þriðjudagur, júní 19, 2007

Bleikur dagur-bleikt nef


Kvennadagurinn í dag - og auðvitað skín sólin, enda "kvenna" stærst, heitust og feitust:-) Fór með snáðann í morgun og pantaði fyrir hann nýtt vegabréf. Ætla nefnilega að taka hann með mér til Svíþjóðar eftir hálfan mánuð og þá er betra að vera með passa. Svo skruppum við í sund. Þar hitti ég eina stöllu mína úr kennarastéttinni og það þýddi 2 klukkutíma spjall í heita pottinum og bleikt nef. Kisinn minn hann Skuggi er allur að braggast eftir að hafa sitgið á eitthvað oddhvasst sem stakkst á milli "tánna" á honum í síðustu viku og myndaði mikla bólgu og sýkingu. Hann hefur skakklappast um á 3 fótum undanfarið en sýnt fádæma snilld í hreyfingum þrátt fyrir augljósa örorku. Svo hefur hann fengið bólgueyðandi töflur tvisvar á dag í 5 daga. Töflur sem við smyglum ofan í hann með túnfiski.
Leikurinn á sautjándanum var æsispennandi og lauk eins og um var beðið, með nægilega stórum sigri okkar manna. Nú erum við komin inn á 9. stórmótið í röð í handboltanum og það er sko ekki lítið afrek hjá ekki stærri þjóð. Næst ætlum við að mæta á Laugardalsvöllinn á fimmtudaginn og styðja íslensku fótboltastelpurnar til sigurs gegn Serbíu (Serpíum)- þær eiga það svo sannalega skilið eftir að hafa gert lítið ú þessum frönsku um daginn. Áfram stelpur!

laugardagur, júní 16, 2007

Jésús minn...ætli nokkur lesi þetta?


Ákvað að reyna að grafa upp lykilorðið mitt að þessari rykföllnu síðu. Tókst það og nú ætla ég að reyna að halda þessari síðu eitthvað á floti í sumar. Búið að vera annasamur vetur hjá mér með 24 fjörug og frísk 7 ára börn og nú loksins sé ég fram á rólegri tíð. Er að vísu að undirbúa afmæli hjá mínum yngsta á morgun. Hann fyllir sinn fyrsta tug og hér verður fullt hús af skemmtilegum ættingjum og vinum. Svo er meiningin að skella sér á landsleikinn, Ísland - Serbía. Á 17. júní í fyrra fórum við á einn skemmtilegasta handboltaleik sem ég hef séð og vonandi verður leikurinn á morgun jafn gifturíkur. Áfram Ísland!