sunnudagur, september 25, 2005

Helgin

Þetta gladdi mitt kvefaða geð í gær. Það hefði nú verið eins og strá salti í sárið ef við hefðum ekki einu sinni getað hangið á Íslandsmetinu:-)
Helgin búin að vera sallafín. Mikið sofið og svo auðvitað glímt við sunnudagskrossgátuna , sem nota bene var óvenju snúin í þetta sinn. Mig vantar að vita hvaða fólk fær krít strax og hvernig á að mæla sálnaflakk. Ef einhvers em les þetta veit, endilega setja í comment. :-) Svo er það handboltinn sem mér leiðist nú ekkert sérstaklega. fór á leik í gær og er einmitt á leiðinni fjörðinn að horfa á Hauka - FH í kvennaboltanum á eftir.
Á föstudagskvöldið var svo skrall hjá Borgaskólaliðinu sem heppnaðist frábærlega. Þvílíkur matur, þvílík skemmtiatriði og þvílíkar borðskreytingar!!! Þið sem af misstuð....þið misstuð af miklu.

laugardagur, september 24, 2005

frh. af rykið dustað af..

Grafarvogsdagurinn: Þegar heim var fór ég strax á fund hjá menningarmálanefnd Grafarvogs vegna Grafarvogsdagsins. Ég, Kristín og Sóley höfðum verið valdar í nefnd á vegnum skólans til að taka þátt í og undirbúa þennan dag þar sem skólinn okkar var viðtökuskóli Grafarvogsdagsins 2005. Það er skemmst frá því að segja að þessar 4 síðustu vikur sem við höfðum til undirbúnings fyrir þennan dag einkenndust af mikilli vinnu og enn meira stressi en þegar stóri dagurinn rann upp gekk allt eins og í sögu...og allir bara kátir (þó ekki hefði tekist að setja heimsmet í svippi eins og til stóð).

Skólinn. Ég byrjaði auðvitað að kenna eins og allir aðrir kennarar í ágúst. Í ár hef ég 14 falleg og fyndin sex ára börn undir mínum verndarvæng. Eg er líka komin með nýja fallega og fyndna samstarfskonu, sem var reyndar dáldið skrýtið fyrst þar sem ég hef verið í sama teyminu undanfarin 5 ár með henni Eydísi minni. En hún (Eydís, sko..) fór á Varmaland...og sér örugglega eftir því:-) (þori að veðja að hún saknar okkar óendanlega) Veturinn hefur sem sagt farið mjög vel af stað og mér lýst sérlega vel á árganginn okkar í heild.

Líkamsræktin. Hef því miður ekki verið neitt svakalega dugleg að sportast síðan ég byrjaði að kenna aftur....en fer þó 2-3x í viku og hef meira segja náð að komast í yoga-tima. Það var æði. Ætla aftur fljótlega.

Nú er næstum akkúrat ár síðan ég byrjaði að blogga. Það var í upphafi hins alræmda kennaraverkfalls. Það endaði eins og mönnum (og konum) er enn í fersku minni á skelfilegan hátt, þar sem okkur voru settir afarkostir og látin velja á milli þeirra. Allt þetta brölt skilaði okkur litlu og eru kennarar enn í dag að borga brúsann vegna verkfallsins.

Heimas�tan me� ensku fj�lskyldunni okkar Posted by Picasa

Rykið dustað af

Kristín er búin að senda mér beinar og óbeinar pílur vegna slakrar frammistöðu minnar í bloggskrifum. Ég hef því ákveðið að dusta rykið af lyklaborðinu og henda inn sýnishornum af lífi mínu undanfarnar vikur.
Fór út til heimasætunnar og dvaldi í nokrra dag í úthverfi norður af London hjá yndislegri fjölskyldu sem við kynntumst í fyrra þegar við fórum á Ólympíuleikana. Skoðaði m.a. Cambridge og verslaði svolítið. Átti einkar áhugaverðar samræður við Emmu(móðurina) um skólamál á Englandi. Emma er nefnilega kennari og ótrúlegt nokk þá voru vandamálin sem þau voru að glíma við í kennslu alls ekki ósvipuð okkar en hún skildi ekki hvernig við gátum haldið út svona metnaðarfullu starfi í skóla án aðgreiningar. Í Englandi eru sérstakir skólar fyrir nemendur með sértæk vandamál. Skólabúningar eru auðvitað allsráðandi en einnig þurftu kennararnir að hlýta ákveðnum reglum varðandi klæðnað. Kennslukonurnar urðu t.d. að vera í jakka, skyrtu/blússu og pilsi eða í buxnadragt. Engar gallabuxur, takk! Sæi okkur í anda:-) Mikil virðing er borin fyrir allri menntun og litið er upp til þeirra sem fara í háskóla (eða öllu heldur komast inn í háskóla). Marc(pabbinn) útskrifaðist einmitt úr Cambridge fyrir margt löngu og gat hann því farið alls staðar inn með okkur án þess neitt okkar þyrfti að borga. Þetta er stórkostlegur staður, gamlar virðulegar skólabyggingar í röðum og ákaflega gáfulegur andi sem sveif yfir vötnum. Ekki ósvipað og í auglýsingunni frá KB banka þar sem Þorsteinn G leikur eilífðarstúdentinn í röndótta jakkanum.

sunnudagur, september 04, 2005

Til ykkar þrautseiga fólk...

Rakst á þennan vísdóm hjá gamalli bekkjarsystur og ákvað að leyfa ykkur "dyggu lesendum" þessarar síðu að njóta líka.

"Jákvæða hliðin á lífinu"


Það er dýrt að lifa á þessari jörð, en það er innifalin ókeypis hringferð um sólina á hverju ári.

Afmælisdagar eru góðir fyrir þig - því fleiri sem þú átt, því lengur lifirðu.

Hamingjan kemur inn um dyrnar sem þú veist ekki einu sinni af að þú hefur opnað.

Hefurðu tekið eftir því að fólk sem kemur of seint er oft mikið glaðara en fólk sem hefur þurft að bíða eftir því?

Það getur verið að þú sért stundum eina manneskjan í heiminum, en þú ert líka ef til vill allur heimurinn fyrir eina manneskju.

Sum mistök eru allt of skemmtileg til að gera þau bara einu sinni.

Ekki gráta af því að því er lokið, brostu af því að það gerðist.

Raunverulega hamingjusamur maður er sá sem getur notið þess sem gerist þegar hann endurtekur ferðina.

Eða eins og einn maður sagði - það að vera hamingjusamur er ákvörðun.

Eigðu frábæran dag og vittu að einhver sem þykir þú skipta máli hefur hugsað til þín í dag!

"Og þessi einhver er ég.".....luv jú all

Ekki sitja ein/n að þessum skilaboðum....., sendu þau til einhvers sem er þér svo mikilvægur.... "NÚNA"