Bremsuólán
| Mikið rosalega var ég sátt við að byrja aftur að vinna. Held að ég sé þessi undarlega vinnutýpa.....bíð bara eftir að fríin klárist svo ég geti farið að gera eitthvað af viti. Eru þetta ekki einhver vinnualkaeinkenni? En ég er miklu skárri á sumrin. Þá finnst mér nefnilega gott að vera í fríi og læt mig marinerast í sundlaugunum dögum saman. Það fóru að heyrast undarleg hljóð í bremsunum á fjölskyldubílnum einhverntímann fyrir páska, en maður hélt samt áfram að keyra hann þar til óhljóðin voru orðin ískyggilega urgandi. Nú, nú , til að gera lengri sögu styttri þá druslaðist ég loks með hann í viðgerð í gær og fékk þær "gleðilegu" fréttir að mér hefði tekist að eyðileggja bremsurnar alveg. Það kostaði svo rúmlega 50 þúsund kalla að lagfæra skemmdirnar....en ég fékk útborgað í dag svo ég átti fyrir því. Maður er nefnilega ekki eins og þessi "lán"-sama kynslóð sem verið var að tala um í sjónvarpinu. Hér er nefnilega allt greitt út í hönd, eða sparað fyrir því þar til það er hægt. Því það er jú jafnmikilvægt að hafa bremsur á eyðslunni og það er mikilvægt að hafa bremsur á bílnum. Ekki satt? Fór nett fínt í taugarnar á mér þegar talað var við einhvern karl í sjónvarpinu áðan, um það hvers vegna ungt fólk væri svona eyðslusamt og "lán"-glatt, að hann skyldi segja að ástæðan væri m.a. sú að skólarnir kenndu ungu fólki ekki að spara og að verðbólgukynslóðin, foreldrar þeirra, hefði heldur ekki gert það. Það var þetta með að skólarnir sinntu ekki þessu hlutverki sem fór í taugarnar á mér. Mér finnst nefnilega nóg komið af "efni" sem skólinn á að sjá um að uppfræða nemendur um. Skólinn á, auk almennra og hefðbundinna kennslugreina : að kenna þeim ýmislegt sem fólk lærði bara heima hjá sér í "gamla daga" s.s. á klukku, að reima skóna sína, einföldustu kurteisisreglur og borðsiði. Heyrði skondna sögu um daginn af konu einni sem varð að hætta við að fara með börnin sín út að borða einhverntímann í haust vegna þess að þau kunnu enga borðsiði. Til allrar óhamingju hafði ekki verið búið að fara yfir þetta "námsefni" áður en ólukkans verkfallið skall á. Því varð blessuð konan að sitja svöng heima með hinum "ótilsiðuðu" börnum sínum. |

1 Comments:
Ha..ha... Þetta var með þeim betri; þurfti hún virkilega að sitja svöng heima, af því kennararnir stóðu ekki sína plikt? ;-)
greyið ;-)
Skrifa ummæli
<< Home