laugardagur, mars 26, 2005

Í fríi

Ussusssuss..hvað maður hefur verið latur að blogga! Talandi um að vera í fríi!? Hér hefur að vísu fátt markvert gerst. Hef þó eytt svolitlum tíma í að fylgjast með Íslandsmótinu í brids síðustu daga. Æsispennandi svo ekki sé meira sagt. Nú er nefnilega hægt að fylgjast með "live" á slóð Bridgebase-online hvar sem maður er staddur í heiminum hverju sinni. Þetta er alveg eitursnjallt og gerir áhugamönnum um þetta spil spilanna kleyft að horfa á öll helstu mót sem haldin eru hverju sinni.


Fylgdist líka með í beinni þegar Fisherinn mætti til landsins. Það getur vel verið að þessi maður sé einn besti skákmaður sem hafi verið uppi en mér finnst hann lítill fengur fyrir þjóðina. Maður sem úthúðar heilum kynþætti og er svo greinilega líka vænissjúkur, á best heima á einangruðum stað þar sem ekkert truflar hann. Mæli með einhverri rólegri eyju s.s. Surtsey. Svo getum við ekki einu sinni notað hann í skáklandsliðinu okkar...þannig að ekki gerir hann nokkurt gagn fyrir þjóðina. Held að Bandaríkjamenn séu guðslifandi fegnir að vera lausir við hann og munu ekki krefjast þess að fá hann aftur.


Sá leiðinlega hegðun hjá krakka um daginn. Þannig var að Skuggi , köttur heimilisins sat hér um daginn úti á stétt og sleikti vorsólina. Þá kemur á að giska 10 -11ára strákur hlaupandi niður eftir götunni á eftir bolta. Hann nær boltanum og á leiðinni til baka sér hann Skugga. Skuggi sat auðvitað bara rólegur, enda ekki vanur öðru en kjassi og blíðuhótum. Strákur gengur að honum , mundar boltann í skotstöðu og neglir honum leiftursnöggt í köttinn. Skuggi skaust auðvitað í burtu og faldi sig bak við næsta runna en strákur tók til fótanna þegar reið miðaldra "húsfrú" birtist í dyrunum og spurði hann all höstug um "hvað hann væri eiginlega að gera?" Hann þorði auðvitað ekki að horfast í augu við gjörðir sínar, né biðjast afsökunar á þeim. Ég verð að segja að ég bara skil ekki fólk sem gerir það að gamni sínu að meiða dýr.


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home