föstudagur, apríl 29, 2005

Fundir og aftur fundir

Já, já....veit það. Er ekkert smá léleg að uppfæra. Enda í annan stað ákaflega lítið að frétta og hins vegar svo mikið að gera ( í vinnunni, félagstarfi, fundum oþh.) að tími til bloggskrifa er allt of knappur. Fyrir áhugasama ( eða ekki) þá var ég á námskeiði um námsmat á mánudag (eftir kennslu), um kvöldið var svo fundur með foreldrum Fjölnisstúlkna. Á þriðjudag sat ég fund nefndar sem sér um Grafarvogsdaginn 2005. Sá fundur var í kjölfar almenns kennarafundar. Á miðvikudag tók ég á svo móti tilvonandi nemendum næsta vetrar í vorskólanum. Þegar ég leit yfir nafnalistann og skoðaði fjölbreytnina nafnaflórunni þá leit ég um leið yfir kennitölurnar. Alltaf gaman að skoða hvað stjörnumerki eru mest áberandi. Það sló mig svolítið þegar ég "fattaði" að þessi árgangur þ.e. 1999 módelið er síðasti árgangur tuttugustu aldarinnar sem hefur skólagöngu. En þau voru hvert öðru skemmtilegra svo ég lít með tilhlökkun til næsta vetrar. Í gær skellti ég mér svo alla leið til Hafnafjarðar á úrslitaleik Hauka og ÍBV í hanknattleik kvenna. Það var auðvitað bara gaman enda úrslitin mér að skapi. Það er mesta furða að manni skuli takast að klára að undirbúa kennsluna, fara yfir heimavinnu og sinna samskiptum við foreldra nemendanna. Það er kvöldvinnan heima við borðstofuborðið sem bjargar þessu fyrir horn.

Við erum að fara að taka upp Olweus - eineltiskerfið. Örugglega ákaflega gott og þarft, en ég stend mig samt að því að hlusta á mitt innra tuð varðandi það hvort þetta beri jafn mikinn árangur og af er látið. Mér finnst nefnilega tölurnar um þá sem telja sig hafa orðið fyrir einelti ákaflega háar. Tölurnar um þá sem telja sig leggja aðra í einelti eru aftur á móti ákaflega lágar. (Hvernig sem á því stendur) Eftir að nemendur og starfsfólk skólans hefur verið frætt með markvissum hætti um hvað sé einelti, hvernig bregðast eigi við því osfrv. með löngum námskeiðum og fundum er aftur gerð könnun. Og viti menn. Tala þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir einelti lækkar töluvert. Þá er það spurningin. Lækkaði talan af því að það dró úr eineltinu (sem fáir telja sig beita) eða af því að nemendur gerðu sér betur grein fyrir því hvað fólst í orðinu einelti? Hmmm...?

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Gleðilegt Sumar!

Annasöm vika að baki. Vika sem fór að mestu leyti í undirbúning fyrir "trú og list"- sýninguna okkar í 4. bekk. Sýningin var svo í gær í "hátíðarsal Borgaskóla. Þar voru 17 velæfð atriði (dans, ljóðalestur, fróðleikur, leikrit) flutt við ómælda hrifningu aðstandenda þeirra sem sýndu. Að lokinni sýningu buðu nemendur svo sínu fólku upp í stofu þar sem þau sýndu afrakstur vetrarins og var gaman að sjá hversu stolt þau voru af vinnunni sinni og þá var ekki ekki síður gaman að sjá hve jákvæðir og áhugasamir foreldrar þeirra voru. Ég er að komast á þá skoðun að íslenskir foreldrar hljóti að vera í nokkurri framför...þ.e. ef tekið er mið að foreldrum 95´árgangsins.

En eins og það væri ekki nóg að standa í þessu stússi ....(þeir sem reynt hafa vita hvað ég á við) þá skrapp ég alla leið út á Seltjarnarnes á þriðjudaginn og hélt fyrirlestur um einstaklingsmiðaða skipulagið okkar fyrir kennara Valhúsaskóla og Mýrarhúsaskóla. Ætla að vona að þeir hafi haft jafngaman (og einnig gagn) að því að hlusta á mig og ég hafði af því að heimsækja þá.

Um kvöldið hentist ég svo aftur af stað á aðalfund Kennarafélags Reykjavíkur og kaus nýjan formann og 3 nýja meðlimi í stjórnina. Ég var nokkuð sátt við úrslit kosninganna, þó ekki hefðu allir sem ég kaus komist að.

laugardagur, apríl 16, 2005


Síðasta kvöldmáltíðin. Mosaíkmynd eftir 4. bekk. Posted by Hello

Tíminn líður....

Já, nú líða allar vikur óskaplega hratt. Við erum með svo margt á prjónunum í skólanum sem þarf að ljúka við áður en prófin byrja. Vikan sem leið fór í að klára að mestu leyti þemað um trú og list. Við gerðum í sameiningu stóra mynd af Síðustu kvöldmáltíðinni og festum á vegg í skólanum. Í næstu viku verður sýning á þemanu okkar og um leið ætla nemendur að bjóða foreldrum sínum að koma og skoða það sem þeir hafa verið að gera í skólanum í vetur. Spennandi að sjá hvernig til tekst.

Svo er ég að hugsa um að skella mér á aðalfund KFR og kjósa nýjan formann á þriðjudagskvöldið. Skora á alla kennara í Reykjavík að koma og hafa áhrif á hver kemur til með að vera í forsvari fyrir fjölmennustu kennarasamtök landsins.

Hver fattaði annars upp á þessu leiðindaveðri? Er samt að hugsa um að skella mér í sund.


miðvikudagur, apríl 06, 2005

Án ábyrgðar

Skrýtið....
hvernig
ábyrgð annarra
á okkur
virðist alltaf meiri
en ábyrgð okkar
á öðrum.


Æ... hvað ég er búin að vera eitthvað þreytt og úfinpútuleg þessa síðustu daga. Held að ég þoli svona haltu mér slepptu mér vorkomu illa. Allavegana, þá er gott að geta klínt ábyrgðinni á leti minni á veðrið.