Tóm stund
Kvaddi krílin mín í morgun eftir velheppnað jólaball. Fór svo heim til að hjúkra heimasætunni sem var komin með andstyggilega gubbupest og hita. Fór aftur upp í skóla, kláraði að fara yfir alla heimavinnuna, svo ég ætti ekkert eftir þegar við byrjum aftur. Fór með jólakortin á pósthúsið. Skar jólakortin niður um helming um þessi jól og sendi hinum bara kveðju á netinu. Maður verður að nota tæknina. Skilaði bókum á bókasafnið og fór svo aftur heim til hjúkrunarstarfa. Tók svo aðeins til, pakkaði inn nokkrum jólagjöfum, pantaði klippingu og kjötið í hátíðarmatinn. Eftir þetta varð ég allt í einu alveg tóm og mundi ekkert eftir því hvað ég ætlaði að gera næst, svo ég settist bara niður við tölvuna og páraði eitt ljóð. Kannski er þetta það sem fólk kallar tóm stund.
Tiltekt
Það er á svona dögum
sem ég hef svo
óskaplega lítið að segja.
Hendur mínar enn angandi
af salmíaksskotinni sítrónulykt.
Skúringaminningin
sveimandi um í bakinu.
Hálsinn þurr
af uppburstuðu ryki.
Og loðin tungan fylgist
áhugalaus með
hugsunum mínum
í líki
Ajax stormsveips
reyna að taka sig til.
Það er á svona dögum
sem ég hef svo
óskaplega lítið að segja.
Hendur mínar enn angandi
af salmíaksskotinni sítrónulykt.
Skúringaminningin
sveimandi um í bakinu.
Hálsinn þurr
af uppburstuðu ryki.
Og loðin tungan fylgist
áhugalaus með
hugsunum mínum
í líki
Ajax stormsveips
reyna að taka sig til.

0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home