þriðjudagur, janúar 29, 2008

Einn, tveir.......

Það líður svo langt á milli pósta hjá mér að ég þarf að grafa djúpt í minni mitt til að finna lykilorð og uppfæra ýmis tækniatriði sem nauðsynlegt er að að hafa á færi sínu þegar sest er við bloggskriftir. Sit sem stendur í tölvustofu ásamt 24 eldhressum 8 ára nemendum sem flest hver eru eldklárir tölvutumar. Í aðgerðarleysi mínu ákvað ég að rifja upp lykilorðið inn á þessa blessuðu síðu mína og ætla að gera enn eina tilraunina til að hefja bloggskrif á ný.
Allt byrjar einhvers staðar og hér byrja ég....aftur:-)

Af okkur er allt gott að frétta. Heimasætan orðin Verslingur og líkar það ákaflega vel. Hún er búin að vera að handboltast helling undanfarin tvö ár og spilar með Stjörnunni í Garðabæ. Sá yngsti er í 5. bekk og er að gera það verulega gott í skákinni um þessar mundir. Hefur m.a. verið valinn til að fara á Norðurlandamótið í skólaskák sem haldið verður í Danmörku um miðjan febrúar. Afi ætlar líklegast að fara með honum svo það mun ekki væsa um pilt og þetta verður án efa mikið ævintýri fyrir hann. Annar eldri unglingurinn er útskrifaður úr MH og er nú að vinna í BT á meðan hann hugsar sinn næsta leik. Hinn eldri unglingurinn skipti yfir í Borgarholtsskóla og hyggst sækja um í FÍH á vormánuðum. Vonandi kemst hann inn. Eiginmaðurinn er á fullu í handboltaþjálfun um þessar mundir og hefur sem fyrr brjálað að gera í vinnunni. Ég er enn með sama bekkinn, en nú eru þau orðin 8 ára og farin að geta ýmislegt í leik og starfi. Eru ákaflega flink og falleg börn sem gaman er að vinna með og umgangast. Það sem er sameiginlegt með þeim flestum er það að foreldrar þeirra styðja mjög þétt við bakið á þeim í námi og sinna þeim sérlega vel dag hvern. Sýnir enn og aftur að það er ekkert sem kemur í stað foreldra þegar kemur að því að þroska og ala upp börn:-)

þriðjudagur, júní 19, 2007

Bleikur dagur-bleikt nef


Kvennadagurinn í dag - og auðvitað skín sólin, enda "kvenna" stærst, heitust og feitust:-) Fór með snáðann í morgun og pantaði fyrir hann nýtt vegabréf. Ætla nefnilega að taka hann með mér til Svíþjóðar eftir hálfan mánuð og þá er betra að vera með passa. Svo skruppum við í sund. Þar hitti ég eina stöllu mína úr kennarastéttinni og það þýddi 2 klukkutíma spjall í heita pottinum og bleikt nef. Kisinn minn hann Skuggi er allur að braggast eftir að hafa sitgið á eitthvað oddhvasst sem stakkst á milli "tánna" á honum í síðustu viku og myndaði mikla bólgu og sýkingu. Hann hefur skakklappast um á 3 fótum undanfarið en sýnt fádæma snilld í hreyfingum þrátt fyrir augljósa örorku. Svo hefur hann fengið bólgueyðandi töflur tvisvar á dag í 5 daga. Töflur sem við smyglum ofan í hann með túnfiski.
Leikurinn á sautjándanum var æsispennandi og lauk eins og um var beðið, með nægilega stórum sigri okkar manna. Nú erum við komin inn á 9. stórmótið í röð í handboltanum og það er sko ekki lítið afrek hjá ekki stærri þjóð. Næst ætlum við að mæta á Laugardalsvöllinn á fimmtudaginn og styðja íslensku fótboltastelpurnar til sigurs gegn Serbíu (Serpíum)- þær eiga það svo sannalega skilið eftir að hafa gert lítið ú þessum frönsku um daginn. Áfram stelpur!

laugardagur, júní 16, 2007

Jésús minn...ætli nokkur lesi þetta?


Ákvað að reyna að grafa upp lykilorðið mitt að þessari rykföllnu síðu. Tókst það og nú ætla ég að reyna að halda þessari síðu eitthvað á floti í sumar. Búið að vera annasamur vetur hjá mér með 24 fjörug og frísk 7 ára börn og nú loksins sé ég fram á rólegri tíð. Er að vísu að undirbúa afmæli hjá mínum yngsta á morgun. Hann fyllir sinn fyrsta tug og hér verður fullt hús af skemmtilegum ættingjum og vinum. Svo er meiningin að skella sér á landsleikinn, Ísland - Serbía. Á 17. júní í fyrra fórum við á einn skemmtilegasta handboltaleik sem ég hef séð og vonandi verður leikurinn á morgun jafn gifturíkur. Áfram Ísland!

fimmtudagur, október 20, 2005

Einstaklega stelpumiðað nám

Las grein eftir Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur um daginn í Morgunblaði allra landsmanna. Ég gat ekki betur séð en að hún hefði þar áhyggjur af því að einstaklingsmiðað nám væri of stelpumiðað. Úr orðum hennar mátti lesa að stelpur legðu sig meira fram í námi og uppskæru því betri einkunnir (nema hvað..) og með einstaklingsmiðuðu námi þar sem eigin ábyrgð nemenda er meiri, myndi þessi munur aukast þar sem strákar myndu alltaf velja sér lágmarks vinnuframlag. Nú hef ég allnokkra reynslu af því að vinna út frá þessum hugmyndum um einstaklingsmiðað nám og þetta er alls ekki mín reynsla. Þvert á móti. Það er mun líklega að nemandi sem öllu jafna er neikvæður og vinnulatur vinni meira og betur finnist honum hann hafa haft eitthvað um námið að segja. Hvort sem um stelpu eða strák er að ræða.

Hvað er þetta einstaklingsmiðaða nám ?

Annars finnst mér margir hafa svolítið óskýra mynd af því hvað einstaklingsmiðað nám er og sumir halda jafnvel að það byggist á einstaklingsnámskrám líkt og sérkennarar hafa löngum gert fyrir sína nemendur. Einstaklingsmiðað nám er safnheiti yfir fjölbreytta kennsluhætti sem miðast við að koma til móts við þarfir hvers nemanda en um leið þjálfa nemandann upp í því að taka ábyrgð á eigin námi. Innlögn námsefnis skiptir hér miklu máli og má alls ekki glatast í umræðunni um einstaklingsmiðað nám. Þar sitja allir nemendur sama hvers kyns þeir eru við sama borð og kennarinn er í sínu "hefðbundna" hlutverki sem fræðari. Þegar kemur að úrvinnslu umfjöllunarefnis og þjálfun í ákveðnum námsþáttum tekur einstaklingsmiðunin við. Þá geta nemendur "valið" að vinna tilheyrandi verkefni á einn eða annan hátt á misjöfnum hraða og með mismunandi áherslum. Þeir setja sér markmið og velja leiðir til þess að ná þessum markmiðum í samráði við kennara sinn. Það má segja að kennarinn sé þá kominn í annað hlutverk sem verkstjóri eða ráðgjafi. Þessi hugsunarháttur í skólastarfi er alls ekki nýr og hafa íslenskir kennarar beitt þessum áðferðum um langt árabil án þess að nokkur hafi gert veður út af. Það var ekki fyrr en merkimiðinn “Einstaklingsmiðað nám” var settur á , sem vandræðin byrjuðu og kennarar héldu að þeir þyrftu að fara að læra að kenna upp á nýtt.

......

En aftur að upprunalega umræðuefninu . Það að strákum gengur verr í skóla er ekki einstaklingsmiðuðu námi að kenna. Nærtækara er að líta til annarra þátta s.s. búsetu, viðhorfa fjölskyldu og umhverfis til náms ofl. Reykvískir drengir standa til að mynda drengjum á landbyggðinni framar í námi. Hver sem skýringin er ...þá er hún ekki - einstaklingsmiðað nám.

sunnudagur, október 09, 2005

Nöldur og nagg

Skrítið....hvað tíminn líður hratt. Fannst ég bara hafa verið að skrifa fyrir nokkrum dögum en komst þá að því að það eru 2 vikur síðan?! Það hefur sannalega verið í nógu að snúast með litlu 6 ára pjakkana mína og allt sem þeim fylgir. Er svo útkeyrð þegar ég kem heim úr vinnunni að mér dettur ekki í hug að gera neitt annað en að dinglast heima hjá mér, sinna börnunum mínum og glápa svolítið á sjónvarpið. Las samt einhvers staðar á öldum netvakans að það væri alls ekki eins erfitt að kenna litlu krökkunum og þeim stærri af því að það væri svo lítil heimavinna. Right!? Sá sem skrifar svona hefur greinilega aldrei kennt þessum aldri og hefur lítinn skilning á umfangi kennslu og því sem henni fylgir. Æ...ég ætla að hætta þessu nöldri. Yfir og út...

sunnudagur, september 25, 2005

Helgin

Þetta gladdi mitt kvefaða geð í gær. Það hefði nú verið eins og strá salti í sárið ef við hefðum ekki einu sinni getað hangið á Íslandsmetinu:-)
Helgin búin að vera sallafín. Mikið sofið og svo auðvitað glímt við sunnudagskrossgátuna , sem nota bene var óvenju snúin í þetta sinn. Mig vantar að vita hvaða fólk fær krít strax og hvernig á að mæla sálnaflakk. Ef einhvers em les þetta veit, endilega setja í comment. :-) Svo er það handboltinn sem mér leiðist nú ekkert sérstaklega. fór á leik í gær og er einmitt á leiðinni fjörðinn að horfa á Hauka - FH í kvennaboltanum á eftir.
Á föstudagskvöldið var svo skrall hjá Borgaskólaliðinu sem heppnaðist frábærlega. Þvílíkur matur, þvílík skemmtiatriði og þvílíkar borðskreytingar!!! Þið sem af misstuð....þið misstuð af miklu.

laugardagur, september 24, 2005

frh. af rykið dustað af..

Grafarvogsdagurinn: Þegar heim var fór ég strax á fund hjá menningarmálanefnd Grafarvogs vegna Grafarvogsdagsins. Ég, Kristín og Sóley höfðum verið valdar í nefnd á vegnum skólans til að taka þátt í og undirbúa þennan dag þar sem skólinn okkar var viðtökuskóli Grafarvogsdagsins 2005. Það er skemmst frá því að segja að þessar 4 síðustu vikur sem við höfðum til undirbúnings fyrir þennan dag einkenndust af mikilli vinnu og enn meira stressi en þegar stóri dagurinn rann upp gekk allt eins og í sögu...og allir bara kátir (þó ekki hefði tekist að setja heimsmet í svippi eins og til stóð).

Skólinn. Ég byrjaði auðvitað að kenna eins og allir aðrir kennarar í ágúst. Í ár hef ég 14 falleg og fyndin sex ára börn undir mínum verndarvæng. Eg er líka komin með nýja fallega og fyndna samstarfskonu, sem var reyndar dáldið skrýtið fyrst þar sem ég hef verið í sama teyminu undanfarin 5 ár með henni Eydísi minni. En hún (Eydís, sko..) fór á Varmaland...og sér örugglega eftir því:-) (þori að veðja að hún saknar okkar óendanlega) Veturinn hefur sem sagt farið mjög vel af stað og mér lýst sérlega vel á árganginn okkar í heild.

Líkamsræktin. Hef því miður ekki verið neitt svakalega dugleg að sportast síðan ég byrjaði að kenna aftur....en fer þó 2-3x í viku og hef meira segja náð að komast í yoga-tima. Það var æði. Ætla aftur fljótlega.

Nú er næstum akkúrat ár síðan ég byrjaði að blogga. Það var í upphafi hins alræmda kennaraverkfalls. Það endaði eins og mönnum (og konum) er enn í fersku minni á skelfilegan hátt, þar sem okkur voru settir afarkostir og látin velja á milli þeirra. Allt þetta brölt skilaði okkur litlu og eru kennarar enn í dag að borga brúsann vegna verkfallsins.

Heimas�tan me� ensku fj�lskyldunni okkar Posted by Picasa

Rykið dustað af

Kristín er búin að senda mér beinar og óbeinar pílur vegna slakrar frammistöðu minnar í bloggskrifum. Ég hef því ákveðið að dusta rykið af lyklaborðinu og henda inn sýnishornum af lífi mínu undanfarnar vikur.
Fór út til heimasætunnar og dvaldi í nokrra dag í úthverfi norður af London hjá yndislegri fjölskyldu sem við kynntumst í fyrra þegar við fórum á Ólympíuleikana. Skoðaði m.a. Cambridge og verslaði svolítið. Átti einkar áhugaverðar samræður við Emmu(móðurina) um skólamál á Englandi. Emma er nefnilega kennari og ótrúlegt nokk þá voru vandamálin sem þau voru að glíma við í kennslu alls ekki ósvipuð okkar en hún skildi ekki hvernig við gátum haldið út svona metnaðarfullu starfi í skóla án aðgreiningar. Í Englandi eru sérstakir skólar fyrir nemendur með sértæk vandamál. Skólabúningar eru auðvitað allsráðandi en einnig þurftu kennararnir að hlýta ákveðnum reglum varðandi klæðnað. Kennslukonurnar urðu t.d. að vera í jakka, skyrtu/blússu og pilsi eða í buxnadragt. Engar gallabuxur, takk! Sæi okkur í anda:-) Mikil virðing er borin fyrir allri menntun og litið er upp til þeirra sem fara í háskóla (eða öllu heldur komast inn í háskóla). Marc(pabbinn) útskrifaðist einmitt úr Cambridge fyrir margt löngu og gat hann því farið alls staðar inn með okkur án þess neitt okkar þyrfti að borga. Þetta er stórkostlegur staður, gamlar virðulegar skólabyggingar í röðum og ákaflega gáfulegur andi sem sveif yfir vötnum. Ekki ósvipað og í auglýsingunni frá KB banka þar sem Þorsteinn G leikur eilífðarstúdentinn í röndótta jakkanum.