þriðjudagur, september 28, 2004

Þriðjudagsþref

Það sem við viljum sjá er barn sem leitar þekkingar en ekki þekkingu í leit að barni. -Georg Bernhard Shaw-

Eftir að hafa skellt mér í langa og hressandi gönguferð með Rimaliðinu í morgun, helltum við mæðgur okkur í tiltekt á neðri hæðinni. Að henni lokinni skrapp ég niður í verkfallsmiðstöð og fékk mér kaffi með vinkonu minni sem er kennari, en vinnur nú á Námsgagnastofnun. Sú á ákaflega erfitt með að slíta sig frá stéttinni og segist vera meðvirk í verkfalli. Þarna sátum við og hlýddum á Þorstein fjalla um frétt af síðu sveitarfélaganna þar sem var fullyrt var að laun yngri kennara myndu ekki hækka meira eldri en í þessum samningum, eins og stefnt hafði verið að. Forsendurnar sem þeir gáfu sér voru alrangar og ekki sambærilegar. Þeir báru saman laun ungs kennara sem kennir 28 tíma á viku og 60 ára kennara sem kennir sama tímafjölda. Í útreikningum gáfu þeir þeim sextuga semsagt 9 yfirvinnustundir í hverri viku. Það hefur löngum verið sagt að það sé hægt að ljúga öllu með tölum. Bara hagræða breytunum þannig að sú útkoma sem stefnt er að fáist. Samband íslenskra sveitafélaga er í áróðurstríði við kennara og velur að mistúlka/misskilja kröfugerðina á versta veg. Það er ljóst að þeir eru að nota nemendur grunnskólanna og okkur kennara sem þrýstihópa á ríkið svo að það láti meira fé af hendi til reksturs þeirra.

Þegar ég var að fara heim komu nokkrir galvaskir ungir menn inn á svæðið og fóru að spyrja kennara sem stóðu þarna spjörunum úr um starfið, kröfugerðina ofl. Þetta voru nemendur úr Menntaskólanum í Reykjavík sem höfðu greinilega áhuga á málefninu. Spurningarnar þeirra voru beinskeittar og virkilega vel ígrundaðar. Við reyndum að sjálfsögðu að svara þeim eftir bestu getu. Ef þetta er afrakstur íslenska menntakerfisins í hnotskurn getum við kennarar ekki annað en verið sátt, því viðkomandi nemendur sýndu, frumkvæði, voru kurteisir, og þeir hlustuðu á svörin sem þeir fengu og ályktuðu út frá þeim. Hvert svar kallaði að vísu á nýja spurningu en þeir fóru aldrei út í neitt karp eða árasir. Þeir hefðu sómt sér betur sem þáttastjórnendur í Karpljósinu heldur en margir fullorðnir bessenvisserar sem þar hafa verið í gegnum tíðina.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home