laugardagur, september 24, 2005

Rykið dustað af

Kristín er búin að senda mér beinar og óbeinar pílur vegna slakrar frammistöðu minnar í bloggskrifum. Ég hef því ákveðið að dusta rykið af lyklaborðinu og henda inn sýnishornum af lífi mínu undanfarnar vikur.
Fór út til heimasætunnar og dvaldi í nokrra dag í úthverfi norður af London hjá yndislegri fjölskyldu sem við kynntumst í fyrra þegar við fórum á Ólympíuleikana. Skoðaði m.a. Cambridge og verslaði svolítið. Átti einkar áhugaverðar samræður við Emmu(móðurina) um skólamál á Englandi. Emma er nefnilega kennari og ótrúlegt nokk þá voru vandamálin sem þau voru að glíma við í kennslu alls ekki ósvipuð okkar en hún skildi ekki hvernig við gátum haldið út svona metnaðarfullu starfi í skóla án aðgreiningar. Í Englandi eru sérstakir skólar fyrir nemendur með sértæk vandamál. Skólabúningar eru auðvitað allsráðandi en einnig þurftu kennararnir að hlýta ákveðnum reglum varðandi klæðnað. Kennslukonurnar urðu t.d. að vera í jakka, skyrtu/blússu og pilsi eða í buxnadragt. Engar gallabuxur, takk! Sæi okkur í anda:-) Mikil virðing er borin fyrir allri menntun og litið er upp til þeirra sem fara í háskóla (eða öllu heldur komast inn í háskóla). Marc(pabbinn) útskrifaðist einmitt úr Cambridge fyrir margt löngu og gat hann því farið alls staðar inn með okkur án þess neitt okkar þyrfti að borga. Þetta er stórkostlegur staður, gamlar virðulegar skólabyggingar í röðum og ákaflega gáfulegur andi sem sveif yfir vötnum. Ekki ósvipað og í auglýsingunni frá KB banka þar sem Þorsteinn G leikur eilífðarstúdentinn í röndótta jakkanum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home