fimmtudagur, september 30, 2004


Fyrir framan Karphúsið í Borgatúni. Posted by Hello

Stéttarvitund fundin

Mætti ásamt öðrum verkfallslúðum fyrir framan Karphúsið í morgun. Tilgangurinn var að sýna samninganefndinni okkar stuðning í verki og blása á þær fullyrðingar að kröfur nefndarinnar væru úr takt við vilja kennara. Þegar klukkuna vantaði 5 mínútur í 9 voru mörg hundruð manns mætt á svæðið og stóðu þar í friðsamlegri samkennd. Samningarnefndarmönnum var klappað lof í lófa þegar þeir mættu á svæði og í fyrsta sinn á kennsluferlinum fannst mér eins og þessi stétt sem ég hef tilheyrt sl. 18 ár stæði saman sem ein heild.

"Í gegnum hvað kjallaglugga ætli Birgir Björn læðist" sagði seinheppin samstarfskona mín um leið og áðurnefndur Birgir Björn olbogaði sig í gegnum þvöguna og stóð beint fyrri aftan hana þegar þessi orð féllu. Okkur fannst þetta fyndið, þeas. öllum nema henni. Þegar nemendur og kennarar Kennaraháskóla Íslands, vopnaðir kröfuspjöldum, bættust svo í hópinn hlutu þeir að launum dynjandi lófatak. Gaman að sjá stuðning kennaranema í verki, enda stendur þessi barátta þeim nærri. Þetta er það launaumhverfi sem þeir koma út í að loknu námi. Haldnar voru nokkrar stuttar hvatningaræður og fólki þakkað fyrir stuðninginn.

Svo var haldið niður í Ráðhús Reykjavíkur. Þar sem allir eru í svo góðri gönguþjálfun var ákveðið að marsera niður Laugaveginn og taka hús á Þórólfi. Hann var því miður erlendis og fulltrúi hans líka, en við skildum eftir yfirlýsingu hjá "húsverðinum". "Farið að vinna aumingjarnir ykkar!" öskraði glaseygð kona með rauðþrútið nef um leið og hún slangraði með pylsu í annari hendi yfir Austurstrætið. "Fáðu þér pulsu ". svaraði einhver og fékk illskulegt glott frá kvinnunni að launum.

Svo var farið í breiðfylkingu í Menntamálaráðuneytið. Menntamálaráðherra var einnig stödd erlendis sem og aðstoðarmaður hennar. Þar skildum við líka eftir yfirlýsingu. Það er undarlegt til þess að hugsa að á meðan 4500 kennarar eru í verkfalli og 45000 nemendur sitja heima, þá skuli ráðamenn þessarar borgar og menntamála í landinu ekki vera meira umhugað um að leysa úr deilunni. Svo er talað um að kennarar séu alltaf í "fríi".


miðvikudagur, september 29, 2004

Raunaleg laun

Maður lifir ekki á laununum einum saman. -Sverrir Stormsker-

Fékk útborgað í dag 0 krónur. Með reikningskúnstum tókst þeim að láta mig komast hjá því að borga mörg þúsund krónur til baka. Það var bara dregið að ýmsum gjöldum sem ég hafði verið búin að borga, og svo átti ég svolitla forfallakennslu inni. Kannski fæ ég nokkrar krónur úr verkfallssjóðnum á næstu dögum. Þrú þúsund krónur á dag í 10 daga gera 30.000. Þessir "digru" sjóðir okkar kennara sem við höfum safnað í til þess að geta farið í notalegt "frí" tæmast hratt þrátt fyrir að naumt sé skammtað. Þetta veit launanefndin og ætlar að neyða kennara til þess að gefast upp og semja enn einu sinni af sér.

Fór í gönguferð með Borgaskólagellunum í morgun. Það var að venju upplífgandi. Svo var stefnan sett á Þjóðminjasafnið. Ákvað samt að fara ekki með. Var búin að frétta að fjölmargir verfallslúðar færu þangað í dag vegna þess að á miðvikudögum er ókeypis inn, svo þar verður án efa þröngt á þingi.

Nóg í bili. Ætla út að eyða "laununum" mínum. Læt fljóta hér með litla vísu sem ég gerð einu sinni um útborguð laun mín mánaðarmótin sep/okt 2004. Svona er ég nú "skyggn".

Núllið er lítið og lekkert
-ekkert hangir því í.
Ef bætir þú engu við ekkert
-ekkert verður af því.

PS. Ég samþykki engar,(þá meina ég engar) prósentuhækkanir á útborguð laun mín um þessi mánaðarmót.

þriðjudagur, september 28, 2004

Þriðjudagsþref

Það sem við viljum sjá er barn sem leitar þekkingar en ekki þekkingu í leit að barni. -Georg Bernhard Shaw-

Eftir að hafa skellt mér í langa og hressandi gönguferð með Rimaliðinu í morgun, helltum við mæðgur okkur í tiltekt á neðri hæðinni. Að henni lokinni skrapp ég niður í verkfallsmiðstöð og fékk mér kaffi með vinkonu minni sem er kennari, en vinnur nú á Námsgagnastofnun. Sú á ákaflega erfitt með að slíta sig frá stéttinni og segist vera meðvirk í verkfalli. Þarna sátum við og hlýddum á Þorstein fjalla um frétt af síðu sveitarfélaganna þar sem var fullyrt var að laun yngri kennara myndu ekki hækka meira eldri en í þessum samningum, eins og stefnt hafði verið að. Forsendurnar sem þeir gáfu sér voru alrangar og ekki sambærilegar. Þeir báru saman laun ungs kennara sem kennir 28 tíma á viku og 60 ára kennara sem kennir sama tímafjölda. Í útreikningum gáfu þeir þeim sextuga semsagt 9 yfirvinnustundir í hverri viku. Það hefur löngum verið sagt að það sé hægt að ljúga öllu með tölum. Bara hagræða breytunum þannig að sú útkoma sem stefnt er að fáist. Samband íslenskra sveitafélaga er í áróðurstríði við kennara og velur að mistúlka/misskilja kröfugerðina á versta veg. Það er ljóst að þeir eru að nota nemendur grunnskólanna og okkur kennara sem þrýstihópa á ríkið svo að það láti meira fé af hendi til reksturs þeirra.

Þegar ég var að fara heim komu nokkrir galvaskir ungir menn inn á svæðið og fóru að spyrja kennara sem stóðu þarna spjörunum úr um starfið, kröfugerðina ofl. Þetta voru nemendur úr Menntaskólanum í Reykjavík sem höfðu greinilega áhuga á málefninu. Spurningarnar þeirra voru beinskeittar og virkilega vel ígrundaðar. Við reyndum að sjálfsögðu að svara þeim eftir bestu getu. Ef þetta er afrakstur íslenska menntakerfisins í hnotskurn getum við kennarar ekki annað en verið sátt, því viðkomandi nemendur sýndu, frumkvæði, voru kurteisir, og þeir hlustuðu á svörin sem þeir fengu og ályktuðu út frá þeim. Hvert svar kallaði að vísu á nýja spurningu en þeir fóru aldrei út í neitt karp eða árasir. Þeir hefðu sómt sér betur sem þáttastjórnendur í Karpljósinu heldur en margir fullorðnir bessenvisserar sem þar hafa verið í gegnum tíðina.

mánudagur, september 27, 2004

Blaður og bláber

Maðurinn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur. - Einar Benediktsson -

Var að koma úr hressandi gönguferð með öðrum verkfallslúðum. Við gengum í frábæru veðri meðfram golfvellinu og fjörunni og enduðum að lokum í glæsilegu kaffihlaðborði hjá frú Kristínu. Þar var glatt á hjalla og enda alltaf gaman þegar við komum saman. Þarna myndaðist sama skvaldrið og á kennarstofunni, ótrúlega þægilegt og maður fann söknuðinn smjúga um merg og bein. Stýrurnar okkar heiðruðu okkur með nærveru sinni, enda farnar að sakna okkar ískyggilega. Dagskrá komandi viku var ákveðin og er ætlunin að hittast á miðviku og föstudag og ganga, en svo ætla allir að mæta fyrir framan Karphúsið á fimmtudagsmorgun og sýna samninganefndinni okkar samstöðu.

Litli frændi minn gisti hjá mér í nótt. Hann er fæddur á aðfangadag en er ekkert sérlega sáttur við það. Ég var að spjalla við hann um daginn og sagðist líka eiga afmæli í desember eins og hann. Þá sagði hann : Ég á ekki afmæli í desember, ég á afmæli í bláber. Þessi mánuður hefur alveg farið fram hjá mér. Þarna er kannski kominn þrettándi mánuðurinn sem bankamenn fá laun fyrir.


sunnudagur, september 26, 2004

Verkfalls"væl"

Gott er að vera einn í biðröð; sagði Sverrir Stormsker um árið.

Maður hefur fengið að heyra það upp á síðkastið að það sé ekki hægt að borga okkur vel af því að við séum svo mörg. Aðrar stéttir séu í biðstöðu og ætli að taka mið af þeim samningum sem við fáum. Þetta sé ávísun á launaskrið og verðbólgu. Kennarar séu alltaf í fríi. Þetta sé svo gefandi starf að launin skipti engu máli. Það sé ekki hægt að hækka laun fyrr en hægt sé að árangurstengja þau. Svona mal og áróður hefur dunið í eyru okkar undanfarið og ljóst og leynt reynt að búa til sektarkennd hjá kennurum. Fjölmiðlar hafa flestir tekið þátt í því að grafa undan ímynd kennara, nema ef vera skildi Morgunblaðið, af öllum blöðum, sem hefur verið málefnalegt og jafnvel okkur hliðhollt. Ég legg til að einungis þeir sem einhverntímann hafa haft einhver afskipti af kennslu fái að semja um kaup okkar og kjör, og þá á ég líka við af hálfu sveitarfélaganna. Ég er líka fullviss um að ef sett verða á kennara lög og þeir látnir sæta boði launanefndarinar, þá verði fjöldauppsagnir. Kannski er það bara það sem þjóðin vill. Leiðbeinendur í öllum stöðum á lágum launum. Ódýrt og gott, enda geta víst allir kennt.


Af "alvöru" íþróttafólki

Hef verið að fylgjast aðeins með Ólympíleikum fatlaðra í Aþenu. Var sjálf þarna fyrir rúmum mánuði og fór á nokkra viðburði í boði Visa. Ógleymanlegt ævintýri, svo ekki sé meira sagt. En Ólympíuleika fatlaðra hef ég aðeins séð í samantekt sjónvarpsins. Þessir íþróttamenn vekja alltaf hjá mér djúpa aðdáun. Kjarkurinn, þrautsegjan og lífsgleðin sem skín úr hverju andliti er með ólíkindum. Ótrúlegustu afrek eru unnin og flest þeirra án nokkurra lyfja, eins svo algengt er í hinum harða heimi "alvöru" keppnisíþrótta. Sá einfættan mann stökkva 177 cm í hástökki og blinda knattspyrnumenn sparka bolta sem klingir í á milli sín. Handalaus kínverji sigraði í 200 m. fjórsundi og tilþrif keppenda sem bundnir eru við hjólastól í tennis og körfubolta voru lygileg. Og til þess að toppa allt þetta, þá eigum við Íslendingar frábært íþróttafólk sem hefur fyllt mig sigurgleði og stolti þessum leikum. Þrír íþróttamenn voru sendir og koma tveir þeirra heim með góðmálma og sá þriðji stóð sig einnig með sóma. Af öðrum ólöstuðum var það sundkonan Kristín Rós Hákonardóttir ,sem borið hefur höfuð og herðar yfir íslenska íþróttamenn úr röðum fatlaðra undanfarinn áratug, sem mér finnst mikið til koma. Vona ég að íþróttaforystan og þeir sem sjá um að velja íþróttamann ársins gangi ekki enn einu sinni fram hjá þessari miklu afrekskonu. Við íslendingar megum sannalega vera stolt af íþróttafólkinu okkar á þessum leikum. Skil ekki afhverju mörgum finnst þessir íþróttamenn eitthvað "minni íþróttamenn" en þeir sem ófatlaðir eru. Í mínum huga er það amk. talsvert meira afrek að hlaupa á einum fæti heldur en tveimur. Hvað finnst ykkur?

Byggingalist sem er engu lík. Akrópolis í ágúst 2004. Posted by Hello

laugardagur, september 25, 2004

Tilviljun eða grís

Treð
upplesnum
dagblöðunum
í gulan pokann.
Strýk
hugsandi
glansandi kviðinn.
Strýk
hugsandi
bleikan
glansandi kviðinn.


Kannski,er það
alls ekki
tilviljun
Bónusmerkið
er grís??

föstudagur, september 24, 2004

Rok í Reykjavík

Byrjaði daginn á því að fara í sund. Veðrið var þetta týpíska rok og rigning sinnum 2, en það aftraði ekki nokkrum hressum kennslukonum frá því að bleyta aðeins í sér. Aðallega var þó setið í heita pottinum og skrafað. Þeir örfáu sundlaugargestir sem við sáum á þessum rigningarmorgni komu til okkar og og ræddu stöðu mála og það notalegt að finna það að það eru, þrátt fyrir allt þó nokkrir sem standa með okkur í þessari baráttu. Fór svo og verslaði í nýjum og endurbættum Bónus. Fann að ég keypti miklu meira en venjulega í svona stórri búð. Finnst alltaf að ég þurfi að kaupa eitthvað úr hverri hillu. Ég ætti bara að versla í sjoppu. Eða í banka. :) Eftir hádegi skrapp ég niður í verkfallsmiðstöð og hitti vinkonu mína yfir kaffibolla og kökum. Þar voru eins og í gær fjöldi manns og var mikið talað. Gömul skólasystir mín, kom alveg hneyksluð til mín og spurði mig hvort ég hefði heyrt í einni sem útskrifaðist með okkur í sjónvarpinu um daginn. Hún hefði ekki getið hugsað sér að kenna á sínum tíma vegna launanna, en talaði nú fyrir hönd Heimilis og skóla um að kennarar hefðu fengið svo mikla kjarabót síðast að þeir þyrftu ekki að fara í hart núna. Okkur fannst að hún ætti öðrum fremur að hafa skilning á þessu og mér flaug í hug nokkuð sem Jascha Heifetz orðaði svo vel:


Það skiptir ekki máli hvoru megin borðs þú situr í deilumáli;
þú kemst alltaf að því að þú vildir óska þess
að einhverjir sem eru á sama máli og þú , væru hinum megin borðsins.


Fór svo með heimasætuna og þann 7 ára til tannlæknis. Sem betur fer þurfti lítið að gera en heimsóknin kostaði samt 18. 000 krónur. Tannlæknirnn hafði mikinn skilning á kröfum okkar kennara og sagðist ekki trúa því að nokkur vildi í alvörunni greiða háskólamenntaðri stétt minna en 250. 000 á mánuði. Þó börnin mín væru bæði undir 18 ára aldri og tryggingarstofnun tæki þátt í kostnaðinum, þá þurfti ég samt að punga út næstum 9000 krónum. Þannig að í dag eyddi ég miklu meiri peningum en ég aflaði. Eiginmaðurinn verður því að sjá um að rétta af hallann á komandi vikum, mánuðum??...... vonandi ekki , en finnskir kennarar fóru víst í 9 mánaða verkfall á sínum tíma og fengu heilmiklar kjarabætur. Vona að það þurfi ekki meðgöngutíma til að ná fram bættum kjörum í okkar deilu.


fimmtudagur, september 23, 2004

Verkfallsvarsla

Var verkfallsvörður í dag. Fór við þriðju konu í Valhúsarskóla og Mýrarhúsaskóla. Þar var afskaplega vel tekið á móti okkur af ljúfum en svolítið einmanalegum skólastjórum. Við stöllurnar gengum úr skugga um að þarna væri allt með felldu og enginn væri að vasast í okkar störfum. Nokkur börn voru í heilsdagsgæslunni en starfstúlkur þar sögðu að einungis 1/3 þeirra nemenda sem venjulega væru þarna, nýttu sér þjónustuna í verkfallinu. Nemendur sjálfagt flestir að læra að verða bankastjórar hjá Íslandsbanka eða heima hjá eldra systkini. Fórum svo upp í verkfallsmiðstöð. Þar var múgur og margmenni og fremur þungt hljóð í fólki eftir að ljóst var að deiluaðilar myndu ekki tala saman fyrr en eftir viku. Rosalega svekkjandi að staðan skuli vera þannig að viðsemjendur okkar skuli hafa hag af því að halda okkur í verkfalli. Sá sniðuga lausn á þessu í Fréttablaðinu í dag. Syndarverkföll (virtual strikes), kalla þeir það í Bandaríkjunum. Þá fær hvorugur deiluaðilinn þá fjarmuni sem "sparast" í verkfallinu , heldur renna þeir til einhverra góðgerðafélaga. Þetta myndi án efa stytta verkföll (og skapa jákvæðara viðhorf til, okkar kennaranna í samfélaginu).

Dálítið dáleiddur. Posted by Hello

miðvikudagur, september 22, 2004

Dáleiðsla

Yngri unglingurinn kom uppveðraður heim úr skólanum í dag. Dávaldur einn hafði heimsótt MS og hann hafði dottið í lukkupottinn og verið leiddur. Þetta hafði tekist þvílíkt vel og hann hafði frá mörgu að segja. Seinna um daginn fékk yngri unglingurinn svo símtal, þar sem frammistaða hans var sömuð og hann beðinn um að taka þátt í sýningu í Iðnó um kvöldið. Minn bauð bara stjúpunni góðu og eldri unglingnum með sér . Þetta reyndist síðan hin besta skemmtun. Alltaf gaman að sjá fólk gera sig að fíflum á saklausan hátt. Dávaldurinn sjálfur var mikill maður með dimma rödd. Greinilega æft lyftingar einhverntímann og tókst honum vel að transa liðið. Það er kannski spurning fyrir okkur að fá hann til að leiða samninganefnd sveitarfélaganna. Bara lítil hugmynd.

Morgunverkur

Svart skríður
myrkrið

upp í fang
haustmorgunsins

og sefur
úr sér.


Vakti til 4 í nótt. Horfði á mynd um mann sem sá drauga í hverju horni. Var frekar ósáttur við þennan hæfileika. Sætti sig svo að lokum við skyggnigáfuna og fór að hjálpa lögreglukonu að upplýsa morðmál. Horfði svo á Nágranna, vini mína frá Ástralíu. Er fljótari en unglingarnir að snúa deginum við, en aðeins í annan endann. Var vöknuð um 8 leytið og komin á fætur um 9. Hef verið að fylgjast með gangi mála á vef kennarfélags Reykjavíkur. Slóðin er http://www.kennarar.is/ fyrir áhugasama. Það er líka spjall, og í morgun las ég sérlega greindarlegt bréf frá foreldri. Hvet fólk til að kíkja á þessa síðu.

þriðjudagur, september 21, 2004


Prinsessan prúða Posted by Hello

Um orð

Við mæðginin vorum fengin til að passa ársgamla prinsessu í dag. Dagforeldrarnir veikir og raunforeldrarnir þurftu til vinnu. Svo hér sannast hið fornkveðna : Eins manns verkfall er annars manns pössun. Sú stutta var afskaplega skemmtileg og vafði okkur um fingur sér þrátt fyrir að orðaforðinn teldi aðeins 4 orð; mamma, pabba, tis (kisa) og datt. Fór að velta því fyrir mér hvort við þyrtum nokkuð á öllum þessum orðum að halda sem við notum. Það fór allavegana aldrei á milli mála hvað stutta sú vildi. Með bendingum og leikrænum tilburðum kom hún vilja sínum og skoðunum vel og skýrt á framfæri

Allt og sumt sem við þörfnust, til að komast af í lífinu , er fáfræði og sjálfstraust.
-Mark Twain-


Ég var reglulega fegin þegar ég las þetta.

Afmæli

Samkennari minn varð fimmtug í dag. Að því tilefni stormuðu ca. 50 kennarar og annað starfsfólk skólans í óvænta heimsókn til hennar í morgun. Með blöðrur, brauð, gos og stýrurnar ( þó ekki skólastýrurnar) í augunum sungum við fyrir hana afmælissönginn og eyddum svo góðri stund í að borða bakkelsið og spjalla. Umræðan snérist að sjálfsögðu heilmikið um verkfallið, eins og von var. Að auki ákváðum við að stofna gönguklúbb sem ætlar að hittast kl. 9:30 á hverjum morgni og ganga góðan spöl um hverfið. Enda fáir staðir sem bjóða upp á fegurri gönguleiðir en Grafarvogurinn sem liggur í skjóli Esjunnar með útsýni alla leið að Snæfellsjökli. Um að gera til að halda fólki "gangandi" á meðan á þessum leiðindum stendur. Svo mætum við bara hrikalega mjóar og fitt í kennsluna aftur.

Bláber fjöllin
liggja makindalega
og teygja úr sér í sólskininu
Veðruð vitni veraldarsögunnar.
Upplýsa ekkert
nema gengið sé á þau.


mánudagur, september 20, 2004


Skuggi hinn tónelski köttur fjölskyldunnar Posted by Hello

Í upphafi var orðið.......

Sit hér sveitt í verkfalli og ákvað að opna bloggsíðu til þess að stytta mér stundir og halda geðheilsunni. Stakk upp á því við nemendur mína að þeir skyldu skrifa dagbók á meðan verkfallinu stæði (ef ti þess kæmi). Hef ákveðið að fara að mínum eigin ráðum og þessvegna varð þessi síða til.
Vaknaði í morgun og kveikti eilítið vongóð á sjónvarpinu. Smá möguleiki á því að þeim hefði tekist að semja. Svo var ekki. Ljóst að sveitafélögin ætla að senda okkur í langt frí á meðan þau safna peningum til að borga launahækkanirnar sem síðar verða samþykktar. Vakti svo heimasætuna, sem var á leið í ferðalag með kirkjunni í Vatnaskóg. Sendi hana svo með kossi af stað og vakti þann 7 ára sem var heldur kátur með að vera í fríi. Enda voru ekki færri en 5 vinir í verkfalli mættir í Playstation tölvuna stuttu síðar. Er að velta því fyrir mér hvort þetta teljist verkfallsbrot. Reyndi bara að skipta mér sem minnst af þeim til að komast hjá slíkum aðdróttunum. Hringdi svo upp í skóla og fékk smá áfallahjálp. Snérist svo í kringum sjálfan mig, klappaði kettinum, tók til og fletti í gegnum internetið. Bjó til eitt ljóð.
Út um gluggann
hangir brot
af regnboga.

Litríkur
líkt og
loforð
þín.

Tek hann
niður
brýt saman
og sting
honum inní
hjarta mitt

óstraujuðum.

Um kvöldið skruppum við hjónin með þann 7 ára í heimsókn, enda hann kominn með óverdós af tölvuleikjum. Svona leið fæðingardagur þessarar bloggsíðu.