sunnudagur, janúar 30, 2005

Sundsími

Heimasætan var að keppa í handbolta í dag. Kannski ekki í frásögur færandi, en þar sem hún var að keppa í eldri aldursflokki var nokkur stærðar (og þyngdar) munur á henni og hinum stelpunum, munur sem var henni alls ekki hagstæður. Nú til að gera langa sögu styttri þá gripu andstæðingarnir til þess ráðs að beita mjög svo bolalegum brögðum til að stöðva hana. Þær hrintu henni, toguðu í hana og hengu í treyjunni hennar og það sem meira er þá fengu þær að gera þetta tiltölulega átölulítið. Að endingum tókst einni þeirra að ná góðu höfuðhöggsbragði sem kostaði það að heimasætan varð að vera utan vallar með ís við hnakkann í 20 mínútur. Hún var ekki hress og það var ég ekki heldur. Finnst nefnilega alltof mikil harka leyfð í yngri flokkunum. Það sem verra er þó að þessir ungu leikmenn eru beinlínis hvattir (bæði að þjálfurum og foreldrum) til að sýna hörku og ósvífni í leik sínum. Gæti alveg trúað að margir efnilegir leikmenn hrökklist úr íþróttinni vegna þessa.
Og eins og það væri ekki nóg fyrir dömuna að meiða sig þá tókst móður hennar síðar um daginn að setja heittelskaða gsm- símann hennar í þvott með íþróttadótinu hennar og líklega eyðileggja hann. Símar eiga að þola svoleiðis sundferðir - finnst mér. Hef samt grun um að þessi hafi ekki gert það. Sem sagt- ekki góður dagur - alls ekki.
Skrapp í gær í nýju sundhöllina okkar í Laugardalnum til þess að horfa á alþjóðamót Ægis. En aðallega fór ég til að sjá laugina og fylgjast með Theresu Alshammer stinga sér til sunds. Þetta var hin besta skemmtun. Laugin er algjört æði og ég ætla alveg örugglega að skella mér þangað einn daginn og svamla svolítið. Ekki sveik það heldur að berja sunddrottninguna augum og sjá gamla "nemendur" láta ljós sitt skína á sundbrautunum. Það var sannalega tími til kominn að íslenskt keppnissundfólk fengi almennilega aðstöðu til æfinga og keppni. Og nú er hún komin.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Sérkjör?

Held ég sé að verða paranojsk með aldrinum. Alla vega þá er ég ekkert svakalega spennt fyrir þessum sérsamningshugmyndum Sjálandskóla. Nú á sem sagt að gera þá byltingarkenndu tilraun að ráða fólk inn í skólann með sama vinnutímaramma og aðrar háskólamenntaðar stéttir. Nánar til tekið frá kl. 8 til 17. (Mér finnst hér ýjað að því undir rós að kennarar vinni ekki jafnmikið og aðrar stéttir og það sé ástæðan fyrir lágum launum). Á þessum 9 klukkustunda vinnutíma skal inna af hendi alla kennslu (óskilgreindur tímafjöldi?), undirbúning fyrir kennslu, foreldrasamtarf, endurmenntun plús annað sem til fellur. Svo er skylda að taka þá forfallkennslu sem til fellur sem og önnur tilfallandi störf. Hvað á að borga fyrir þetta kemur ekki alveg fram en víst á það að verða eitthvað hærra en við hin óbreytt fáum. Ég myndi amk. vilja vita hversu mikill kennslutímafjöldinn væri, hvort ég væri alltaf skyldug til að taka forfallakennslu án aukagreiðslu, hvað ætti að gera(borga) ef vinnan færi út fyrir þennan ramma ofl.
Ég bara trúi því ekki (dæmi um hvað ég er orðin tortryggin) að þetta sé bara kjarabót fyrir kennarana. Sveitafélagið hlýtur að sjá einhvern gróða í þessu og eitthvað segir mér að það verði þeir sem græði mest þegar upp er staðið. Kannski er hér kominn vísir að Kárahnjúka- kennaralaunum". Hver veit nema fljótlega verða kannski fluttir inn "ódýrir" kínverskir kennarar sem taka að sér kennslu í skólum á sérkjörum.

sunnudagur, janúar 23, 2005

Til útlanda...?

"Það er alveg bannað að skila manni til útlanda" sagði yngsti sonur minn við mig eitt sinn. Fyrst datt mér í hug að hann væri svona bráðþroska að hann hefði orðið áhuga á málefnum nýbúa og ættleiddra barna en komst flótlega að hann meinti auðvitað að bannað væri að skilja einhvern útundan. Fannst þetta bara krúttlega fyndið fyrst en við nánari umhugsun þá hefur mér farið að finnast lítill merkingarmunur á þessum setningum. Hvað finnst ykkur? Systursynir mínir þeir Úlfur og Krummi gistu hjá mér á föstudagskvöldið. Það var virkilega gaman að hafa þá og erfitt að hugsa til þess að þeir séu á leið alla leið til Jamaíku til að eiga þar heima næstu árin. Föðurfólk Krumma á heima þarna og það verður örugglega gaman fyrir þau og hann að fá að kynnast. Og það er með söknuði í hjarta sem ég kveð þessar elskur......segi bara eins og sonurinn "það er alveg bannað að skila manni til útlanda" ...og komið fljótt aftur. Heil og sæl.

Fylgdist með "Strákunum okkar" vinna á ævintýranlegan hátt upp 9 marka forskort Tékka áðan í beinni útsendingu. Þetta gefur þeim vonandi byr undir báða vængi og það er víst að maður bíður spenntur eftir leiknum á þriðjudag.

föstudagur, janúar 21, 2005

Misþyrming okkar ástkæra ylhýra máls

Fór yfir nokkur hressandi málfræðipróf í dag og var bara nokkuð ánægð með mitt fólk. Sat svo á kennarastofunni og hlustaði á unglingadeildarkennarana fara yfir próf hjá 9. bekk í sömu grein. Tók eftir furðu þeirra yfir því að unglingarnir svöruðu flestir því til að rétt væri að segja "þeir fóru til Akureyrarins" og einnig " þær fóru til Hveragerðar". Fékk mig til að velta því fyrir mér hvort almenn málkennd væri á hröðu undanhaldi. Einnig virtust fáir kunna nefnifallsbeyginguna með sögninni að hlakka. Ég veit að á öllum þessum atriðum er hamrað ár eftir ár í kennslunni og því hlýtur það að vera svekkjandi þegar þarna er komið í skólagöngunni að ekki skuli sjást meiri "árangur" af íslenskukennslunni. Þegar ég lít til baka og rifja upp mína eigin skólagöngu þá man ég ekki eftir neinni eiginlegri móðurmálskennslu fyrr en í Réttó. Þetta var samt alltaf mitt besta fag í skóla. Bæði í unglingadeild grunnskóla og í menntaskóla. Það er kannski hrokafullt að segja það...en svona villur hefði maður a.m.k. aldrei gert.

Fylgdist með Ædolinu í kvöld, eins og fleiri. Við höldum með Heiðu á mínu heimili. Finnst hún vera stjörnuefni. Fékk svo skemmtilegt símtal frá vinkonu minni í Ameríkunni. Hún ætlar að skella sér á klakann á næstunni og spila á bridshátíð. Það verður gaman að hitta hana aftur. Orðið allt of langt síðan síðast.

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Á sundi og fundi

Hlustaði á ákaflega fróðlegan fyrirlestur um Aspergerheileinkenni í dag eftir að kennslu lauk. Einn nemandi hjá okkur var að greinast og við kennararnir fengum smá innsýn inn í heim fólks sem er á einhverfu-rófinu. Hefði bara viljað fá að heyra meira.

Fór í kvöld og synti í fyrsta skipti síðan í nóvember. Vonandi fer ég nú að verða duglegri að reka sjálfa mig af stað. Það er nefnilega svoleiðis að það er erfiðast að koma sér á staðinn. Svo er ekkert mál að svamla kílómeter í rólegheitum og láta sér svo líða vel á eftir. Grafarvogslaugin er líka alveg sérstaklega frábær til sundiðkunar...ef þið hafið ekki vitað það. Þeir sem koma einu sinni- koma alltaf aftur.

sunnudagur, janúar 16, 2005

Púsl

Hef verið á kafi í púsli. Ég og sá sjö ára fengum okkur 1000 stykkja púsluspil og höfum verið að dunda okkur vð að raða því saman hér á stofuborðinu. Það er alveg ótrúlegt hversu róandi áhrif svona dund getur haft á mann. Sleit mig frá spilinu í smástund í morgun til þess að fara með heimasætunni í messu og fermingarundirbúningsfund í kirkjunni. Að öðru leyti hef ég haldið mig að mestu leyti heima fyrir - enda býður veðrið ekki upp á neitt annað og búið til ævintýralega mynd, bit bæ bit með mikilli þolinmæði og litgreiningu.

Annars byrjaði ég helgina á því að fara í Fímervu - saumó á föstudagskvöldið. Við stöllurnar úr ÍKÍ sem útskrifuðumst frá Laugarvatni 1986 höfum haldið hópinn síðan þá og hist einu sinni í mánuði hjá hvor annarri. Þetta eru alltaf skemmtilegir "fundir" og margt spjallað. Að þessu sinni var okkur ofarlega í huga þessi skilnaða og framhjáhaldabylgja sem virðist ganga yfir okkar aldurshóp. Fiðringurinn grái virðist einkum hrjá fertuga karlmennina og mikið um hræringar í samböndum. Svo virðist sem fólk á okkar aldri (búið að koma sér vel fyrir, börnin farin að stálpast osfrv.) vakni allt í einu upp við vondan draum og finnst það hafa misst af einhverju í lífinu, eigi eftir að lifa alvöru lífi eða finnst það eigi skilið eitthvað meira. Kannski er það þessi krafa um að þú eigir að vera svo ofsalega hamingjusamur sem er að naga fólk. En hvað veit ég....
Samdi einu sinni texta við lag sem maðurinn minn gerði, sem hafði þetta viðlag:

Hamingjan er huldumey
fæstir hana sjá.
Hamingjan er hulin þér
fyrr en eftir á.
Held að fólk sjái oft eftir á, að grasið hinum megin er ekki alltaf ( reyndar sjaldnast) grænna.

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Allt er vænt sem vel er.....

Tengdapabbi átti afmæli í gær. Skruppum í afmælismat til hans. Það var ákaflega notalegt. Fengum hangikjet og allt tilheyrandi með því. Þegar við komum heim settist ég niður og fór yfir töluvert af heimavinnu nemenda. Sá 7 ára átti eftir að ljúka við söguna sína og settist hjá mér. Yngri unglingurinn þurfti líka að stúdera sögu svo hann tyllti sér hjá okkur. Heimasætan sem átti eftir að læra undir eðlisfræðipróf og slóst svo í hópinn við stofuborðið. Þessi sjón var svo fögur að kallinn minn þurfti að hafa orð á því og sagði að nú vantaði bara eldri unglinginn til þess að fullkomna verkið. En þá þyrfti hann auðvitað að taka mynd af fyrirbrigðinu því annars myndi enginn trúa honum.

Meira af afmælum, hún Eyja amma mín hefði orðið 87 ára í dag ef hún væri enn á lífi. Sendi henni knús og koss í huganu...og á þráðum netsins. Kannski er það tilviljun en þessi tvö, amma og tengdapabbi eru án efa gallhörðustu Framsóknarmenn sem ég hef nokkru sinni þekkt.

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Janúardofi

Er eitthvað svo dofin og annarshugar í dag. Veit ekki hvers vegna. Kannski af því að brátt fara ákaflega annasamir tímar í hönd með prófum og undirbúningi fyrir þau. Kenndi gamla bekknum mínum einn tíma í dag í forföllum. Það var mjög skemmtilegt og þau tóku voða vel á móti mér.
Einum nemanda mínum varð skemmtilega fótaskortur á tungunni í dag þegar hann (var reyndar hún:-) spurði í miðjum tíma í dag: Heyrðu, er ekki ufsilon dýr í í-inu? Henni fannst þetta sjálfri ákaflega fyndið og hló mikið. Annars eru nemendurnir mínir búnir að vera yndislega skemmtilegir og fantaduglegir þessar fyrstu vikur eftir jólafrí. Fór í gær og hélt fyrirlestur fyrir deildastjóra um einstaklingsmiðaða skipulagið okkar í Borgaskóla. Held það hafi gengið alveg skammlaust. Fór í matartímanum mínum og var alveg á nippinu með það að koma á réttum tíma til baka.
Heimasætan á að fermast nú í vor og ég hef verið alveg ferlega dofin yfir þessum merkisviðburði. Er þó búin að redda sal og kokki. Þurfum að fara að huga að fatakaupum, klippingu og hárlitun ofl. Svo þarf auðvitað að ákveða hvort og hvar á að taka ljósmyndir af viðburðinum. Segi bara eins og sannur Íslendingur "Ææi, þetta reddast allt saman....einhvernveginn"

Betra er að hafa skipulag á ruglinu - en rugl á skipulaginu.

....þú með þessi gulu augu. Posted by Hello

sunnudagur, janúar 09, 2005

Jólin tekin niður

Ákaflega heimilisvæn helgi að baki. Enda hafði ég ákveðið fyrir löngu að láta kvefið sem hefur verið að angra mig þurrkast upp þessa helgi. Fór á föstudagskvöldið til pabba og Ingu í árlegt matarboð sem þau halda fyrir okkur systkinin. Það var að venju ákaflega notalegt og gott.
Á laugardag tók ég jólin niður og þreif hátt og lágt. Fann fallegt hangikjötslæri í ísskápnum sem hafði gleymst um hátíðirnar og sauð það fyrir heimilisfólkið í kvöldmat. Gott að trappa sig svona rólega niður og borða jólamatinn fram yfir nýárið. Sing Star - leikurinn hefur aldeilis slegið í gegn á mínu heimili. Hér sitja bæði háir og lágir með míkrófónana og þenja sig sem mest þeir mega en hafa ekkert í heimasætuna að gera sem skorar alltaf yfir 9000 stig í lagi og telst hið raunverulega Súperstar.

Kötturinn okkar hann Skuggi hefur nú eignast eina 4 vini hér í hverfinu. Þeir eins og aðrir unglingar vilja helst hittast þegar kvölda tekur og sjást þá gjarnan sitja saman í óreglulegum hring á bílaplaninu og sveifla skottum ótt og títt. Um hvað er verið að ræða er erfitt um að spá en ekki vildi okkar köttur inn þó yfir 10 stiga frost væri. Endaði með því að við mæðgur klæddum okkur í hlý útiföt og fórum og náðum í hann klukkan 1:30 um nótt. Þá tvístruðum við kisuvinahópnum sem skaust hver til síns heima (vonandi) og náðum með mikilli lagni að lokka Skuggann okkar inn. Hann hefur verið ákaflega úti-glaður um þessa helgi og sést þá oftar en ekki í fylgd með öðrum kisum. Við sem héldum að hann myndi róast svo við að vera geldur, það er greinilegt að hann væri löngu lagstur í kvennafar ef sú aðgerð hefði ekki verið gerð.

Tók eftir því í dag að ég á ljóð dagsins á http://ljod.is það er einmitt ljóðið hér að framan um skoska leigumorðingjann, og ekki nóg með það, þá virðist ég einnig hafa átt ljóð dagsins þann 22. des. en það fór alveg fram hjá mér í öllum jólaönnunum. Verð að fara að fylgjast betur með.

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Skoskur leigumorðingi?

Í
skúmaskoti hugans
þar sem hafmeyja
hugsana minna
syndir
áhyggjulaus
liggur veiðimaður
efans
vopnaður
skoti í myrkri.

miðvikudagur, janúar 05, 2005

Einelti og almenn leiðindi

Tók smá umræðu um einelti með bekknum mínum í dag. Í skólann höfðu borist bæklingar og plakat með yfirskriftinni "Stöðvum einelti". Byrjaði á því að spyrja 9 ára börnin hvort þau vissu hvað einelti væri? Jú, jú....þau þóttust nú vita það. Eftir nánari eftirgrennslan kom nú í ljós að hugmyndir þeirra um þetta voru svolítið handahófskenndar og sannast sagna fremur litlar. Seinna spurði ég hvort einhver í bekknum hefði lagt einhvern í einelti? Við það vildi enginn kannast en þegar ég spurði hvort einhver hefði verið lagður í einelti voru einir 7 nemendur sem réttu upp hönd. Þegar farið var ofan í þær frásögur kom í ljós að þau voru oft að lýsa einstökum atvikum sem þau höfðu upplifað. S.s.- bestu vinir höfðu hætt að vera bestu vinir og sökuðu hvorn annan um að hafa sýnt hinum einelti, strákur sem hafði tekið af einni stelpu húfu í frímínútum og kastað í hana snjóbolta, einhver hafði sagt eitthvað ljótt við einhvern í matartímanum, ein stelpa vildi ekki leyfa annari stelpu að koma inn til sín osfrv. Aðspurð upplýstu þau að þetta hefði kannski ekki gerst svo oft, en þetta væri samt einelti, það vissu þau fyrir víst. Svo var mikið rætt um einn ákveðinn dreng sem öll börnin virtust hafa lent í einhverjum neikvæðum samskiptum við. Sum börnin litu á þessi samskipti sem einelti af hálfu þessa drengs en önnur á hegðun hans sem almenn leiðindi eða að hann kynni ekki að vera með öðrum.
Eftir tímann velti ég þessum málum dálítið fyrir mér. Í fyrsta lagi finnst mér þessi aukna umræða í samfélaginu um einelti - sem er að sjálfsögðu þörf, hafa jafnvel búið til stærri hóp "fórnarlamba". Þá á ég við að fleiri upplifa sig sem fórnarlömb eineltis heldur en áður var, sennilega vegna þess að þeir eru upplýstari um verknaðinn. Aftur á móti hefur gerendum ekkert fjölgað svo undalega sem það kann að hljóma.
Í öðru lagi er einelti oft "illa" skilgreint. Þar á ég við að flesta neikvæða hegðun í samskiptum má með miklum vilja, nefnilega túlka sem einelti á einn eða annan hátt. En það sem skilur á milli eineltis og almennra leiðinda og vanþroska í samskiptum er að viðkomandi gerandi/gerendur leggjast allir á einhvern einn á síendurtekinn máta. Raunverulegt einelti er svívirðilegur glæpur en almenn leiðindi er eitthvað sem fólk verður að læra að takast á við sín á milli.
Það stakk mig nefnilega svolítið um daginn þegar einhver sagði "það er bara allt orðið einelti". Hmm..? Ef allt er orðið einelti höfum við þá ekki misst sjónar á því hvernig hægt er að koma í veg fyrir það og takast á við afleiðingar þess? Því það er orðið samgróið manneskjunni og samfélaginu í stað þess að vera sá smánarblettur sem það í raun er.
Mér finnst nefnilega að við verðum að fara afskaplega varlega með þetta orð og nota það þar sem við á en ekki hvert sinn sem einhver misklíð verður á milli fólks. Allt lífið byggist á samskiptum við aðra. Það er sko engin trygging fyrir því að allir komi alltaf fram við mann á þann hátt sem maður sjálfur kýs. Það er nokkuð sem maður getur ekki stjórnað með góðu móti en maður getur valið hvernig maður kemur sjálfur fram við aðra og þannig lagt sitt af mörkum til þess að gera lífið skemmtilegra og hamingjuríkara, bæði fyrir sjálfa sig og aðra. Segi bara eins og Kennedy forðum daga "Spurðu ekki hvað aðrir geta gert fyrir þig. Spurðu hvað þú getur gert fyrir aðra". (Hann talaði reyndar um þjóðfélagið en þjóðfélagið eru jú þeir sem í því búa). Einnig er gott að hafa í huga orð auðjöfursins Bill Gates þegar hann sagði: "Verið góð við "nördana" sem eru með ykkur í skóla. Það eru allar líkur á því að þeir verði yfirmenn ykkar í framtíðinni". Eða eins og systir mín skáldkonan sagði eitt sinn: Fólk fer í panik og tapar sér ef einhver er ekki hamingjusamur. Það er ekki búið að lofa okkur að þegar við fæðumst sé eitthvert garantí fyrir því að þetta líf verði eilíf sæla.

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Minn íþróttamaður ársins

Skrifaði langa kveflega grein hér í gær sem veraldarvefurinn ákvað að hleypa ekki í gegn. Var aðallega að agnúast út í kjör íþróttamanns ársins. Fannst freklega gengið framhjá sundkonunni snjöllu Kristínu Rós Hákobnardóttur sem hefur um árabil staðið fremst meðal jafningja í sinni íþrótt og vann m.a. til gullverðlauna á Ol í Aþenu í sumar. Þessi árangur hennar dugði í 4. sætið að þessu sinni. Það mætti því ætla að aðrir íslenskir íþróttamenn hefðu unnið betri afrek á árinu en þetta fyrst hún varð ekki ofar, en svo var ekki, nema ef 7.sæti á bogahesti, 5. sæti í stangarstökki og byrjunarliðssæti í ensku úrvalsdeildarliði teljist betri árangur. Ég get ekki samþykkt þann málflutning; að það sé eðlilegt í alla staði því að ófatlaðir íþróttamenn skori alltaf hærra en fatlaðir. Því þá að bera þá saman, ef það er alveg sama hversu góð afrek sá fatlaði vinnur þá á hann engan séns? Ég spyr því í einfeldni minni: Hvers konar afrek þarf Kristín Rós að vinna til að verða valin íþróttamaður íslands? Hún hefur sett fjölmörg heimsmet, orðið heimsmeistari og margfaldur Ólympíumeistari. (Þessu getur enginn íslenskur íþróttamaður státað af) Hún var valinn íþróttakona fatlaðra á heimsvísu í ár en við, þjóðin hennar, getum ekki sýnt henni þann sóma sem henni ber. Hef heyrt það í viðtölum mínum við fólk undanfarna daga að það eru margir sem eru sama sinnis og ég. Hvaða viðmið íþróttafréttamenn setja í þessu vali eru greinilega í besta falli ákaflega tilviljunarkennd. Jú, jú, Eiður Smári er hæfileikaríkur íþróttamaður og góðra gjalda verður sem slíkur en að mínu viti átti Kristín Rós skilið titilinn í ár og íþróttafréttamenn ættu að skammast sín fyrir að hafa hana ekki meðal tveggja efstu fyrst þeir gátu ekki hugsað sér að velja hana í fyrsta sæti. Þessi geðprúða og hugrakka sundkona er minn íþróttamaður ársins 2004.

laugardagur, janúar 01, 2005

Gleðilegt ár !

Þá er árið Tvöþúsundogfimm loksins lagt af stað í sitt 365 daga ferðalag. Eins og flestir ferðamenn leggur það af stað fullt vonar og tilhlökkunar. Það ætlar sko að sýna undangengnum árum hvernig á að fara í gegnum þessa daga með sem mestum glans. En eins og þau ár sem á undan hafa farið, hafa komist í raun um þá fara hlutir stundum úr böndum og ekki hægt aðkoma í veg fyrir allar hörmungar. Árið Tvöþúsundogfjögur, sem var mjög dramatískt ár, segir það örugglega sér til varnar að það hafi verið svo þreytt eftir róstursama stríðsmánuði að það hafi ekki gáð að sér í lok ferðarinnar og gleymt að setja fyrir lekann á þessu flóði sem grandaði lífi hundruðþúsunda. En kannski þarf svona atburði öðru hvoru til svo manneskan sjái raunverulega hvers virði mannslíf er. Hörmungar lengst út í heimi virðast nefnilega löngu hættar að snerta okkur, eru vart meira en sorglegar sögur í dagblöðum. En þegar þær teygja sig til okkar í gegnum landa okkar og aðra Skandinavíubúa finnum við til með þeim og fáum létt samviskubit yfir því að hafa það svona gott. Það er mín von að Tvöþúsundogfimm sé friðelskandi og sáttfúst ár. Ár sem verði fyrst til að tengja þjóðir heims vináttuböndum. Ár sem opni augu fólks fyrir því sem skiptir máli og hjálpi því til að sinna því. Ár sem verður nefnt: Ár kærleikans, vonarinnar og umburðalyndisins. Árið sem við lærum loksins að lifa lífinu.