sunnudagur, september 26, 2004

Af "alvöru" íþróttafólki

Hef verið að fylgjast aðeins með Ólympíleikum fatlaðra í Aþenu. Var sjálf þarna fyrir rúmum mánuði og fór á nokkra viðburði í boði Visa. Ógleymanlegt ævintýri, svo ekki sé meira sagt. En Ólympíuleika fatlaðra hef ég aðeins séð í samantekt sjónvarpsins. Þessir íþróttamenn vekja alltaf hjá mér djúpa aðdáun. Kjarkurinn, þrautsegjan og lífsgleðin sem skín úr hverju andliti er með ólíkindum. Ótrúlegustu afrek eru unnin og flest þeirra án nokkurra lyfja, eins svo algengt er í hinum harða heimi "alvöru" keppnisíþrótta. Sá einfættan mann stökkva 177 cm í hástökki og blinda knattspyrnumenn sparka bolta sem klingir í á milli sín. Handalaus kínverji sigraði í 200 m. fjórsundi og tilþrif keppenda sem bundnir eru við hjólastól í tennis og körfubolta voru lygileg. Og til þess að toppa allt þetta, þá eigum við Íslendingar frábært íþróttafólk sem hefur fyllt mig sigurgleði og stolti þessum leikum. Þrír íþróttamenn voru sendir og koma tveir þeirra heim með góðmálma og sá þriðji stóð sig einnig með sóma. Af öðrum ólöstuðum var það sundkonan Kristín Rós Hákonardóttir ,sem borið hefur höfuð og herðar yfir íslenska íþróttamenn úr röðum fatlaðra undanfarinn áratug, sem mér finnst mikið til koma. Vona ég að íþróttaforystan og þeir sem sjá um að velja íþróttamann ársins gangi ekki enn einu sinni fram hjá þessari miklu afrekskonu. Við íslendingar megum sannalega vera stolt af íþróttafólkinu okkar á þessum leikum. Skil ekki afhverju mörgum finnst þessir íþróttamenn eitthvað "minni íþróttamenn" en þeir sem ófatlaðir eru. Í mínum huga er það amk. talsvert meira afrek að hlaupa á einum fæti heldur en tveimur. Hvað finnst ykkur?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home