fimmtudagur, mars 31, 2005

Bremsuólán

Mikið rosalega var ég sátt við að byrja aftur að vinna. Held að ég sé þessi undarlega vinnutýpa.....bíð bara eftir að fríin klárist svo ég geti farið að gera eitthvað af viti. Eru þetta ekki einhver vinnualkaeinkenni? En ég er miklu skárri á sumrin. Þá finnst mér nefnilega gott að vera í fríi og læt mig marinerast í sundlaugunum dögum saman.
Það fóru að heyrast undarleg hljóð í bremsunum á fjölskyldubílnum einhverntímann fyrir páska, en maður hélt samt áfram að keyra hann þar til óhljóðin voru orðin ískyggilega urgandi. Nú, nú , til að gera lengri sögu styttri þá druslaðist ég loks með hann í viðgerð í gær og fékk þær "gleðilegu" fréttir að mér hefði tekist að eyðileggja bremsurnar alveg. Það kostaði svo rúmlega 50 þúsund kalla að lagfæra skemmdirnar....en ég fékk útborgað í dag svo ég átti fyrir því. Maður er nefnilega ekki eins og þessi "lán"-sama kynslóð sem verið var að tala um í sjónvarpinu. Hér er nefnilega allt greitt út í hönd, eða sparað fyrir því þar til það er hægt. Því það er jú jafnmikilvægt að hafa bremsur á eyðslunni og það er mikilvægt að hafa bremsur á bílnum. Ekki satt? Fór nett fínt í taugarnar á mér þegar talað var við einhvern karl í sjónvarpinu áðan, um það hvers vegna ungt fólk væri svona eyðslusamt og "lán"-glatt, að hann skyldi segja að ástæðan væri m.a. sú að skólarnir kenndu ungu fólki ekki að spara og að verðbólgukynslóðin, foreldrar þeirra, hefði heldur ekki gert það. Það var þetta með að skólarnir sinntu ekki þessu hlutverki sem fór í taugarnar á mér. Mér finnst nefnilega nóg komið af "efni" sem skólinn á að sjá um að uppfræða nemendur um. Skólinn á, auk almennra og hefðbundinna kennslugreina : að kenna þeim ýmislegt sem fólk lærði bara heima hjá sér í "gamla daga" s.s. á klukku, að reima skóna sína, einföldustu kurteisisreglur og borðsiði. Heyrði skondna sögu um daginn af konu einni sem varð að hætta við að fara með börnin sín út að borða einhverntímann í haust vegna þess að þau kunnu enga borðsiði. Til allrar óhamingju hafði ekki verið búið að fara yfir þetta "námsefni" áður en ólukkans verkfallið skall á. Því varð blessuð konan að sitja svöng heima með hinum "ótilsiðuðu" börnum sínum.

laugardagur, mars 26, 2005

Í fríi

Ussusssuss..hvað maður hefur verið latur að blogga! Talandi um að vera í fríi!? Hér hefur að vísu fátt markvert gerst. Hef þó eytt svolitlum tíma í að fylgjast með Íslandsmótinu í brids síðustu daga. Æsispennandi svo ekki sé meira sagt. Nú er nefnilega hægt að fylgjast með "live" á slóð Bridgebase-online hvar sem maður er staddur í heiminum hverju sinni. Þetta er alveg eitursnjallt og gerir áhugamönnum um þetta spil spilanna kleyft að horfa á öll helstu mót sem haldin eru hverju sinni.


Fylgdist líka með í beinni þegar Fisherinn mætti til landsins. Það getur vel verið að þessi maður sé einn besti skákmaður sem hafi verið uppi en mér finnst hann lítill fengur fyrir þjóðina. Maður sem úthúðar heilum kynþætti og er svo greinilega líka vænissjúkur, á best heima á einangruðum stað þar sem ekkert truflar hann. Mæli með einhverri rólegri eyju s.s. Surtsey. Svo getum við ekki einu sinni notað hann í skáklandsliðinu okkar...þannig að ekki gerir hann nokkurt gagn fyrir þjóðina. Held að Bandaríkjamenn séu guðslifandi fegnir að vera lausir við hann og munu ekki krefjast þess að fá hann aftur.


Sá leiðinlega hegðun hjá krakka um daginn. Þannig var að Skuggi , köttur heimilisins sat hér um daginn úti á stétt og sleikti vorsólina. Þá kemur á að giska 10 -11ára strákur hlaupandi niður eftir götunni á eftir bolta. Hann nær boltanum og á leiðinni til baka sér hann Skugga. Skuggi sat auðvitað bara rólegur, enda ekki vanur öðru en kjassi og blíðuhótum. Strákur gengur að honum , mundar boltann í skotstöðu og neglir honum leiftursnöggt í köttinn. Skuggi skaust auðvitað í burtu og faldi sig bak við næsta runna en strákur tók til fótanna þegar reið miðaldra "húsfrú" birtist í dyrunum og spurði hann all höstug um "hvað hann væri eiginlega að gera?" Hann þorði auðvitað ekki að horfast í augu við gjörðir sínar, né biðjast afsökunar á þeim. Ég verð að segja að ég bara skil ekki fólk sem gerir það að gamni sínu að meiða dýr.


föstudagur, mars 18, 2005

Á leið í páskafrí

Þá er þessi seinasta vinnuvika fyrir páska til enda runnin. Var svo þreytt fyrri hluta hennar að ég hefði getað sofnað standandi en var orðin eiturhress þegar líða tók að lokum og er næstum því ekki tilbúin til að fara í frí alveg strax. Það voru Brosandi ljóðadagar í skólanum mínu nú á fimmtudag og föstudag og þeir endurnærðu mig alveg á líkama og sál svo nú finn ég hvorki fyrir þreytu né sleni. Ætla meira að segja að mæta á mánudaginn í vinnuna og taka stofuna mína í páskahreingerningu, færa svolítið inn í stundvísi, skipuleggja ogguponsulítið, skila bókum á bókasafnið og fara svo með ákaflega góðri samvisku í páskafrí.

Var með fyrirlestur um einstaklingsmiðað nám fyrir kennara í Kársnesskóla á miðvikudag. Það var bara svo gaman. Ég fór á námskeið fyrir nokkrum árum um söguaðferðina (storyline) sem var einmitt haldið þarna og ég verð að segja að það vakti með mér ákaflega ánægjulega minningar að koma þarna aftur. Enda er ég ákafur aðdáandi þessarar kennsluaðferðar og Kársnesskóli er einmitt brautryðjandi í þessari aðferð hér á landi. Kennaraliðið var því ákaflega jákvætt og tók vel á móti skipulagshugmyndum mínum sem auðvitað innifólu í sér þeirra stefnu. Talandi um að eggið sé farið að "kenna" hænunni :-)


mánudagur, mars 14, 2005


Grænt og gott Posted by Hello

Læmgrænt og ljúft

Jæja...þá er ég loksins búin að koma heimasætunni í fullorðinna kvenna tölu. Gerði það að vísu ekki ein, eins og upphafssetningin gæti borið vitni um . Við mammasa eyddum öllum laugardeginum í að að standsetja salinn þar sem veislan átti að vera - læmgrænt var þema dagsins. Þegar líða tók á daginn kom tengdó og hjálpaði til við að setja saman ræs krispís kökuna, sem nóta bene varð alveg sérlega góð hjá okkur. Svo mætti mammsa eldsnemma á fermingardaginn sjálfan og greiddi nöfnu sinni þvílíkt glæsilega að stöllur heimasætunnar trúðu því ekki að hún hefði ekki eytt mörgum klukkustundum á fínni hárgreiðslustofu. "Er amma þín einhver tískuamma?" spurði ein yfir sig elísabet þegar hún heyrði um þetta. Svo var haldið í kirkjuna þar voru 26 ótrúlega englaleg ungmenni fermd í bak og fyrir. Að fermingu lokinni var haldið aftur upp í sal og lögð lokahönd á skreytinguna með dyggri aðstoð frá einni sérlega smekkvísri samstarfskonu minni. Um hálf fimm komu svo gestirnir og eftir tilheyrandi kossastand og kveðjur var sest að snæðingi. Lambalæri og fylltar kalkúnabringur með ítölsku yfirbragði voru uppistaða þess sem boðið var upp á. Maturinn var ótrúlega ljúffengur og kokkurinn geinilega kunnáttumaður á sínu sviði. Veislan fór svo að öllu leyti vel fram og voru allir kátir...mest heimasætan sem fór mun ríkari ( í bókstaflegri merkingu) heim eftir að hafa hjálpað til við tiltektina um kvöldið. Það var þreytt fjölskylda sem skreið í rúmið eftir viðburðarríkan dag.

Í dag vorum við aftur á móti fremur framlágar. Heimasætan fékk leyfi frá skóla en ég mætti auðvitað í mína vinnu og leið allan daginn eins og ég með hálfgerða þynnku...(drakk samt ekkert áfeng til þess að réttlæta það:-) En allt í það heila , þá var þetta ákaflega ánægjulegur dagur og alls erfiðisins virði.

Að lokum: Takk elsku mammsa, tengdó og þið öll hin sem aðstoðuðu okkur. Án ykkar hefði þetta ekki verið eins fallegt, skemmtilegt og auðvelt.

þriðjudagur, mars 08, 2005

Fönn, fönn, fönn

Ótrúlegt hvað þessi vika ætlar að vera mikið "fönn". Maður er að reyna að halda sér mjúkri og afstressaðri varðandi komandi fermingu og gengur bara býsna vel. Einhvern veginn hef ég það samt á tilfinningunni að ég sé að gleyma einhverju afar mikilvægu...og að ég uppgötvi það alls ekki fyrr en á sjálfan fermingardaginn. Fór í kvöld og bjó til ræs kríspís kransaköku með tengamömmu. Segið að maður sé ekki myndó :-)
Er á leiðinni á tónleika á morgun hjá Sinfóníuhljómsveitinni með skólanum mínum. Við eigum að æfa blessuð börnin í að syngja stuðlagið "Fönn,fönn, fönn" svo þau geti sungið það með Sinfó á tónleikunum. Krakkarnir eru allir að vilja gerðir og víða heyrðist sönglað á göngum í dag........ekta íslensk fönn.
Sá 7 ára er í lestrarátaki þessa vikurnar og les hverja heimalestrarbókina af fætur annarri og fær mislitar flugvélar að launum fyrir. Hann er staðráðinn í að sigra í þessari keppni þrátt fyrir að vera örugglega ekki sá hraðlæsasti í bekknum (fyrirfram). En hvort sem honum tekst ætlunarverkið eður ei, þá græðir hann alltaf á kappseminni.

föstudagur, mars 04, 2005

Fermingarfár

Það er hætt við að enginn komi til með að lesa þessa færslu , þar sem það er löngu sannað að síða sem er ekki upp færð reglulega hættir að fá heimsóknir. Ég játa það kinnroðalaust að ég hef verið alveg sérlega andlaus, framtakslítil, og of þreytt (maður er enn að jafna sig eftir kokkana) til þess að gefa mér tíma til þess að skrifa eitthvað greindarlegt á öldur netsins.

Svo er ég líka að undirbúa fermingu heimasætunnar. Er ekki mikil veislukona en vil samt að hún fái að upplifa smá prinsessudekur þennan dag. Ótrúlegt hve auðvelt er að eyða verulegum fjármunum í litla fjölskylduveislu....held samt að við séum ekkert svakalega dýr miðað við marga. Mér finnst reyndar að krakkar séu fullung þegar þau eru fermd, ættu að vera orðin sjálfráða og þá myndi tilkostnaður líka vera minni. Er ekki viss um að forvarnargildi fermingarinnar sé mikið og því lítil þörf á því að skella henni þarna á. Hefði reyndar sjálf viljað fermast síðar. Fermingarmyndin mín styður það sjónarmið. Hef sjaldan litið verr út á ævinni og svo var þessi óskapnaður gefinn öllum ættmennum mínum sem stilltu henni, mér til mikils ama upp á áberandi stað einhvers staðar í betri stofum. En allt um það , heimasætan er mun huggulegri heldur en móðir hennar var á þessum tíma gelgjunnar og kemur til með að líta miklu betur út á jólakortunum sem ég mun að sjálfsögðu senda vítt og breytt út um næstu jól.

Annars talandi um trú. Þessi umræða hefur verið svolítið áberandi í vikunni. Þeim sem trúa engu, eða eru fylgjandi öðrum trúarbrögðum en 85% þjóðarinnar, finnst nú brotið á rétti sínum vegna einhverrar klásúlu í lögum þar sem kveðið er á um eina þjóðtrú. Skil ekki þetta hæp. Trúin er persónuleg fyrir hvern og einn og engin nauðsyn að fólk trúi í einhverjum samþjöppuðum hópi. Trúi bara hver fyrir sig- það er best.

Hverju sem þú trúir
trúðu bara því
því að trúin, hún á heima
kolli þínum í.