Að fá "Aþenu" í kollinn
Grískir guðir og gyðjur var umfjöllunarefnið hjá stelpubekknum mínum í hinu æsispennandi þema um trú og list. Fjölskyldusaga og tengsl þessara guðlegu manna og kvenna eru náttúrulega engu lík og ekki nema von að einstaka spurning hrjóti í vantrú af vörum skynsamra stúlkna. "Ha, átti Póseidon sjávarguðinn, hestinn Pegasus með slöngunorninni Medúsu? Hvernig fór hann að því? ...Og hvað meinarðu með að segja að gyðjan Afródíta hafi stigið upp úr sjávarlöðrinu fegurri en allt sem fagurt var, eftir að risinn Krónos henti afskornum kynfærum föður síns í sjóinn?" (..og er von að þær spyrji? Þó þið sem allt vitið, hafi vitað þetta þá komu ungar saklausar stúlkur alveg af fjöllum varðandi þessi mál:-) En þetta var nú bara lítið brot af því sem við fjölluðum um en það sem kom mér mest á óvart var hversu áhugasamar þær voru og virkar í umræðunni, spurðu mikið og komu með flottar athugasemdir. Til að mynda þegar við ræddum um "fæðingu" Aþenu, þ.e. þegar hún stökk alsköpuð út úr höfði Seifs, þá sagði ein skýr: ,, Já, þetta er svona eins og hugmynd í höfðinu á manni. Hann hefur séð hana svona skýrt fyrir sér að hún varð bara til. Svona eins og hugmynd sem verður að veruleika." Segið svo að maður læri ekki eitthvað nýtt. Mér fannst þetta altjént ferlega flott skýring. Á morgun fer ég svo og kynni Grísku guðina og gyðjurnar fyrir strákunum og það verður spennandi að sjá hvort þeir verði jafn áhugasamir og stelpurnar voru í dag.

2 Comments:
Já, þetta er rosaflott skýring. Hvað eru þetta gamlir krakkar?
Þessir gullmolar eru í 4. bekk. :-)
Skrifa ummæli
<< Home