mánudagur, september 20, 2004

Í upphafi var orðið.......

Sit hér sveitt í verkfalli og ákvað að opna bloggsíðu til þess að stytta mér stundir og halda geðheilsunni. Stakk upp á því við nemendur mína að þeir skyldu skrifa dagbók á meðan verkfallinu stæði (ef ti þess kæmi). Hef ákveðið að fara að mínum eigin ráðum og þessvegna varð þessi síða til.
Vaknaði í morgun og kveikti eilítið vongóð á sjónvarpinu. Smá möguleiki á því að þeim hefði tekist að semja. Svo var ekki. Ljóst að sveitafélögin ætla að senda okkur í langt frí á meðan þau safna peningum til að borga launahækkanirnar sem síðar verða samþykktar. Vakti svo heimasætuna, sem var á leið í ferðalag með kirkjunni í Vatnaskóg. Sendi hana svo með kossi af stað og vakti þann 7 ára sem var heldur kátur með að vera í fríi. Enda voru ekki færri en 5 vinir í verkfalli mættir í Playstation tölvuna stuttu síðar. Er að velta því fyrir mér hvort þetta teljist verkfallsbrot. Reyndi bara að skipta mér sem minnst af þeim til að komast hjá slíkum aðdróttunum. Hringdi svo upp í skóla og fékk smá áfallahjálp. Snérist svo í kringum sjálfan mig, klappaði kettinum, tók til og fletti í gegnum internetið. Bjó til eitt ljóð.
Út um gluggann
hangir brot
af regnboga.

Litríkur
líkt og
loforð
þín.

Tek hann
niður
brýt saman
og sting
honum inní
hjarta mitt

óstraujuðum.

Um kvöldið skruppum við hjónin með þann 7 ára í heimsókn, enda hann kominn með óverdós af tölvuleikjum. Svona leið fæðingardagur þessarar bloggsíðu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home