bæta þetta ófremdarástand sem ríkt hefur í launamálum stéttarinnar

laugardagur, nóvember 06, 2004

"Stei tjúnd"

Var að koma úr þessum líka fínu kjötbollum hjá tengdó. Klikka aldrei. Ekki spillti fyrir að það voru nýbakaðar pönnslur í eftirmat, og lét sá sjö ára sitt ekki eftir liggja við að sporðrenna hvorutveggja niður með bestu lyst.

Nú fer að styttast í það að talið verði upp úr kjörkössunum. Samkvæmt lítilli skoðanakönnun sem hægt er að taka þátt í á spjalli KFR, þá verður miðlunartillagan felld með miklum meirihluta. Hvað gerist í kjölfarið er alls óvíst. Kannski verða sett á okkur lög afar fljótlega og kannski ekki, hvað gerist þá? Hvað er í alvörunni hægt að gera? Þessum spurningum og mörgum öðrum verður svarað í næstu þáttum af hinni æsispennandi sápuóperu: Raunir launagreiðandans. Fylgist með alveg frá upphafi, og sérlega áhugasömum bendi ég á að fylgjast einnig með hinum sívinsælu þáttum Kennararbuddurnar. Já það eru svo sannalega spennandi tímar framundan:-)

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Þreytublogg

Var eitthvað svo lúin í gær eftir vinnuna að mér tókst ekki einu sinni að skrifa eitthvert væl á þessa síðu. Við höfum verið að keyra alveg á fullu gasi þessa vikuna í skólanum og allir komnir á gott skrið. Ætlum að enda verkefnið okkar um skordýrin og kóngulærnar með öðrum hætti en áður var ráð fyrir gert og það kostaði heilmikla skipulagningu og umsjón með miklu hópastarfi. Eins og þeir sem til þekkja vita, er fátt eins lýjandi og 40 börn í hópastarfi sem öll þurfa mismunandi aðstoð. Þá kæmi sér oft vel að getað klónað sjálfan sig í fljótheitum. En þetta er hafðist nú allt á endanum og afraksturinn verður sýndur 6 ára nemendunum við fyrsta tækifæri.

Heyrði krúttlega sögu af einni lítilli í okkar skóla sem kom til kennarans sín og sagði: Mér finnst sko að þú eigir að hafa góð laun....þú ert svo góður kennari. Ef ég mætti ráða myndi ég sko borga þér HUNDRAÐÞÚSUNDKRÓNUR. Hehe:).... Maður þyrfti að öðlast þetta verðmætamat á ný, þá yrði maður alltaf glaður og sæll með sitt.

Í heimsfréttunum er það helst að Bush var kosinn aftur (öllum að óvörum???) spurning með myndbandið frá Ósóma Binladen...haldiði að það hafi verið ekta? Í tölvusvindlheimi nútímans er jú allt hægt, svo að mér fannst þetta sérlega heppilegur tími fyrir suma að sumir skyldu allt í einu sýna sig og skelfa sumt fólk, sem annars hefði bara setið heima, til þess að mæta á kjörstað og kasta atkvæði sínu í "Runnann".

Þórólfur borgastjóri mun svo mæta í Kastljósið á eftir og gera "hreint" fyrir sínum dyrum og reynt verður að finna út hvort hann sé raunveruleg bissnissbulla eða bara blóraböggull. Ég kann að mörgu leyti ágætlega við Þórólf, finnst hann allavegana heldur skárri heldur en aðrir errlistamenn svo ég er ekkert óskaplega spennt fyrir því að hann segi af sér og við fengjum einhvern annan. Heyrði karl í dægurmálaútvarpinu þusa um þetta mál og hann sagði eins og svo margir segja reyndar : "Það er enginn sekur fyrr en sekt hans er sönnuð". Þetta er svona lögfæðingafrasi sem ég er bara alls ekki sammála. Mín skoðun er sú að þú ert sekur um leið og þú fremur glæp, hvort sem þú verður svo dæmdur fyrir hann eður ei. Réttara væri því að segja :"Enginn skal dæmdur sekur, fyrr en sekt hans er sönnuð". Finnst ykkur þetta vera smásmugulegt hjá mér? :)


þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Þriðjudagur til þrautar....

Var að skríða í hús eftir smástopp í Bónusinum á leiðinni heim. Kaus í dag og setti seðilinn minn í fína appelsínugula kjörkassann okkar á kennarastofunni. Held að við séum flest búin að gera upp hug okkar varðandi þessa tillögu. Það er eitt annað sem mér finnst asnalegt það er að við skulum vera að kjósa um tvo samninga í einu , samning gagnvart kennurum og skólastjórnendasamninginn. Þetta er tveir aðskildir samningar og á að kjósa um þá í sitthvoru lagi af þeim sem hlut eiga að máli. Annað er bara bull. Hversvegna skildum við eiga rétt á því við fella góðan samning hjá þeim ef okkar er slæmur og öfugt?

Svartir
stafirnir

Leggja lykkju á
leið sína

Orðin hafa
villst

mánudagur, nóvember 01, 2004

Aftur til kennslu

Það var blendin tilfinnig sem hríslaðist um mig í morgun þegar ég tók á móti nemendum mínum. Allir verulega kátir með að byrja í skólanum aftur og virtust koma ágætlega undan verkfalli. Þar sem nemendur fá venjulega að velja að verulegu leyti hvað og hversu mikið þeir vinna í heimavinnu þá komu góð skil á henni til mín í dag. Og þar sem hluti af eftirmiðdeginum fór í fund um miðlunartillöguna margfrægu þá þurfti ég að taka 10 kíló af heimavinnu til að fara yfir, með mér heim í dag (því ég komst bara yfir hluta af henni fyrir klukkan 5) og ætla að reyna að dunda mér við að fara yfir þetta í kvöld hér heima. En óneitanlega var gaman að hitta þessa "engla" aftur :) ..og gott ef þau höfðu ekki saknað okkar líka. Þegar heim var komið beið mín pósturinn frá Ríkissáttasemjara og ég beðin um að krota X á seðil og senda til baka. Það var fljótgert og þetta verður sent á morgun. Hafði það í huga þegar ég krossaði að ég var ekki að kjósa um áframhaldandi verkfall (því að ég vil það ekki), heldur um hvort þessi tillaga væri nægilega góð og skilaði mér viðunandi launum (því það er það sem ég vil). Fékk líka útborguð laun, sem ég kem að öllum líkindum til með að skulda þegar upp er staðið....en ce´ la vie .... lífið er lotterí og ég tek þátt í því:)