laugardagur, maí 14, 2005

Vinir og vandamenn

Sá sjö ára er í einhverjum svakalegum vinaham þessa dagana. Honum nægir ekki lengur að vera bara með besta vininum daginn út og daginn inn. Nei, o nei. Ég vogaði mér inn í herbergið hans áðan og mér sýndist ekki færri en sjö pjakkar á hans aldri vera þar í sátt og samlyndi yfir einhverjum tölvuleikjum og spilum. Bíðið við, nú hringdi dyrabjallan og einn snáðinn enn spurði með engilbjartri ásjónu hvort hann Dagur gæti leikt? Ég varaði hann við fjöldanum sem tæki á móti honum en hann brosti bara og sagði að það gerði ekkert til. Svo fór hann inn og var tekið opnum örmum. Það sem mér finnst ótrúlegast er hversu lítill ágreiningur virðist vera á milli þeirra og allir virðast velkomnirí hópinn. Mig grunaði svo alls ekki að karlkyns verur gætu verið svona þroskaðar í framkomu.

Fór í jarðaför í gær hjá kærum fjölskylduvini. Kannski ekki frásögum færandi nema að söngurinn og tónlistin í jarðaförinni var í svo háum gæðaflokki að enginn varð ósnortinn. Lögin sem sungin voru minntu mann svo sterkt á hinn látna að stundum virtist manni sem hann stæði hjá, ljóslifandi með kankvíst bros á vör. Ótrúlegt hvað tónlist getur haft djúpstæð áhrif og kallað fram sterkar tilfinningar. Þá rennur líka upp fyrir manni hve lífið er hverfult og hvað það er alls ekki sjálfsagt að allir ástvinir manns verði alltaf til staðar. Neita því ekki að ég faðmaði mína extra mikið þegar ég kom heim. Ég get nefnilega ekki með orðum lýst hversu mikilvæg fjölskyldan mín og vinir eru mér og skammast mín fyrir að sýna það ekki greinilegra dag hvern. En ef þið lesið þetta elsku fólk....þá segi ég bara: Elska ykkur ...út fyrir endimörk alheimsins ( eins og sá 7 ára myndi segja:-)


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home