fimmtudagur, júní 16, 2005

Afmælisundirbúningur

Stend hér í ströngu við að undirbúa afmæli drengsins sem verður bráðum 8 ára. Eitt í dag fyrir vinina og annað á morgun á hinum raunverulega afmælisdegi, fyrir familíuna. Ákvað samt að setjast aðeins niður og kanna netheima og kannski skrifa pínupons áður en ég helli mér á fullum krafti í undirbúninginn. Þvottavél heimilisins bilaði í fyrrradag og í gær kom þvottavéladoktor og sagði að það kostaði 25000 krónur að gera við hana og ég yrði að vera þvottavélalaus í nokkra daga á meðan...það var nóg til þess að ég ákvað að kaupa nýja vél..enda ekki verið neitt sérlega sæl með þessa sem ég hafði þó ekki átt í nema 3 ár. Núna þvæ ég og þvæ í nýju siemens-vélinni, alsæl en þó nokkrum þúsundköllum fátækari.Þar sem ég var að taka til í tölvunni minni um daginn rakst ég á þetta ljóð sem ég orti fyrir nemendur mína í fyrra þegar ég var að kveðja þá eftir 4 ára samveru. Þetta er bekkur sem ég mun aldrei gleyma enda var hann minn fyrsti umsjónarbekkur.

Ég man

tannlaus brosin

tindrandi augunog tíumilljón spurningar.

Ég man

hlýjar barnshendur

húfuklædd höfuðog hjartanlegan hlátur.

Ég man

barnslegu einlægnina

blikandi stoltiðog bekkjarkvöldin.

Ég man

sex ára svipinn

sjö ára flissiðog skólatöskur í gúmmístígvélum.

Ég man

krummafót

kríuegg og kátustu krakkana.

Ég man

að ég ætlaði að kenna ykkur

svo margt.

Hvað, man ég ekki lengur.

Það eina sem ég man

er það sem þið kennduð mér.


0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home