laugardagur, desember 04, 2004

Veik á svellinu

Vaknaði í morgun klukkan 7:30 og brunaði upp í Egilshöll til þess að fylgjast með 4 nemendum mínum þreyta frumraun sína í listdansi á skautum. Þið haldið kannski að ég geri þetta alltaf en svo er nú reyndar ekki, sem betur fer - þá væri ég bara í þessu, (þar sem bekkurinn minn er einstaklega íþróttalega sinnaður). Nei, ég svaraði bara spontant sakleysislegri spurningu í vikunni sem hljóðaði eitthvað á þessa leið: "Viltu koma og sjá okkur keppa í fyrsta sinn á laugardaginn?". Og ég sagði bara í stundarbrjálæði - ég er nefnilega svolítið veik á svellinu þegar kemur að svona einlægum bónum. "Já, það væri gaman." Auðvitað gerði ég mér enga grein fyrir því að keppnin yrði haldin á svona ókristilegum tíma, en loforð er loforð og mér fannst ég ekki geta svikið þær með þetta. Bónusinn var svo að þetta var bara stórgaman og "stelpurnar mínar"stóðu sig alveg eins og hetjur. Skautuðu allt prórammið sitt án þess að detta og hlutu að launum lófaklapp og aðdáun sinna nánustu og hinnar stoltu kennslukonu sem hefði ekki getað verið montnari (er þá mikið sagt).


Um hádegið mætti svo eldri unglingurinn í undirbúning fyrir íslenskuprófið á mánudag. Það voru þrír góðir klukkutímar sem fóru í það og svo er áætlað að halda áfram á morgun. Svo hjálpaði ég heimasætunni aðeins með kjörbókarskýrslu sem hún á að skila eftir helgi úr bókinni Riddarar hringstigans eftir Einar Má. Lagði á mig að lesa þetta meistarverk aftur til þess að geta rætt við hana um söguna. Yndisleg saga sem ætti að vera skyldulesning á nokkurra ára fresti. Kom mér ekki á óvart að hún skyldi líka hrífast af bókinni. Eins og sést á þessari hrútleiðinleg færslu. þá virkar þetta eins og ég sé ennþá í vinnunni þó það sé helgi. Verð að gera eitthvað í þessu...... Ætla að sofa út á morgun.


1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Áfram Anna Þóra.
Það er sama þótt veröldin snúist á haus, það breytir þér ekki.
ÁÍ

5. desember 2004 kl. 23:26  

Skrifa ummæli

<< Home