fimmtudagur, september 30, 2004

Stéttarvitund fundin

Mætti ásamt öðrum verkfallslúðum fyrir framan Karphúsið í morgun. Tilgangurinn var að sýna samninganefndinni okkar stuðning í verki og blása á þær fullyrðingar að kröfur nefndarinnar væru úr takt við vilja kennara. Þegar klukkuna vantaði 5 mínútur í 9 voru mörg hundruð manns mætt á svæðið og stóðu þar í friðsamlegri samkennd. Samningarnefndarmönnum var klappað lof í lófa þegar þeir mættu á svæði og í fyrsta sinn á kennsluferlinum fannst mér eins og þessi stétt sem ég hef tilheyrt sl. 18 ár stæði saman sem ein heild.

"Í gegnum hvað kjallaglugga ætli Birgir Björn læðist" sagði seinheppin samstarfskona mín um leið og áðurnefndur Birgir Björn olbogaði sig í gegnum þvöguna og stóð beint fyrri aftan hana þegar þessi orð féllu. Okkur fannst þetta fyndið, þeas. öllum nema henni. Þegar nemendur og kennarar Kennaraháskóla Íslands, vopnaðir kröfuspjöldum, bættust svo í hópinn hlutu þeir að launum dynjandi lófatak. Gaman að sjá stuðning kennaranema í verki, enda stendur þessi barátta þeim nærri. Þetta er það launaumhverfi sem þeir koma út í að loknu námi. Haldnar voru nokkrar stuttar hvatningaræður og fólki þakkað fyrir stuðninginn.

Svo var haldið niður í Ráðhús Reykjavíkur. Þar sem allir eru í svo góðri gönguþjálfun var ákveðið að marsera niður Laugaveginn og taka hús á Þórólfi. Hann var því miður erlendis og fulltrúi hans líka, en við skildum eftir yfirlýsingu hjá "húsverðinum". "Farið að vinna aumingjarnir ykkar!" öskraði glaseygð kona með rauðþrútið nef um leið og hún slangraði með pylsu í annari hendi yfir Austurstrætið. "Fáðu þér pulsu ". svaraði einhver og fékk illskulegt glott frá kvinnunni að launum.

Svo var farið í breiðfylkingu í Menntamálaráðuneytið. Menntamálaráðherra var einnig stödd erlendis sem og aðstoðarmaður hennar. Þar skildum við líka eftir yfirlýsingu. Það er undarlegt til þess að hugsa að á meðan 4500 kennarar eru í verkfalli og 45000 nemendur sitja heima, þá skuli ráðamenn þessarar borgar og menntamála í landinu ekki vera meira umhugað um að leysa úr deilunni. Svo er talað um að kennarar séu alltaf í "fríi".


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home