fimmtudagur, október 20, 2005

Einstaklega stelpumiðað nám

Las grein eftir Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur um daginn í Morgunblaði allra landsmanna. Ég gat ekki betur séð en að hún hefði þar áhyggjur af því að einstaklingsmiðað nám væri of stelpumiðað. Úr orðum hennar mátti lesa að stelpur legðu sig meira fram í námi og uppskæru því betri einkunnir (nema hvað..) og með einstaklingsmiðuðu námi þar sem eigin ábyrgð nemenda er meiri, myndi þessi munur aukast þar sem strákar myndu alltaf velja sér lágmarks vinnuframlag. Nú hef ég allnokkra reynslu af því að vinna út frá þessum hugmyndum um einstaklingsmiðað nám og þetta er alls ekki mín reynsla. Þvert á móti. Það er mun líklega að nemandi sem öllu jafna er neikvæður og vinnulatur vinni meira og betur finnist honum hann hafa haft eitthvað um námið að segja. Hvort sem um stelpu eða strák er að ræða.

Hvað er þetta einstaklingsmiðaða nám ?

Annars finnst mér margir hafa svolítið óskýra mynd af því hvað einstaklingsmiðað nám er og sumir halda jafnvel að það byggist á einstaklingsnámskrám líkt og sérkennarar hafa löngum gert fyrir sína nemendur. Einstaklingsmiðað nám er safnheiti yfir fjölbreytta kennsluhætti sem miðast við að koma til móts við þarfir hvers nemanda en um leið þjálfa nemandann upp í því að taka ábyrgð á eigin námi. Innlögn námsefnis skiptir hér miklu máli og má alls ekki glatast í umræðunni um einstaklingsmiðað nám. Þar sitja allir nemendur sama hvers kyns þeir eru við sama borð og kennarinn er í sínu "hefðbundna" hlutverki sem fræðari. Þegar kemur að úrvinnslu umfjöllunarefnis og þjálfun í ákveðnum námsþáttum tekur einstaklingsmiðunin við. Þá geta nemendur "valið" að vinna tilheyrandi verkefni á einn eða annan hátt á misjöfnum hraða og með mismunandi áherslum. Þeir setja sér markmið og velja leiðir til þess að ná þessum markmiðum í samráði við kennara sinn. Það má segja að kennarinn sé þá kominn í annað hlutverk sem verkstjóri eða ráðgjafi. Þessi hugsunarháttur í skólastarfi er alls ekki nýr og hafa íslenskir kennarar beitt þessum áðferðum um langt árabil án þess að nokkur hafi gert veður út af. Það var ekki fyrr en merkimiðinn “Einstaklingsmiðað nám” var settur á , sem vandræðin byrjuðu og kennarar héldu að þeir þyrftu að fara að læra að kenna upp á nýtt.

......

En aftur að upprunalega umræðuefninu . Það að strákum gengur verr í skóla er ekki einstaklingsmiðuðu námi að kenna. Nærtækara er að líta til annarra þátta s.s. búsetu, viðhorfa fjölskyldu og umhverfis til náms ofl. Reykvískir drengir standa til að mynda drengjum á landbyggðinni framar í námi. Hver sem skýringin er ...þá er hún ekki - einstaklingsmiðað nám.

sunnudagur, október 09, 2005

Nöldur og nagg

Skrítið....hvað tíminn líður hratt. Fannst ég bara hafa verið að skrifa fyrir nokkrum dögum en komst þá að því að það eru 2 vikur síðan?! Það hefur sannalega verið í nógu að snúast með litlu 6 ára pjakkana mína og allt sem þeim fylgir. Er svo útkeyrð þegar ég kem heim úr vinnunni að mér dettur ekki í hug að gera neitt annað en að dinglast heima hjá mér, sinna börnunum mínum og glápa svolítið á sjónvarpið. Las samt einhvers staðar á öldum netvakans að það væri alls ekki eins erfitt að kenna litlu krökkunum og þeim stærri af því að það væri svo lítil heimavinna. Right!? Sá sem skrifar svona hefur greinilega aldrei kennt þessum aldri og hefur lítinn skilning á umfangi kennslu og því sem henni fylgir. Æ...ég ætla að hætta þessu nöldri. Yfir og út...