Græjubófar og grunnskólaþjófar.
Af mér er það helst að frétta að við hjónin brugðum okkur á knattspyrnuleik í Laugardalnum sl. mánudagskvöld. Væri ekki í frásögur færandi nema að þegar við gengum út af leikvanginum og að rennireið okkar sem var að þessu sinni rauður Skódi kom í ljós að einhver óprúttinn hafði gert sér lítið fyrir og brotið litla rúðu í afturglugganum, opnað þannig bílinn og rænt svo græjunum úr honum. Okkur brá óneitanlega. Áttum síst á þessu von , um hábjartan dag á fjölförnu bílastæði. Bófinn skildi eftir svart skrúfjárn í framsætinu, sem við létum reyndar í vörslu lögreglunnar ( ef einhvern þar langaði í CSI leik). Ef einhver sem les þetta, þekkir einhvern sem nýverið hefur glatað svörtu skrúfjárni en eignast ljómandi ágætar bílgræjur þá væri gaman að fá upplýsingar um kauða. Annars er líklegast að þetta hafi verið einhver aumingjans dópisti sem vantaði bara fyrir einum skammti eða svo og þetta hafi verið auðveldasta leiðin til að búa til peninga. Skrapp á fund í gærkvöldi sem haldinn var á vegum KFR. Umræðuefnið var stytting náms til stúdentsprófs. Mæting af hálfu grunnskólakennara var ótrúlega léleg. Það virðist með þetta mál eins og svo mörg önnur sem snúa að stéttinni okkar, að enginn segir neitt eða gerir neitt fyrr en það er búið að koma þessu fyrirkomulagi á , og nóta bene án nokkurs samráð við kennarastéttina. Þá verður byrjað að tuða og nöldra. En þá er það líka orðið of seint. Þetta mál er nefnilega á leið út úr umræðu og á blússandi ferð til framkvæmda. Eins vanhugsað og dýrt dæmi sem það er. Ég fyrir mitt leyti er ferlega pirruð á þessari eilífu þörf ráðamanna (sem hafa oft lítið vit á því sem er að gerast í skólum landins) til að breyta og "bæta" vegna þess að þeir telja að hér hljóti allt að vera í tómu tjóni. Svo skil ég ekki þessa ofuráherslu á þennan hóp nemenda þ.e. nemendur sem ætla að taka stúdentspróf. Skil heldur ekki hvernig á að klessa þessum auka einingum í stærðfræði, íslensku, ensku og dönsku inn í grunnskólann...yfir alla línuna...þegar vitað er að ríflega helmingur grunnskólabarna á fullt í fangi með að fylgja þeirri námskrá sem nú er í gildi. Ef við gætum ekki að okkur verður búið að ræna grunnskólann sérkennum sínum og jafnvel námsárum. En allt um það. fundurinn í gær var ákaflega málefnalegur og gagnlegur..vildi bara að fleiri hefðu verið. |
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home