sunnudagur, febrúar 20, 2005

Að spila út

Er búin að eyða lunganum af helginni niðri á Hótel Loftleiðum að horfa á Icelander open bridsmótið. Þó ég hafi ekki spilað mikið undanfarin ár þá finnst mér alltaf gaman að fara og kíkja á þetta mót. Í þetta sinn sóttu mótið fjölmargir erlendir bridsmeistarar, flestir frá Norðurlöndunum og Bandaríkjunum. Mig klæjar reyndar alltaf pínulítið í spilaputtana þegar horfi á en aldrei nógu mikið til þess að taka af skarið og byrja aftur að spila. Þetta "sport" er nefnilega glettilega tímafrekt og ef maður er í þessu af einhverri alvöru þá situr heimilið og börnin óhjákvæmilega á hakanum. Er ekki tilbúin í slíkt amk. ekki fyrr en þau verða orðin aðeins eldri. Ætla samt að spila með mömmsu og tveimur "gömlum" sveitarfélögum í Íslandsmóti kvenna í sveitakeppni um næstu helgi. Það verður án efa fróðlegt.....og vonandi bara gaman.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home