laugardagur, janúar 01, 2005

Gleðilegt ár !

Þá er árið Tvöþúsundogfimm loksins lagt af stað í sitt 365 daga ferðalag. Eins og flestir ferðamenn leggur það af stað fullt vonar og tilhlökkunar. Það ætlar sko að sýna undangengnum árum hvernig á að fara í gegnum þessa daga með sem mestum glans. En eins og þau ár sem á undan hafa farið, hafa komist í raun um þá fara hlutir stundum úr böndum og ekki hægt aðkoma í veg fyrir allar hörmungar. Árið Tvöþúsundogfjögur, sem var mjög dramatískt ár, segir það örugglega sér til varnar að það hafi verið svo þreytt eftir róstursama stríðsmánuði að það hafi ekki gáð að sér í lok ferðarinnar og gleymt að setja fyrir lekann á þessu flóði sem grandaði lífi hundruðþúsunda. En kannski þarf svona atburði öðru hvoru til svo manneskan sjái raunverulega hvers virði mannslíf er. Hörmungar lengst út í heimi virðast nefnilega löngu hættar að snerta okkur, eru vart meira en sorglegar sögur í dagblöðum. En þegar þær teygja sig til okkar í gegnum landa okkar og aðra Skandinavíubúa finnum við til með þeim og fáum létt samviskubit yfir því að hafa það svona gott. Það er mín von að Tvöþúsundogfimm sé friðelskandi og sáttfúst ár. Ár sem verði fyrst til að tengja þjóðir heims vináttuböndum. Ár sem opni augu fólks fyrir því sem skiptir máli og hjálpi því til að sinna því. Ár sem verður nefnt: Ár kærleikans, vonarinnar og umburðalyndisins. Árið sem við lærum loksins að lifa lífinu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home