Læmgrænt og ljúft
Jæja...þá er ég loksins búin að koma heimasætunni í fullorðinna kvenna tölu. Gerði það að vísu ekki ein, eins og upphafssetningin gæti borið vitni um . Við mammasa eyddum öllum laugardeginum í að að standsetja salinn þar sem veislan átti að vera - læmgrænt var þema dagsins. Þegar líða tók á daginn kom tengdó og hjálpaði til við að setja saman ræs krispís kökuna, sem nóta bene varð alveg sérlega góð hjá okkur. Svo mætti mammsa eldsnemma á fermingardaginn sjálfan og greiddi nöfnu sinni þvílíkt glæsilega að stöllur heimasætunnar trúðu því ekki að hún hefði ekki eytt mörgum klukkustundum á fínni hárgreiðslustofu. "Er amma þín einhver tískuamma?" spurði ein yfir sig elísabet þegar hún heyrði um þetta. Svo var haldið í kirkjuna þar voru 26 ótrúlega englaleg ungmenni fermd í bak og fyrir. Að fermingu lokinni var haldið aftur upp í sal og lögð lokahönd á skreytinguna með dyggri aðstoð frá einni sérlega smekkvísri samstarfskonu minni. Um hálf fimm komu svo gestirnir og eftir tilheyrandi kossastand og kveðjur var sest að snæðingi. Lambalæri og fylltar kalkúnabringur með ítölsku yfirbragði voru uppistaða þess sem boðið var upp á. Maturinn var ótrúlega ljúffengur og kokkurinn geinilega kunnáttumaður á sínu sviði. Veislan fór svo að öllu leyti vel fram og voru allir kátir...mest heimasætan sem fór mun ríkari ( í bókstaflegri merkingu) heim eftir að hafa hjálpað til við tiltektina um kvöldið. Það var þreytt fjölskylda sem skreið í rúmið eftir viðburðarríkan dag. Í dag vorum við aftur á móti fremur framlágar. Heimasætan fékk leyfi frá skóla en ég mætti auðvitað í mína vinnu og leið allan daginn eins og ég með hálfgerða þynnku...(drakk samt ekkert áfeng til þess að réttlæta það:-) En allt í það heila , þá var þetta ákaflega ánægjulegur dagur og alls erfiðisins virði. Að lokum: Takk elsku mammsa, tengdó og þið öll hin sem aðstoðuðu okkur. Án ykkar hefði þetta ekki verið eins fallegt, skemmtilegt og auðvelt. |

1 Comments:
Takk kærlega fyrir okkur. Þetta var snilldar veisla. Maturinn einstaklega ljúfengur. Heimsætan einstaklega fögur eins og alltaf.
kv.
ADH og co
Skrifa ummæli
<< Home