Fundir og aftur fundir
Já, já....veit það. Er ekkert smá léleg að uppfæra. Enda í annan stað ákaflega lítið að frétta og hins vegar svo mikið að gera ( í vinnunni, félagstarfi, fundum oþh.) að tími til bloggskrifa er allt of knappur. Fyrir áhugasama ( eða ekki) þá var ég á námskeiði um námsmat á mánudag (eftir kennslu), um kvöldið var svo fundur með foreldrum Fjölnisstúlkna. Á þriðjudag sat ég fund nefndar sem sér um Grafarvogsdaginn 2005. Sá fundur var í kjölfar almenns kennarafundar. Á miðvikudag tók ég á svo móti tilvonandi nemendum næsta vetrar í vorskólanum. Þegar ég leit yfir nafnalistann og skoðaði fjölbreytnina nafnaflórunni þá leit ég um leið yfir kennitölurnar. Alltaf gaman að skoða hvað stjörnumerki eru mest áberandi. Það sló mig svolítið þegar ég "fattaði" að þessi árgangur þ.e. 1999 módelið er síðasti árgangur tuttugustu aldarinnar sem hefur skólagöngu. En þau voru hvert öðru skemmtilegra svo ég lít með tilhlökkun til næsta vetrar. Í gær skellti ég mér svo alla leið til Hafnafjarðar á úrslitaleik Hauka og ÍBV í hanknattleik kvenna. Það var auðvitað bara gaman enda úrslitin mér að skapi. Það er mesta furða að manni skuli takast að klára að undirbúa kennsluna, fara yfir heimavinnu og sinna samskiptum við foreldra nemendanna. Það er kvöldvinnan heima við borðstofuborðið sem bjargar þessu fyrir horn. Við erum að fara að taka upp Olweus - eineltiskerfið. Örugglega ákaflega gott og þarft, en ég stend mig samt að því að hlusta á mitt innra tuð varðandi það hvort þetta beri jafn mikinn árangur og af er látið. Mér finnst nefnilega tölurnar um þá sem telja sig hafa orðið fyrir einelti ákaflega háar. Tölurnar um þá sem telja sig leggja aðra í einelti eru aftur á móti ákaflega lágar. (Hvernig sem á því stendur) Eftir að nemendur og starfsfólk skólans hefur verið frætt með markvissum hætti um hvað sé einelti, hvernig bregðast eigi við því osfrv. með löngum námskeiðum og fundum er aftur gerð könnun. Og viti menn. Tala þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir einelti lækkar töluvert. Þá er það spurningin. Lækkaði talan af því að það dró úr eineltinu (sem fáir telja sig beita) eða af því að nemendur gerðu sér betur grein fyrir því hvað fólst í orðinu einelti? Hmmm...? |


