Af samúð og snjó
Það kyngir niður snjónum í dag. Bílarnir silast eftir götunum og maður keyrir næstum eftir minni í stórhríðinni. Mætti í morgun og kenndi mínum galvösku nemendum. Held að þeir séu með ótrúlega hæfileika til þess að "gleyma" því eftir fyrstu frímínútur höfðu þeir steingleymt 7 vikna verkfalli og veikindum kennara frá því í gær. Átti mjög gott samtal við skólastjórann minn í gær. Hún hefur þann fágæta hæfileika að láta mann tala æsinginn út og eftir smástund þá líður manni betur og fer að snúast hugur. Nú er ég semsagt ekki eins viss með að segja upp en, ég útiloka samt ekkert. Bíð eftir því sem "kemur upp úr kassanum" í vikunni, a.m.k. til að byrja með. Í gær og í morgun voru allir fjölmiðlar fullir af frásögum af öskureiðum foreldrum sem sökuðu kennarastéttina um allt hið versta. Fólk kom fram og sagðist ekki hafa neina samúð með stéttinni, hefðu haft það en alls ekki eftir þetta. Menn létu ýmis orð falla og margir misstu sig alveg. Ég fyrir mína parta, hef ekki orðið vör við alla þessa samúð.....hún hefur legið vandlega falin innra með öllu þessu fólki, sem hafði fullt af tækifærum til þess að leggja sitt á vogarskálarnar með því að þrýsta á stjórnvöld sl. 7 vikur. Samúð virðist heldur ekki skila neinu í svona baráttu, það hefur margsýnt sig. Enginn hefur t.a.m. sýnt aumingja bankastjórunum eða alþingismönnunum okkar samúð þegar þeir hafa farið fram á launahækkanir og ekki virðist það hafa haft neikvæð áhrif á kaup þeirra né kjör. Ég held nefnilega að með þessum aðgerðum hafi stéttin sýnt það að hún er ekki hrædd við almenningasálitið og hún mun ekki láta terrorisera sig til hlýðni. Margir skólar voru því lokaðir í dag og hálf kennsla í öðrum. Fjöldi uppsagna hafa borist sveitarfélögunum og margar örugglega á leiðinni. Staðan er grafalvarleg og enginn skyldi ganga að vinnuframlagi kennara vísu næstu misseri. Hvenær og hvort vinnufriður skapast í íslenskum skólum er algerlega undir stjörnvöldum komin. Það verður að bæta kjörin og það verulega, annað er bara gálgafrestur. Annars hafði þessi snjókoma afar dempandi áhrif á allt samfélagið. Nú er ekki talað um neitt nema ófærð og og snjómokstur í fjölmiðlum, enda veðrið eftir sem áður vinsælasta umræðuefnið á Íslandi. Nú er sem sagt umræðan um kennaraverkfallið fennt í kaf.
|

0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home