miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Búið að skrifa undir

Þá er allt í einu búið að skrifa undir samninga. Byggðir á hinni rómuðu miðlunartillögu en með öllu fleiri beinum. veit ekki hversu hrifið fólk verður, en nú er verið að reyna að komast undan gerðadóminum svo einhverjar fórnir verða kannski færðar. Ætla að bíða með að taka afstöðu þar til þetta hefur verið kynnt fyrir okkur almennilega. Fannst samt svolítið skrítið að sveitastjórnirnar skildu semja yfirhöfuð með þennan glæsilega gerðadóm upp á arminn. Kannski hafði flensan einhver keðjuverkandi áhrif, eftir allt saman. Sá Einar Odd koma alveg brjálaðan í viðtal á Stöð2 þar sem hann sagði að þessir samningar muni koma öllu í uppnám. Nú muni að sjálfsögðu aðrar láglaunastéttir vilja hækka til jafns við okkur. Og þá fari allt í bál og brand. Skil ekki alveg þessi rök. Væru þeir sem sagt ánægðir á sínum launum ef við fengum lítið sem ekkert. Hvað græða þeir á því? Mér finnst sjálfsagt að borga fólki mannsæmandi laun og stéttum með svipaða menntun og ábyrgð svipuð laun. Sé ekki óréttlætið í því. En ef allir telja sig þurfa að bera sig saman við okkur....so be it. Við fengum heldur ekki til jafns við þá stétt sem við miðuðum okkur við og munum aldrei fá. Verður spennandi að sjá hvernig Menntamálaráðherra ætlar að leysa launamálin þegar hún færir fyrsta árið í framhaldsskólunum niður í grunnskólann. Það verður örugglega fjöldinn allur af framhaldsskólakennurum sem er tilbúinn að lækka um 30% í launum og kenna þessum aldri á grunnskólastiginu.

Skuggi kom heim í dag. Aðgerðin heppnaðist vel og honum virðist ekki hafa orðið meint af. Reyndist meira að segja svo sprækur hérna áðan að hann var kominn hálfa leið inn í búr hamstursins þegar við litum af honum. Hamsturinn Þoka reyndist klókari og með meiri sjálfsbjargarhvöt en ég hafði gert mér grein fyrir. Hún hafði nefnilega grafið sig undir sagið lengst inn í horni þar sem erfitt var fyrir kött að komast. Skuggi skammaðist sín ekkert sérstaklega fyrir tiltækið, enda honum eðlislægt að elta allt sem líkist mús.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home