fimmtudagur, desember 30, 2004

Uppgjör

Nú er árið næstum á enda og til siðs að líta yfir farinn veg og rifja upp það sem hæst stóð upp úr hjá mér og mínum á þessu herrans ári 2004.


Hér er semsagt minn
-Topp 5 listi-
1) Ólympíuleikarnir - við heimasætan brugðum okkur nefnilega á leikana að þessu sinni. Hún hafði unnið teiknisamkeppni hér heima á vegum Visa og Ólympíusambandsins og verðlaunin voru þau að dvelja í eina viku í Aþenu og fylgjast með leikunum. Þessi ferð var og er ógleymanleg.
2) Urður litla frænka mín fæddist þann 11. febrúar.
3) Við fengum okkur yndilegan kött sem heitir Skuggi og hefur verið hinn mesti gleðigjafi.
4) Kallinn minn (þessi fjörtíuogþriggja) varð bæði íslands og deildarmeistari í brids þetta árið.
5) Ég og samstarfskona mín fengum hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir verkefnið okkar um einstaklingsmiðað nám og þróunarstyrk að auki.


Auðvitað gæti ég talið upp fleiri ánægjulega atburði en læt þetta nægja í bili. Allt í allt hefur árið verið mér og mínum gott og gjöfult. En það hafa líka verið nokkrir neikvæðir punktar í tilverunni. Hér koma þeir.
-Botn 5 listi-
1) Flóðið mikla sem skall á þann 26. 12 og varð yfir 100.000 manns að bana hlýtur að teljast hrikalegasti atburður ársins þó hann hafi ekki snert mig og mína persónulega þá hefur svona atburður óhjákvæmilega áhrif á alla.
2) Verkfallið. Þarf ekki að hafa um það mörg orð, þeir sem hafa áhuga geta lesið um þennan viðburð hér í dagbókinni.
3) Gengi íslenska handboltalandsliðsins á OL. Við erum mikið handboltaáhugafólk og tökum þessa hluti afar nærri okkur.
4) Ódugnaður í líkamsrækt. Hef alls ekki sinnt heilsunni á þessu ári. Verð að bæta úr þessu á því næsta og grafa upp sundbolinn og fara að synda á ný.
5) Olíuverðssamráðið ógurlega. Við eins og allir aðrir Íslendingar höfum þurft að borga meira fyrir bensínið en við hefðum átt að gera.

þriðjudagur, desember 28, 2004

Vill einhver...

.....elska fjörtíu og þriggja ára gamlan mann, velmeðfarinn og vænan, sem á afmæli í dag??

Okey ókey....veit ég lofaði þessu fyrir rúmum fjórtán árum og stend enn við það :-)

Til lukku með daginn elsku "strákurinn" minn.
Það verða svo einhverjar veitingar á boðstólnum fyrir þá sem hætta sér í heimsókn í dag.

sunnudagur, desember 26, 2004

Ótrúlegt....

..... en satt. Þá er fyrsta veisluhrinan að baki og afmæli eiginmannsins og áramótin í sjónmáli. Ég lifði af veislustjórnina og ótrúlegt nokk þá klúðraði ég engu. Á aðfangadagskvöld bauð ég mömmsu og Kallanum hennar í mat og eldaði hamborgarahrygg. Verð að segja að mér tókst bara ótrúlega vel upp. Leið á tímabili eins og ég væri tengdamóðuir mín að elda því þetta lék svo í hondum mér :-) Kannski erfitt að eyðileggja jafnmikið úrvals hráefni og þennan hrygg sem fenginn var frá Kidda frænda. Gjafir fjölskyldunnar voru miklar og ótrúlega góðar. Ég fékk eins og venjulega bestu gjafirnar. Það segir amk. mitt fólk. Í gær fórum við svo í árlegt jólaboð hjá tengdó og kíktum líka við hjá mömmsu í smáheimsókn. Þetta er alltaf ljúft og ótrúlega gaman og ómissandi að hitta fólkið sitt á jólunum. Í dag tókum við því svo bara verulega rólega eins og svo margir. Skrapp samt með heimasætunni og þeim sjö ára á hina ótrúlega skemmtilegu mynd "The Incredibles" (Hin ótrúlegu). Þetta er tilvalin mynd til að fara á með fjölskyldunni. Mæli eindregið með henni.

Fengum líka fullt af ótrúlega frábærum jólakortum, þrátt fyrir að ég hafi ekki sent eins mörg kort út þetta árið og venjulega. Ákvað nefnilega að reyna að nota netið meira þetta árið. Finnst það samt ekki eins gaman og því ætla ég að hverfa aftur til fortíðar á næsta ári og senda öllum gamaldags handskrifuð kort. Í öllu falli þá vil ég þakka öllum þeim sem sendu okkur "alvöru" kort ástsamlega fyrir. Án ykkar hefði ekki verið eins gaman að "lesa upp" á aðfangadagsvöld.

föstudagur, desember 24, 2004


Gleðilega mjá-tíð. Megi friður og fögnuður fylgja ykkur öllum.  Posted by Hello

miðvikudagur, desember 22, 2004

Verðandi veislustjóri

Þá er aftur byrjað að snjóa og útlit fyrir hvít jól eins og veðurfræðingar spá fyrir um. Sit hér og velti því fyrir mér hvað ég eigi eftir að gera fyrir þorláksmessu. Verð helst að vera búin að því helsta þá, því að ég verð í fimmtugsafmæli á því kvöldi. Var meira að segja beðin um að vera veislustjóri í kvæminu. Nei, það er eiginlega ekki rétt að segja að ég hafi verið beðin um það. Öllu heldur var mér sagt að ég hefði verið valin til þess. Hef að vísu aldrei komið nálægt slíkri stjórn, en eins og einhver sagði: "Einhvern tímann verður allt fyrst". Verð bara að passa mig á að reyna ekki að vera fyndin, því ég hef komist að því að afar fáir hafa smekk fyrir því sem mér finnst skoplegt. Viðbrögð fjölskyldumeðlima minna í gegnum tíðina hafa sannfært mig um það. Samt fara þau alltaf að hlæja, eftir að þau eru búina að baula einum munni "Ööönnudjóóók" ..skrýtið? Altjént verður þetta án efa áhugaverð reynsla.

mánudagur, desember 20, 2004

Tóm stund

Kvaddi krílin mín í morgun eftir velheppnað jólaball. Fór svo heim til að hjúkra heimasætunni sem var komin með andstyggilega gubbupest og hita. Fór aftur upp í skóla, kláraði að fara yfir alla heimavinnuna, svo ég ætti ekkert eftir þegar við byrjum aftur. Fór með jólakortin á pósthúsið. Skar jólakortin niður um helming um þessi jól og sendi hinum bara kveðju á netinu. Maður verður að nota tæknina. Skilaði bókum á bókasafnið og fór svo aftur heim til hjúkrunarstarfa. Tók svo aðeins til, pakkaði inn nokkrum jólagjöfum, pantaði klippingu og kjötið í hátíðarmatinn. Eftir þetta varð ég allt í einu alveg tóm og mundi ekkert eftir því hvað ég ætlaði að gera næst, svo ég settist bara niður við tölvuna og páraði eitt ljóð. Kannski er þetta það sem fólk kallar tóm stund.
Tiltekt

Það er á svona dögum
sem ég hef svo
óskaplega lítið að segja.

Hendur mínar enn angandi
af salmíaksskotinni sítrónulykt.
Skúringaminningin
sveimandi um í bakinu.
Hálsinn þurr
af uppburstuðu ryki.

Og loðin tungan fylgist
áhugalaus með
hugsunum mínum
í líki
Ajax stormsveips
reyna að taka sig til.

laugardagur, desember 18, 2004

Duglega ég

Í dag var ég sko dugleg. Ég tók allt eldhúsið í gegn, henti gömlum og útrunnum vörum og dagblöðum, þreif skápa, borð og gluggakistur og skúraði gólfið á eftir. Svo tók ég líka til í sjónvarpsherberginu, setti í þvottavél og skúraði og skrúbbaði allt baðherbergið. Þessar tilfæringar þýða bara eitt. - Ferð í Endurvinnsluna á morgun. Svo bakaði ég smákökur, gaf liðinu hamborgara að borða og fór svo í Smáralind og verslaði nokkrar jólagjafir. Þegar ég kom heim skrifaði ég helminginn af jólakortunum og leysti umb. helminginn af sunnudagskrossgátunni. Ákvað svo að kíkja aðeins í tölvuna og blogga svolítið. Þetta var sem sagt hinn undalegasti dagur.

Jólahangiketsátið upp í skóla tókst að venju vel. Maturinn var góður og félagsskapurinn enn betri. Skólastýran okkar reið á vaðið og söng frumortan texta við undirleik deildastjóra yngra stigs. Skemmtileg uppákoma hjá þeim stöllum. Aðal-ræðukona kvöldins var svo hún Guðrún og mæltist henni afar vel. Var bæði fyndin og fundvís á umræðuefni. Veitt voru hin árlegu Bjartsýnisverðlaun Borgaskóla og hlutu þær Kristín leikfimiskennari og Eiríka trúnaðarmaður þau verðlaun...og voru vel að komnar. Bryndís flutti okkur svo afar hnyttnar og skemmtilegar vísur um jóla-andana 13 og naut stuðnings einnar "ljós-móður" við flutninginn. Að lokum var svo hulunni, af því hver ætti hvaða álf, lyft. Ég vissi minn..og hann vissi um mig, svo þetta var lítið leyndarmál fyrir okkur, en það var gaman að sjá hver hafði haft hvern og heyra um vísbendingarnar sem fólk hafði fengið.

föstudagur, desember 17, 2004

Álfavíxl

Komst að því í dag að leynivinur minn sem ég hef verið að pukrast utan í síðustu daga með gotti og glysi, er einnig búinn að vera að pukrast í kringum mig með viðlíka gjörningi. Talandi um tilviljanir. Er á leiðinni í jólahangiketið upp í skóla, er bara svo nýtin á tímann á meðan ég bíð eftir að renni í baðið að ég ætla ða blogga fáeinar línur.
Síðustu daga hafa bókstaflega flogið áfram og ég hvergi nærri búin að kaupa allar jólagjafirnar, ekki hafið mig í neina jólahreingerningu, ekkert byrjuð að skreyta, jólakortin enn í startholunum og það sem er allra best þá er ég ekkert sértaklega stressuð yfir þessu öllu saman. Jólin koma.....þegar þau koma. En mikið verður gott að komast í "frí" og geta gert allt þetta sem ég á eftir að gera.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Álfaljóska

Hinn árlegi álfaleikur byrjaði í dag. Ég fékk agalega fínt kerti frá mínum álfavini og ég gaf mínum vini gómsæta gjöf. Segi ekki meir...svo ekki komist upp um mig. Verð að halda vel á spöðunum til þess að finna út hver er minn álfur fyrir föstudagshangiketið. Það myndi náttúrulega ganga betur ef maður fengi einhverjar vísbendingar. Auglýsi eftir svoleiðis...

Annars var dagurinn bara verulega fínn kennslulega séð og nemendur áhugasamir og skemmtilegir. Það kom eitt gott komment frá einum kýrskýrum í íslenskutíma í morgun sem ég ætla að deila með ykkur. Við vorum að ræða um "jákvæð" og "neikvæð" orð. Hér er um að ræða orð sem eru í eðli sínu jákvæð en geta orðið neikvæð sé öðru orði bætt við það. Dæmi: sól er jákvætt orð en sé orðinu bruni bætt við verður það neikvætt orð -sólbruni. Krakki er sömuleiðis jákvætt orð en ef bætt er við orðinu ormur verður til neikvætt orð. Krakkarnir voru svolítið að leika sér með þetta þegar ein stelpan segir: "En orðið ljós er hægt að gera það neikvætt?" Það kom smá umhugsun í bekknum en þá læddi einn lítill út úr sér "jú, það er hægt....ljóska." Okkur fannst þetta bara brilliant - en ykkur?


mánudagur, desember 13, 2004


Listrænn Skuggi Posted by Hello

sunnudagur, desember 12, 2004

Í skóinn

Það er með naumindum að maður kemst til að blogga eitthvað. Hef setið yfir eldri unglingnum um helgina og lesið með honum sögu. Námsefnið litlar 300 og eitthvað síður og spannar yfir ca 40.000 ára tímabil. Saga var aldrei mín sterkasta hlið svo að þetta var verulega fín "upprifjun" fyrir mig. Vonandi nær minn maður þessu prófi.....svo við þurfum ekki að eyða meiri tíma í þetta torf.

Stekkjastaur kom sl. nótt og nú er von á Giljagaur. Var að ræða við þann 7 ára áðan um verðmæti skógjafa. Hann hafði nefnilega sett fram mjög dýran óskalista og fannst að jólasveininum myndi nú ekki muna um að smella einum 2000 króna Yu-gi-oh pakka í skóræfilinn fyrir sig - af því að hann væri svoooo góður. Þegar ég sagði við hann að jólasveinarnir hefðu nú kannski ekki efni á svona löguðu, þá kom minn af fjöllum - þurftu jólsveinarnir virkilega að kaupa gjafirnar? Hvar fengu þeir eiginlega pening? Var Grýla ekki alveg örugglega dauð? Þetta urðu nokkuð langar og heimspekilegar umræður og ég er ekki viss um að ég hafi alltaf svarað "rétt"...en að minnska kosti ætlar hann ekki að gera svona miklar kröfur til skógjafa jólasveinanna í framtíðinni.

Set eitt gamalt og "gott" ljóð hér með. Var ort í fyrra og var fyrsta ljóðið mitt sem var valið ljóð dagsins á ljod.is

Brot

horfði á mig
með augun full af
síld

glitrandi silfur
hafsins
fullfermi

syndir viljalaust
í net næturinnar

silfurfiskur
á svartri
ermi

föstudagur, desember 10, 2004

......

Átti hinn ljúfasta afmælisdag á miðvikudaginn. Yndislegir nemendur komu ásamt foreldrum í stíl í fyrsta foreldraviðtal vetrarins. Í stuttu máli þá gekk þetta allt svo vel og þægilega fyrir sig að dagurinn var liðinn á örskotsstund. Þegar heim kom beið mín gjöf og heimatilbúinn kveðskapur frá bóndanum. Ekki dónalegt að fá vísu - kona komin á minn aldur. Um kvöldið kíktu svo mágkonur mínar og Sunneva Skuggaskelfir, mammsa, Kalli, unglingarnir tveir og vinkonur mínar í heimsókn. Takk fyrir að koma og kíkja á mig og sömuleiðis til þeirra sem hringdu og köstuðu á mig afmæliskveðju.

Þó það standi ekki yfir námsmat eins og venjulega á þessum tíma árs hjá okkur, þá er feykinóg að gera. Skólasveinarnir halda okkur við efnið með daglegum "heimsóknum". Í gær kom feitlagin sveinka sem heitir Matarstúfa með lítið stærðfræðiverkefni og í dag kemur tvíburabróðir hennar Saumastúfur. Sveinarnir og sveinkurnar eru að vakna til lífsins á veggjunum í stofunni okkar og að auki fær hver og einn/ein sitt einkagæludýr sem er sérvalið fyrir viðkomandi.

Það var til umræðu á þingi í dag hversu ókurteisir þingmennirnir væru orðnir í þingsölunum. Dónaleg frammíköll og umburðaleysi virðist einkenna margan þingmanninn. Held að þetta sé bara enn eitt merkið um agaleysi samfélagsins. Kannski er þetta líka íslenska skólakerfinu að kenna? Hver veit.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Eitt ár enn í sarpinn

Á morgun þegar ég vakna, verð ég orðin árinu eldri. Vonandi verð ég líka vitrari og betri, en það er kannski til of mikils mælst þegar komið er á minn aldur:-) Það er því við hæfi að óska móður minni til hamingju með daginn, þar sem tilvera mín (og minna barna) er öll henni að þakka. Takk mammsa mín! - án þín væri ég ekki til.

Ætla eyða afmælisdeginum í foreldraviðtöl. Ekki svo slæmt. Þar sem þetta er fyrsta foreldraviðtal vetrarins, þá er þetta um leið fyrsta almennilega tækifærið sem ég hef haft til þess að kynnast foreldrum nemenda minna. Hlakka bara til.

Um kvöldið ætla ég að skella í sossem eina köku til að eiga ef einhverjir skemmtilegir ákveða að kíkja á gamalmennið. En óttist eigi.......tengdamamma sendi mér líka þessar fínu smákökur sem ég get gripið til ef baksturinn mistekst eitthvað hjá mér.

mánudagur, desember 06, 2004

Orðskrípi

Er orðin svo tæknilega sinnuð að ég leyfi 9 ára nemendum mínum að senda mér "ritgerðir" í tölvpósti. Átti ekki von á því að margir myndu nýta sér þetta kostaboð en þessar elskur eru alltaf að koma mér á óvart. Í dag "kom" svo til okkar hin snaggaralega skólasveinka sem ber hið glæsileg nafn - Lipra. Á morgun kemur svo hann Einkunnasníkir, sveinn sem kann sko að "meta" hlutina og vill vita hvar hann stendur á skalanum 1-10.


"Gerðardómsflóttasamningurinn" alræmdi var samþykktur í dag með 51% atkvæða. Finnst ykkur þett ekki langt og skemmtilegt orðskrípi? (Annars finnst mér orðið orðskrípi óttalegt orðskrípi. Sannalega orð sem segir sig sjálft.) Það var að vitað að þetta yrði naumt í hvora áttina sem færi. Svo túlka menn niðurstöðurnar hver með sínum hætti. Kannski má segja að það jákvæða sem kom út úr þessu ferli var það að við seldum ekkert í þetta sinn til þess að ná frá auknum tekjum. Ég held að baráttan sé ekki búin. Þetta er einungis "tæmát" (eins og þeir segja í körfunni) til þess að endurskipuleggja og móta nýja og áhrifaríkari taktík.


laugardagur, desember 04, 2004

Veik á svellinu

Vaknaði í morgun klukkan 7:30 og brunaði upp í Egilshöll til þess að fylgjast með 4 nemendum mínum þreyta frumraun sína í listdansi á skautum. Þið haldið kannski að ég geri þetta alltaf en svo er nú reyndar ekki, sem betur fer - þá væri ég bara í þessu, (þar sem bekkurinn minn er einstaklega íþróttalega sinnaður). Nei, ég svaraði bara spontant sakleysislegri spurningu í vikunni sem hljóðaði eitthvað á þessa leið: "Viltu koma og sjá okkur keppa í fyrsta sinn á laugardaginn?". Og ég sagði bara í stundarbrjálæði - ég er nefnilega svolítið veik á svellinu þegar kemur að svona einlægum bónum. "Já, það væri gaman." Auðvitað gerði ég mér enga grein fyrir því að keppnin yrði haldin á svona ókristilegum tíma, en loforð er loforð og mér fannst ég ekki geta svikið þær með þetta. Bónusinn var svo að þetta var bara stórgaman og "stelpurnar mínar"stóðu sig alveg eins og hetjur. Skautuðu allt prórammið sitt án þess að detta og hlutu að launum lófaklapp og aðdáun sinna nánustu og hinnar stoltu kennslukonu sem hefði ekki getað verið montnari (er þá mikið sagt).


Um hádegið mætti svo eldri unglingurinn í undirbúning fyrir íslenskuprófið á mánudag. Það voru þrír góðir klukkutímar sem fóru í það og svo er áætlað að halda áfram á morgun. Svo hjálpaði ég heimasætunni aðeins með kjörbókarskýrslu sem hún á að skila eftir helgi úr bókinni Riddarar hringstigans eftir Einar Má. Lagði á mig að lesa þetta meistarverk aftur til þess að geta rætt við hana um söguna. Yndisleg saga sem ætti að vera skyldulesning á nokkurra ára fresti. Kom mér ekki á óvart að hún skyldi líka hrífast af bókinni. Eins og sést á þessari hrútleiðinleg færslu. þá virkar þetta eins og ég sé ennþá í vinnunni þó það sé helgi. Verð að gera eitthvað í þessu...... Ætla að sofa út á morgun.


fimmtudagur, desember 02, 2004

Af jólastússi

Bloggleti mín, (sem má glöggt merkja á síminnkandi færslum), stafar einkum og sér í lagi af miklu annríki þessa dagana. Auk almenns skólanáms, erum við að setja okkur í "jólagírinn" með öllu því sem því stússi fylgir. Jólaföndur, álfaleikur starfsfólks, skreytingar á stofum, jólakortagerð, jólasöngur og margt fleira. Þetta er gaman en heilmikið puð, eins og þeir vita sem reynt hafa.

Skólasveinkan Húsvarðahrella sendi nemendum bréf í dag og vakti hún mikla lukku. Húsvörðurinn okkar tók góðfúslega þátt í "leiknum" og birtist með bréfið frá henni "ævarreiður" í dag. Á morgun kemur svo hinn værukæri Letilúði. Ég hef þess vegna setið í kvöld og dundað við að búa til söngtexta um hann til að syngja á morgun....en nú hef ég smitast af þessum lúða og segi bara "Æi, ég nenni ekki að skrifa meira - er farin að lúlla!".

miðvikudagur, desember 01, 2004

Skólasveinar..og sveinkur

Í morgun skreiddist upp úr kjallara Borgaskóla splúnkunýr gaur. Hann heitir Bókastúfur Keppsson og er einn af 12 systkinum sem nemendur okkar hafa diktað upp. Þetta eru sem sagt skólasveinarnir og sveinkurnar tólf (við erum nefnilega svo jafnréttislega sinnuð). Bókastúfur sendi nemendum langt og "lúðalegt" bréf með litlu verkefni. þetta vakti almenna kátínu hjá krökkunum sem kepptust við að búa til Skólasveinabók fyrir Bókastúf. Næstu 11 skóladaga munu hin systkinin mæta á svæðið og gauka að krökkunum ýmsu smálegu. Þetta verður örugglega ágæt upphitun fyrir hina gamaldags jólasveina. Á morgun kemur svo hin eiturhressa sveinka sem ber nafnið Húsvarðarhrella. Það eru óneitanlega spennandi tímar í væntum.