sunnudagur, september 26, 2004

Verkfalls"væl"

Gott er að vera einn í biðröð; sagði Sverrir Stormsker um árið.

Maður hefur fengið að heyra það upp á síðkastið að það sé ekki hægt að borga okkur vel af því að við séum svo mörg. Aðrar stéttir séu í biðstöðu og ætli að taka mið af þeim samningum sem við fáum. Þetta sé ávísun á launaskrið og verðbólgu. Kennarar séu alltaf í fríi. Þetta sé svo gefandi starf að launin skipti engu máli. Það sé ekki hægt að hækka laun fyrr en hægt sé að árangurstengja þau. Svona mal og áróður hefur dunið í eyru okkar undanfarið og ljóst og leynt reynt að búa til sektarkennd hjá kennurum. Fjölmiðlar hafa flestir tekið þátt í því að grafa undan ímynd kennara, nema ef vera skildi Morgunblaðið, af öllum blöðum, sem hefur verið málefnalegt og jafnvel okkur hliðhollt. Ég legg til að einungis þeir sem einhverntímann hafa haft einhver afskipti af kennslu fái að semja um kaup okkar og kjör, og þá á ég líka við af hálfu sveitarfélaganna. Ég er líka fullviss um að ef sett verða á kennara lög og þeir látnir sæta boði launanefndarinar, þá verði fjöldauppsagnir. Kannski er það bara það sem þjóðin vill. Leiðbeinendur í öllum stöðum á lágum launum. Ódýrt og gott, enda geta víst allir kennt.


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home