Stelpuvika
Það er strákavika/stelpuvika hjá árgangum okkar þessa vikuna. Þess vegna fékk ég allar blómarósirnar til mín í dag og samstarfskvinnan mín alla blómálfana. Krakkarnir eru mjög spenntir enda alls óvön því að vera bara með sínu eigin kyni í tímum. Danskennarinn sagði að það hefðu verið afar virkir og öflugir strákar sem dönsuðu saman í danstímanum í dag og nú brá svo við að allir tóku þátt. Voru þessar hetjur þá kannski eftir allt saman feimnir við stelpurnar? "Við stelpurnar" byrjuðum á hugstormun um "Af hverju það er svo frábært að vera stelpa". Það voru alls kyns svör sem komu fram og ljóst að lítillætið þvælist ekkert fyrir þessum sjálfsöruggu stelpum. Stelpur voru m.a. að áliti þeirra sjálfra; skemmtilegar, gáfaðar, liðugar, hlýðnar, tískuguðir, stórskrýtnar, duglegar, fyndnar, blíðar og bara frábærar eins og þær eru. Strákarnir veltu þessum málum einnig fyrir sér í næstu stofu og örugglega fundið út margar skemmtilegar skýringar á því hvers vegna strákar séu svona frábærir....en það er spurning sem stelpurnar fá að velta fyrir sér síðar í vikunni. þetta er skemmtileg tilbreyting en ég er viss um að stelpurnar verða farnar að sakna strákanna þegar líða tekur á vikuna, og þeir þeirra...en hvort þau viðurkenni það er allt önnur saga.

0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home