fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Lög ó-lög....

Er enn með óbragð eftir að hafa hlustað á menntamálaráðherrann lýsa því yfir, að þó sveitarfélögin hefðu allan ríkissjóð til umráða gætu þau ekki komið til móts við ítrustu kröfur kennara. Hver var að biðja um ítrustu kröfur? Frá þeim hefur verið bakkað verulega frá því í vor. Og gott að vita að það eru peningarnir sem eru fyrirstaðan í þessu öllu saman. Hún sagði líka að aðeins 7% munur væri á launum framhaldsskólakennarar og grunnskólakennara þegar það kemur skýrt fram í Mogganum í dag að munurinn er nær 30% og þá eru stjórnendur í grunnskólanum meðtaldir í meðallaunum. Hún talaði um freklega framgöngu okkar (hvaða freklegu framgöngu?) en einnig að auðvitað ættu kennarar að hafa góð laun til samræmis við mikilvægi þeirra. EN...því miður væri það ekki hægt því þá myndi stöðugleikinn detta á rassinn. Skil ekki svona bull, og þessi kona hefur fallið þvílíkt í áliti hjá mér. Er alvarlega farin að hugsa mér til hreyfings í starfi. Fer kannski bara í námsleyfi á næsta ári (hef ekki tekið neitt slíkt í 18 ár) og breyti svo um starfsvettvang. Veit að þetta starf á best við mig af öllum störfum og ég held að ég sé að sinna því vel, en ég er orðin óskaplega þreytt á þessu virðingar og skilningsleysi sem við kennarar búum við. Það getur verið að sumum finnist þetta létt og ómerkilegt starf sem borga eigi eins og hvert annað búðarstarf, en það finnst mér ekki. Ég er mjög stolt af starfinu mínu og finnst fátt merkilegra en að starfa með ungu kynslóðinni og hjálpa þeim til aukins þroska. Ef lög verða sett á morgun eins og gefið var í skyn á Stöð 2 í kvöld verða það ekki svo kátir kennarar sem snúa til starfa á mánudag. Og hætt er við fjöldaflótta úr stéttinni á vormánuðum. Og hvað gera yfirvöld þá? Heyrði setningu í sjónvarpsþætti í gær sem mér finnst eiga vel við nú þegar mér líður eins og ég sitji á botninum á drullupitti. Hljómar einhvernveginn svona í lauslegri þýðingu.

Allt verður gott að lokum - ef það er ekki gott þá eru þetta ekki lokin
(All things will be good in the end - if it isn´t good, then it isn´t the end)

Þetta geta því ekki verið lokin......hangi á því.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Gott hjá þér, sendu þetta til ÞKG. var með henni á fundi í gær og þetta var töluvert rætt.
hún er fegin að fá skoðanir sem flestra í þessu máli.
og þú kemmst vel að orði.

tölvupóstur hennar er thkg@althingi.is

mamms

12. nóvember 2004 kl. 13:09  
Anonymous Nafnlaus said...

Alltaf gaman að lesa skrifin þín kæra samstarfskona, þú kemst svo vel að orði. Ef þú, sem ég lít á sem eina af hæfustu kennurum okkar, ert að hugsa þér til hreyfings, hverjir verða þá eftir? Leiðbeinendur í öllum störfum! Keep on going
Kv. Silla

12. nóvember 2004 kl. 15:15  
Blogger Silfá said...

Búin að senda henni línu, eða öllu heldur línur. Var ákaflega kurteis, þó ég segi sjálf frá.:)
Takk fyrir hlýleg og hvetjandi orð Silla mín... You keep on going 2!

12. nóvember 2004 kl. 17:49  

Skrifa ummæli

<< Home