Þreytublogg
Var eitthvað svo lúin í gær eftir vinnuna að mér tókst ekki einu sinni að skrifa eitthvert væl á þessa síðu. Við höfum verið að keyra alveg á fullu gasi þessa vikuna í skólanum og allir komnir á gott skrið. Ætlum að enda verkefnið okkar um skordýrin og kóngulærnar með öðrum hætti en áður var ráð fyrir gert og það kostaði heilmikla skipulagningu og umsjón með miklu hópastarfi. Eins og þeir sem til þekkja vita, er fátt eins lýjandi og 40 börn í hópastarfi sem öll þurfa mismunandi aðstoð. Þá kæmi sér oft vel að getað klónað sjálfan sig í fljótheitum. En þetta er hafðist nú allt á endanum og afraksturinn verður sýndur 6 ára nemendunum við fyrsta tækifæri. Heyrði krúttlega sögu af einni lítilli í okkar skóla sem kom til kennarans sín og sagði: Mér finnst sko að þú eigir að hafa góð laun....þú ert svo góður kennari. Ef ég mætti ráða myndi ég sko borga þér HUNDRAÐÞÚSUNDKRÓNUR. Hehe:).... Maður þyrfti að öðlast þetta verðmætamat á ný, þá yrði maður alltaf glaður og sæll með sitt. Í heimsfréttunum er það helst að Bush var kosinn aftur (öllum að óvörum???) spurning með myndbandið frá Ósóma Binladen...haldiði að það hafi verið ekta? Í tölvusvindlheimi nútímans er jú allt hægt, svo að mér fannst þetta sérlega heppilegur tími fyrir suma að sumir skyldu allt í einu sýna sig og skelfa sumt fólk, sem annars hefði bara setið heima, til þess að mæta á kjörstað og kasta atkvæði sínu í "Runnann". Þórólfur borgastjóri mun svo mæta í Kastljósið á eftir og gera "hreint" fyrir sínum dyrum og reynt verður að finna út hvort hann sé raunveruleg bissnissbulla eða bara blóraböggull. Ég kann að mörgu leyti ágætlega við Þórólf, finnst hann allavegana heldur skárri heldur en aðrir errlistamenn svo ég er ekkert óskaplega spennt fyrir því að hann segi af sér og við fengjum einhvern annan. Heyrði karl í dægurmálaútvarpinu þusa um þetta mál og hann sagði eins og svo margir segja reyndar : "Það er enginn sekur fyrr en sekt hans er sönnuð". Þetta er svona lögfæðingafrasi sem ég er bara alls ekki sammála. Mín skoðun er sú að þú ert sekur um leið og þú fremur glæp, hvort sem þú verður svo dæmdur fyrir hann eður ei. Réttara væri því að segja :"Enginn skal dæmdur sekur, fyrr en sekt hans er sönnuð". Finnst ykkur þetta vera smásmugulegt hjá mér? :) |

0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home